Færslur: 2015 Apríl

30.04.2015 21:31

Og meira svona afmælis

 

Þessi voru í aðal partýhorninu.

 

 

............framhald úr aðal horninu.

 

 

Það myndaðist smá biðröð í veitingarnar en allt kom þetta þó að lokum.

 

 

Nágrannar mínir fyrir innan fjall voru slakir.

 

 

Það var stuð á Borgarnesdeildinni.

 

 

Allt að gerast.............

 

 

Þessi fallega frú var kát og hress.

 

 

Og fleiri skemmtilegir Borgnesingar og Caroline okkar.

 

 

Þessi voru voða stillt í röðinni.

 

 

Kokkurinn kannar hvort það sé ekki allt í góðu.

 

 

Gaman saman.

 

 

Þessar sætu dömur voru líka í stuði.

 

Næst koma svo myndir frá söngnum, dansinum og öllu hinu.

Það er af nægu að taka og þá ætla ég líka að segja ykkur aðeins frá frábærum gjöfum sem kella fékk.

Nú er hinsvegar sófinn næstur enda búinn að vera góður dagur og mikið riðið út.

Ég er komin með svæsna skeiðdellu eftir sprett dagsins sem var rosalega skemmtilegur.

Mig dreymir örugglega vel í nótt.................leggja, leggja.................

28.04.2015 21:37

Fimmtug og orðlaus............

 

Kæru vinir hvað get ég sagt ?

Jú, takk fyrir að gera fimmtugsafmælið mitt algjörlega ógleymanlegt.

Ég hafði miklar væntingar fyrir kvöldið en ég er 100 % ánægðari en mig nokkurn tímann dreymdi um.

Þið eruð dásamleg og ég er ykkur óendanlega þakklát.

Kærar þakkir fyrir komuna, kveðjurnar, stórkostlegar gjafir og bara fyrir það að eiga ykkur að.

Dásamlegt.

Það er efni í margar bloggfærslur að tíunda það sem fram fór en til að byrja með ætla ég að smella inn nokkrum myndum.

 

Allt að fara af stað.............

 

 

Það var þétt setið en þröngt mega sáttir sitja.

 

 

Langafi og langamma á veggnum sáu að allt fór vel fram.

 

 

Þessar elskur báru ábyrgð á öllu sem fram fór í eldhúsinu, Jonni Kænuvert og stóri Hallur frændi minn.

Á matseðlinum var sjálfsögðu dýrindis Kænu - Jonna -humarsúpa og gúllassúpa með Hnappadalsbragði. Meðlætið var brauð með Guðdómlegum Tálknfirsku sjávarfangi.

Þessu var svo skolað niður með alskyns drykkjum og þar ber helst að nefna ,,heilsudrykk hestamannsins,, sem var afar vinsæll.

Já þessir strákar eru ekki bara flottir í réttunum.

 

 

Þessi er ekki bara góða við að brynna búfé.

Ónei hún stóð vaktina með heilsudrykk hestamannsins allt kvöldið.

 

 

Þessi voru hress að vanda, dásamlegu stelpurnar mínar í góðum félagsskap.

 

 

Kátir voru karlar á.......................

Krossholtsbóndinn og Gunnlaugsstaðabóndinn á góðri stundu.

 

 

Þessir fínu frændur mínir voru hressir, þarna eru þeir örugglega eitthvað að bralla.

Eins og kom svo í ljós þegar leið á kvöldið..........................nánar um það síðar.

 

 

....................fast þeir sóttu sjóinn suðurnesjamenn....................

Nei þetta eru að sjálfsögðu suðurnesjadömur þær Hulda Geirs og Björg með Pétur minn uppáhalds smala með sér.

 

Alltaf svo létt yfir hestamönnum.

 

 

Hún Freyja var klárlega best klædda frúin í þessari veislu, þau hjónin létu sig ekki muna um að fara um langan vel til að vera með okkur þetta kvöld.

Þetta er bara byrjunin ég á helling af góðum myndum frá þessu frábæra kvöldi.

Eins á ég von á að tveir vinir mínir sem að mynduðu í gríð og erg láti mig njóta góðs af.

Myndum af skemmtiatriðum, dansi og öllu hinu..................

Ég bæti í myndasafnið við fyrsta tækifæri.

 

25.04.2015 11:57

Það verður fjör.................

 

Þá er komið að því.

Þar sem húsfreyjan er oðrin hálfrar aldar gömul er ekki seinna vænna að fagna því.

Af því tilefni verður fagnað í Félagsheimilinu Lindartungu í kvöd 25 apríl kl 19.00

Léttar veitingar, stuð og stemming. Óvæntar uppákomur og algjörlega fyrirséðar í bland.

Þeir sem vilja fagna með frúnni eru hjartanlega velkomnir.

Kæru vinir hlakka til að sjá ykkur.

Sigrún

22.04.2015 22:31

Hálfnuð í hundrað.

 

Dásamlegar minningar frá samverunni á herbergi 315 í Laugargerðisskóla.

F.v Helga frá Heggstöðum sem ber ábyrgð á þessari mynd, Sigríður Jóna í Hraunholtum, húsfreyjan fimmtuga í Hallkelsstaðahlíð og Arnfríður frá Breiðabólsstað á Skógarströnd.

Þegar þetta er skrifað hefur húsfreyjan verið hálfraraldar gömul í svona fimm tíma eða svo.

Kom í heiminn átta mínútur fyrir sex á sumardaginn fyrsta sagði mamma mér í gær.

Skrítin tilfinning að vera komin á sextugsaldurinn en þó svo yndisleg og ekki öllum gefið.

Dagurinn var góður eins og flestir mínir dagar. Salómon svarti vakti mig með söng sem sennilega var ekki afmælissöngurinn heldur nett skipun um að koma mér fram úr sem fyrst. Það var svo algjör tilviljun að honum langði í mat einmitt á þessum tíma.

Sól skein í heiði hér í Hlíðinni og fuglarnir sungu tónverk af bestu gerð.

Deginum var svo vel varið við bústörf og önnur verk sem telst til forréttinda að fá að framkvæma. Yfirsnúningur er eftirlæti afmælisbarnsins en með meiri reynslu af lífinu er kannske rétt að velja sér annað uppáhald.

Þegar dásemdar íslenska lambakjötsins var notið hafið klukkan tifað óhóflega og nálgaðist óðum níu.

Ef að tíminn flýgur þá er gaman, munið það kæru vinir.

Dagurinn var kryddaðu með nokkrum tugum af skemmtilegum símtölum sem innihéldu árnaðaróskir í tilefni dagsins. En þegar ég settist við tölvuna og sá að hátt í fimmhundruð manns höfðu gefið sér tíma til að senda mér línu................þá fékk ég bara sand í augun.

Nú er næsta verkefni að lesa allar þessar fallegu kveðjur. Þetta eru kveðjur úr nokkrum heimsálfum.

Kveðjur frá vinnufólkinu mínu, frændfólki, vinum og meira að segja nokkrar frá hestunum mínum.

Skemmtilegir húmoristar fá að njóta sín og einn vinnumaðurinn var sennilega að díla um launahækkun því hann óskaði mér til hamingju með 30 árin.

Þetta er dásamlega gaman sennilega væri rétt að verða oftar fimmtug.

Þann 25 apríl ætla ég svo að fagna þessum áfanga í Félagsheimilinu Lindartungu kl 19.00

Léttar veitingar, stuð og stemming.

Þeim sem langar að fagna með mér og eiga góða kvöldstund eru hjartanlega velkomnir.

Njótið lífsins kæru vinir, lífið er núna.

 

06.04.2015 22:57

Afmælis og páskastúss

 

Hefðarkötturinn og sálgæsluherrann Salómon svarti fagnaði 16 ára afmæli sínu þann 4 apríl.

Af því tilefni smellti húsfreyjan inn nokkrum vel völdum myndum á fésbókina.

Þar tók Salómon á móti miklum fjölda ,,læka,, og heillaóska enda eru árin orðin 112 ef hann væri maður. Salómon er vel ern og gengur enn til allra nauðsynlegar verka svo sem músaveiða, villikatta slagsmála og eftirlitsferða. Að ógleymdum sálgæslustörfum sem farast honum einstaklega vel.

Eins og þið getið séð eru tvö veiðihár orðin grá, já hann tollir í sjarmatískunni þessi.

Er ekki annars ,,inn,, að vera með grátt skegg í dag ??

Á afmælisdaginn voru að sjálfsögðu kjúklingabringur, kjötbollur í mikilli sósu og rjómi á matseðlinum.

Jú krakkar þetta er alveg eðlilegt hann er jú hefðarköttur í fullri vinnu.

Ætli næsta afmælisbarn á heimilinu fái eins margar afmæliskveðjur ???

 

Mummi flaug til Ameríku fyrir nokkru og er þar að heimsækja Gosa vin okkar frá Lambastöðum.

Hann sendi mér mynd á fésbókinni sem sýndi sólbrenndan gaur í sumarblíðu. Ég sendi til baka mynd af gegndrepa kellu sem þurfti ekkert að vesenast með sólarvörn.

Heppin hún ..................nú eða hann ?

Gosi er hress og kátur enda á frábærum stað með góðu fólki. Það er svo gaman að fylgjast með hestunum sem komnir eru á nýjar slóðir og gera gott.

Mig grunar að Mummi komi með sumarið þegar hann kemur heim.

Páskarnir voru ljúfir hér í Hlíðinni, gestagangur, veisluhöld í því efra og hestastúss við hæfi.

Já ég brunaði í Sprettshöllina og dæmdi töltkeppni þeirra ,, Allra sterkustu,, góð kvöldstund með góðu fólki og frábærum hestum. Ég hef nokkrum sinnum dæmt þessi mót en sennilega hafa þau aldrei verið svona sterk. Þvílík veisla og svo er það Stóðhestaveislan um næstu helgi.

 

02.04.2015 22:02

Um víðan völl

 

,,Er ekki kominn tími til að tengja" segir í einu góðu dægurlagi.

Það er vel við hæfi að raula það þegar loksins er sest niður og tilraun gerð til bloggskrifa.

Ekki er það svo að lítið hafi verið um að vera og þess vegna engar fréttir að fá héðan úr Hlíðinni.

Ó nei öðru nær.

Nú reynir á kellu að muna eitthvað af því sem á dagana hefur drifið.

Á myndinni sem hér fylgir með eru þau Mummi og Gangskör frá Hallkelsstaðahlíð. Þau tóku þátt í sýningu vestlenskra hestamanna sem fram fór um síðustu helgi. Mummi fór með Gangskör og Báru frá Lambastöðum í hryssuflokkana en Fannar tók þátt í skeiðinu.

Margir góðir gæðingar komu fram á þessari sýningu sem var hin besta skemmtun.

Það er alltaf gaman að sjá það sem tamningamenn, ræktendur og aðrir hafa fram að færa hér á vesturlandi. Árviss viðburður sem bara batnar með hverju árinu.

Takk fyrir góða kvöldstund knapar og allir þeir sem komu að þessari sýningu.

 

Halldór og Iðunn í Söðulsholti, Randi á Skáney, ég og Sjóðsi minn, Skúli og Baltasar, Valentínus frá Stykkishólmi.

Söðulsholtsbændur héldu skemmtilegt töltmót fyrir stuttu síðan.

Gott framtak þar sem gleði og jákvæði var haft að leiðarljósi. Meira af svona kvöldstundum.

 

Pollaflokkurinn var flottur áhugasamir knapar með allt sitt á hreinu.

Gísli á Minni-Borg, Kristín Eir á Skáney og Friðjón Haukur á Snorrastöðum.

Takið sérstaklega eftir hár (fax) greiðslunni á þeirri jarpblesóttu.

 

 

Þarna eru tveir hressir Gísli Páls og Mummi en hann fór með Rjóð Feykisdóttur í hennar fyrstu keppni.

 

 

Áhugasamir áhorfendur meta töltarana og að sjálfsögðu knapana.

Ég er búin að dæma mörg skemmtileg mót að undanförnu og nokkur mjög spennandi á næstunni.

Endalaust gaman að fylgjast með góðum hestum og færum knöpum spreyta sig á vellinum.

 

 

Hún Caroline okkar er farin heim til Danmerkur þarna er hún að knúsa vin sinn Salómon svarta.

 

 

Snotra fékk líka sitt enda eru þær Caroline og hún miklar vinkonur.

Við hlökkum öll til að hitta Caroline aftur fljóttlega.

 

 

Við vorum svo heppin hér í Hlíðinni að fá til okkar franskan verknema hann Alexandre.

Hann stóð sig frábærlega og erum við strax farin að sakna hans.

Á myndinni er hann með kennaranum sínu sem kom hingað til okkar og fylgdist með.

 

 

Rúningurinn gekk vel og nú eru allar kindur á bænum komnar með sumarklippinguna.

 

 

Þessum fannst nú frekar dapurt að þufa bíða eftir matnum sem kom frekar seint að þeirra mati.

 

 

Skúli tók góða sveiflu við rúninginn eins og venjulega.

 


 

 

Svo voru það þessir sem mættu og gerðu lífið auðveldara.

Þórður í Mýrdal og Maron vinnumaður stóðu sig afbragðs vel.

 

 

Nokkrir gemlingar undan hrúti frá Kjartani og Guðrúnu á Dunki röðuðu sér upp fyrir myndatöku.

Þeir og ég voru bara sátt við þá þegar ullin var fokin. Annars er það helst að frétta úr fjárhúsunum að sónarskoðun kom bara nokkuð vel út þetta árið. Enda kominn tími til eftir allar hremmingarnar. Nú er bara að krossa fingur og vona að allt fari vel. Það var heldur minna þrílemt en venjulega og fleiri einlembur sérstaklega á það við um tvævetlurnar. En heilbrigði og lömb í kindunum er gulli dýrmætara fyrir stressaða bændur.

Ef allt fer að óskum fæðast hér vel á annað þúsund lömb í vor.

 
  • 1