Færslur: 2018 Apríl

19.04.2018 23:06

Gleðilegt sumar.

 

Gleðilegt sumar kæru vinir, já og takk fyrir veturinn.

Það er ekki ofsagt að blíðan hefur leikið við okkur síðustu daga og gefið okkur fögur fyrirheit um gott vor.

Ég verð þó að leyfa mér að efast............. en bara í smá stund.

Eftir að hafa vaknað við fuglasöng undir öruggri stjórn stelksins er ég full bjartsýni og hlakka til að mæta góðu vori.

Lóan, tjaldurinn og stelkurinn ætla ekki að fá ,,seint í kladdann,, þetta vorið. Hrossagaukurinn og spóinn eru varkárari og taka sjensinn.

Eins og vera ber alin upp með Hrafnhildi ömmu er sumar dagurinn fyrst alltaf hátíðisdagur hér í Hlíðinni.

Góður matur og veglegt kaffi var málið og ekki mátti gleyma að fara í betri fötin til að taka nú vel á móti sumrinu.

Annað sem var mjög mikilvægt hjá henni ömmu minni var að fara ekki seint á fætur á sumar daginn fyrsta. Það gat hæglega gefið tóninn um ódugnað og sluks á komandi sumri. Það var bannað.

Hér á bæ var veturinn kvaddur með virtum, bústörf og hestastúss voru málið en þegar líða fór á daginn stakk húsfreyjan af og brunaði á hestamót. Það mót var þriðja mót Hestamannafélagsins Snæfellings á árinu sem hadið var í Grundarfirði. Hin tvö hafa verið haldin í Ólafsvík og Stykkishólmi.

Snildar mót sem hafa heppnast afar vel með góðri þátttöku félagsmanna. Mikið sem það er gaman hversu mikið líf er að koma aftur í hestamennskuna hér á Snæfellsnesinu.

Sumri var svo fagnað með góðum gestum sem mættu í húsin vel fyrir hádegi (hálfellefu) síðan var brunað í Norðurárdalinn.

Þar var opið hús í fjárhúsunum hjá Brekkubændum þeim Þórhildi, Elvari og börnum. Frábært framtak, gaman að skoða hjá kollegunum og hitta skemmtilegt fólk.

Takk fyrir góða mótttökur og ánægjustundir Brekkubændur.

Þegar heim var komið biðu bústörf og kröfuharður búpeningur sem hafði engan skilning á bæjarrápi og seinkun á gjöfum. Við vorum 0 stjörnu bændur að þeirra mati og áttum fátt gott skilið.

 

Annars gengur lífið sinn vana gang með dásemdar stundum í reiðhöllinni já og útá vegi.

Tamningar og þjálfun í fullum gangi og allt eins og til er ætlast.

Ja nema kannski tíminn hann fer alltaf minkandi hvað sem hver segir.

 

 

 

 

04.04.2018 22:06

Ráðherra, rafmagn og frjálsar ástir.

 

Við hér í Hlíðinni fengum góða heimsókn í dag þegar Ásmundur Einar félagsmálaráðherra kom með fríðu föruneyti.

Þegar hann kom hér síðast var verið að reisa fyrstu sperruna í húsinu svo það hefur ýmislegt gerst síðan.

Að sjálfsögðu sýndum við þeim reiðhöllina og búfénaðinn en okkur sást yfir að bjóða þeim að leggja á og taka hring í höllinni.

Það verður gert í næstu heimsókn nú eða þegar formleg vígsla fer fram.

 

 

Páska hátíðin var vel nýtt hér í Hlíðinni en þá fengum við þá Guðgjöf að hemja rafvirkjan hjá okkur.

Og eins og við var að búast voru afrekin þó nokkur og erum við því vel upplýst eftir hátíðina.

Þrjár af fjórum ljósalínum komnar upp og birtan dásamleg.

Á myndinni má sjá hluta af umsvifunum sem voru í gangi.

 

En það hafa verið fleiri viðburðir hér á síðustu dögum og einn af þeim er framhald á sauðburði sem hófst í fyrra fallinu.

Það var sem sagt þann 9 mars sem að lambakóngarnir fæddust og hlutu nöfnin Blakkur og Hrappur.

Ekkert er vitað um faðernið en ljóst að Villi-Blökk mamma þeirra hefur hitt draumaprinsinn vel fyrir hrútaútgöngu bann.

 

 

Það var svo í dag stuttu eftir ráðherraheimsóknina sem hún Litla Flekka bar myndar tvílembingum.

Faðernið á þeim er alveg á hreinu.

Forystu hrúturinn Gísli hreppstjóri hafði stutta viðkomu í fjárhópnum á leið sinni úr fjallinu og inní hús.

Ekki lengi að því sem lítið er............... og þó þetta eru vænstu lömb.

Þessi litfögru lömb hafa verið nefnd og að sjálfsögðu eru þetta Ásmundur Einar og Framsókn.

Já það er ekki bara byggingin sem ráðherra þarf að líta á í næstu ferð .................

Samkvæmt því sem að Guðbrandur lambateljari sagði okkur er von á að tvær kindur í viðbót beri fyrir hefðbundinn sauðburð.

Hrúturinn Gísli hreppstjóri ber ábyrð á annari en hin hefur notið sín í frelsinu á Skógarströndinni.

Já það er líf í Hnappadalum.

 
 
 
  • 1