Færslur: 2016 Mars

29.03.2016 22:03

Páskastuð

 

Það var fallegur dagur í Hnappadalnum þann 29 mars.

Litirnir sem náttúran bauð uppá voru einstaklega smekklegir.

Já það er hægt að gera margt á svona dögum.

Páskarnir fóru vel með okkur reyndar svo vel að listin á páskaeggjum og mat var orðin frekar lítil á annan dag páska.

Mummi smellti sér til Ameríku og er þar í vellystingum hjá Gosa og fleiri góðum vinum.

Við sem heima vorum nutum góðs af því að góður hluti stór fjölskyldunnar kom saman í ,,því efra,,

 

 

 

Þessar eðaldömur skemmtu okkur eins og venjulega.

 

 

Þær gátu líka hleypt stuði í mannskapinn og voru alveg til í myndatöku með verknemum og aðstoðarfólki.

 

 

Sennilega hafa selskapsdömurnar verið eitthvað þreytandi allavega sofnaði aðal stuðpinninn.

Meira segja í miðri bók...............

 

 

Það fór bara vel um þessar dömur sem spjölluðu og nutu lífsins.

Og hvorug með prjónana það er sjaldséð.

 

 

Þessar komu ekki um páskana en þær komu samt fyrir stuttu síðan fóru á hestbak, heilsuðu uppá kindurnar og ýmislegt fleira.

 

 

Hann Fannar hefur skemmt mörgum í gegnum tíðina og var það engin undantekning þegar dömurnar fengu sér smá reiðtúr.

 

 

Og auðvita var kallinn knúsaður í bak og fyrir eftir reiðtúrinn.

 

 

Sigurður lambhrútur var mjög áhugaverður og grandskoðaður.

 

 

Amman kom líka með og tók út búskapinn á bænum.

Já það getur verið stuð í sveitinni.

 

 

 

 
 

 

 
 
 

24.03.2016 11:18

Velheppnað í villta vestrinu.

Þrjú efstu liðin í Vesturlandsdeildinni í hestaíþróttum árið 2016.

 

1.Snókur/Cintamani – 187 stig

Hanne Smidesang – liðsstjóri, Jakob Svavar Sigurðsson, Leifur Gunnarsson, Benedikt Þór Kristjánsson.

2.Leiknir – 167 stig

Randi Holaker - liðsstjóri, Haukur Bjarnason, Berglind Ragnarsdóttir, Konráð Valur Sveinsson.

3.Eques – 141 stig

Guðmundur M. Skúlason – liðsstjóri, Bjarki Þór Gunnarsson, Guðbjartur Þór Stefánsson, Pernille Lyager Möller.

4.Hjálmhestar – 130 stig

Máni Hilmarsson – liðsstjóri, Þorgeir Ólafsson, Julia Katz, Sigurður Sigurðarson.

5.Trefjar – 117 stig

Gunnar Halldórsson – liðsstjóri, Halldór Sigurkarlsson, Iðunn Silja Svansdóttir, Styrmir Sæmundsson.

6.Berg/Hrísdalur – 115 stig

Anna Dóra Markúsdóttir - liðsstjóri, Jón Bjarni Þorvarðarson, Siguroddur Pétursson, Lárus Ástmar Hannesson.

 

Lið Snóks/Cintamani fagnaði sigri í 4 af 5 greinum deildarinnar og vann nokkuð sannfærandi sigur en 20 stigum munaði á þeim og Liði Leiknis sem endaði í öðru sæti.

Það voru svo lið Trefja og Berg/Hrísdalur sem höfnuðu í tveim neðstu sætunum og missa því sæti sitt í deildinni fyrir næsta ár en gætu þó unnið sæti sitt aftur í gegnum úrtöku.

 

 

Það var keppt í tveimur greinum í gær flugskeiði og gæðingafimi.

Á myndinni eru 5 efstu knapar í skeiðinu.

Niðurstöðurnar voru eftirfarandi:

1.Konráð Valur Sveinsson – Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu – Leiknir – 4.99

2.Þorgeir Ólafsson – Ögrunn frá Leirulæk – Hjálmhestar – 5.24

3.Styrmir Sæmundsson – Skjóni frá Stapa – Trefjar – 5.37

4.Jón Bjarni Þorvarðarson – Haki frá Bergi – Berg/Hrísdalur –5.38

5.Guðmundur M. Skúlason – Fannar frá Hallkelsstaðahlíð – Eques – 5.66

6.Benedikt Þór Kristjánsson – Niður frá Miðsitju – Snókur/Cintamani – 5.68

7.Haukur Bjarnason – Þórfinnur frá Skáney – Leiknir – 5.75

8.Máni Hilmarsson – Mjölnir frá Hvammi – Hjálmhestar – 5.75

9.Guðbjartur Þór Stefánsson – Prins frá Skipanesi – Eques – 5.85

10.Halldór Sigurkarlsson – Gná frá Borgarnesi – Trefjar – 6.03

11.Hanne Smidesang – Straumur frá Skrúð – Snókur/Cintamani – 6.06

12.Lárus Ástmar Hannesson – Magni frá Lýsuhóli – Berg/Hrísdalur – 6.18

13.Jakob Svavar Sigurðsson – Ívar frá Steinsholti – Snókur/Cintamani – 6.18

14.Julia Katz – Abraham frá Lundum II – Hjálmhestar – 6.24

15.Berglind Ragnarsdóttir – Nökkvi frá Lækjarbotnum – Leiknir – 6.48

16.Siguroddur Pétursson – Heiða frá Austurkoti -Berg/Hrísdalur – 6.67

17.Gunnar Halldórsson – Nótt frá Kommu – Trefjar – 6.70

18.Bjarki Þór Gunnarsson – Logi frá Syðstu-Fossum – Eques – 0.00

 

Og hér er fjórfætti sigurvegarinn kom með.

 

 

Nokkrir að ,,vestan,, já svo sem allir að vestan enda eðaldrengir allir sem einn.

 

 

Jakob Svavar sigraði gæðingafimina með glæsibrag.

Á myndinni eru 5 efstu í þeirri keppni.

Úrslit

1.Jakob Svavar Sigurðsson – Gloría frá Skúfslæk – Snókur/Cintamani – 7.67

2.Berglind Ragnarsdóttir – Frakkur frá Laugavöllum – Leiknir – 7.00

3.Randi Holaker – Þytur frá Skáney – Leiknir – 6.69

4.Pernille Lyager Möller – Álfsteinn frá Hvollsvelli – Eques - 6.65

5.Hanne Smidesang – Roði frá Syðri-Hofdölum – Snókur/Cintamani – 6.57

 

 

Þessi voru efst í stigakeppninni.

1.Jakob Svavar Sigurðsson – 28.5 stig

2.Berglind Ragnarsdóttir – 22 stig

3.Siguroddur Pétursson – 19 stig

Miklar vangaveltur voru um það í áhorfendastúkunni hvað Jakob hefði fengið í verðlaun frá Húsasmiðjunni.

Getgátur voru allt frá hjartastuðtæki til hrærvélar, engin niðurstaða kom fram sem trúverðug gæti talist.

Þannig að enn ríkir algjör óvissa um það.

 

 

Jakob hlaut einnig farandgrip sem gefin var af Söðulsholti e.h.f.

Verðlaun voru einkar glæsileg og deildinni til sóma.

 

Þau voru kát sigurliðið enda vel að sigrinum komin.

 

 

Þetta var samt klárlega uppáhalds liðið okkar.

 

 

Þau stóðu sig mjög vel þessir flottu krakkar í Eqeus.

 

 

Þessi komu galvösk úr Reykholtsdalnum, lið Leiknirs.

 

Mannlífið á þessum mótum var einkar gott, það er alltaf gaman þegar hestamenn hittast.

 

 

Þessi koma frá Söðulsholti hress og kát.

 

Beðið eftir úrslitunum.

 

Þessar eru alltaf í stuði, Harpan okkar og Karen sveitungi.

 

 

Keppnis.

 

Þessar skvísur voru kátar.

 

Þessi voru mætt á bekkina til að hvetja sitt lið.

Mig grunar að þau hafi átt sama uppáhalds lið eins og við. Enda voru sonurinn og tengdadóttirin að standa sig vel.

 

 

Þétt setið á bekkjunum.

 

 

Þessi voru kát og ánægð með sinn mann.

 

 

Maron kominn í góðan félagsskap með hressum dömum.

 

 

Oddsstaðhjónin skemmtu sér vel.

 

 

Brosmildar frá Danmörku.

 

 

Hress og kát að vestan............

 

 

Fulltrúar Lunda voru að sjálfsögðu mættir til að fylgjast með sinni dömu.

 

 

Þessar vor klæddar m.v aðstæður allavega þegar búið var að opna höllina í gegn.

Uppáhalds sparisjóðskellurnar mínar.

 

 

Fulltrúar úr Eyja og Miklaholtshreppi voru mættir.

 

 

Beðið eftir skeiðinu.

 

 

Það er gott að rétta úr sér í hléinu..........

 

Það er alveg ljóst að Vesturlandsdeildin í hestaíþróttum er komin til að vera. Þeir sem eiga heiðurinn af því að koma þessari mótaröð á koppinn hafa staðið sig vel. Auðvita er það svo að eitthvað þarf að fínpússa en það er bara spennandi verkefni fyrir næsta ár.

Þegar mótaröðin fór af stað heyrðust þær raddir að þetta mundi skaða KB mótaröðina sem keppt hefur verið í undanfarin ár.

Ég er þeirrar skoðunar að báðar þessar deildir njóti góðs hver af annari og ekki í boði annað en að þær haldi báðar áfram.

Eitt er þó mikilvægt að muna á bak við svona skemmtun eru margir sem leggja ómælda sjálfboðavinnu á sig og þeim bera að þakka sérstaklega. Þeir fá sjaldnast þær þakkir sem þeim ber. Fallegt orðfæri um þeirra störf eru fjaðrir í hatt okkar hestamanna.

 

Mig er strax farið að hlakka til næstu mótaraðar hér hjá okkur á vesturlandi.

 

Takk fyrir allir þeir sem að þessum viðburðum komu.

Þetta var gaman.

 

 

 

 

 

 

21.03.2016 22:37

Skeiðsigrar og afmælistamningar

 

Fannar og Mummi gerðu góða ferð í Borgarnes þegar þeir tóku þátt í KBmótaröðinni fyrir stuttu.

Þ.e.a.s þegar keppt var í flugskeiði í gegnum höllina.

Þeir félagarnir sigruðu þá keppni og á meðfylgjandi mynd eru þeir að vega og meta verðlaunagripinn. Mummi fór einnig með Gangskör sem endaði í 5 sæti í tölt.

Það er líflegt hér í Hlíðinni eins og svo sem alltaf. Góða vinnufólkið okkar stendur sig með mikilli prýði og um þessar mundir erum við svo heppin að vera með verknema frá Danmörku. Og svo er hún Beký okkar í heimsókn líka en hún var einu sinni að vinna hjá okkur í Hlíðinni.

Já mikið fjör og mikið hlegið hér á bæ.

Góða veðrið er alltaf skemmtilegt og sennilega fær maður aldrei nóg af því. Það er verst hvað maður ætlar alltaf að gera mikið þegar það stendur. En með aldri og þroska venst maður því að ekki er endilega víst að alltaf hafist af.

Við Mara sparitík ætlum að gefa í og vera sérlega duglegar að læra til smala-ofurhunds í apríl.

Mara er frá Marinó og Freyju bændum á Eysteinseyri við Tálknafjörð.

Sennilega er best að námið hjá okkur hér heima hefjist 1 apríl.

Þetta verður eins og þegar snillingar hefjast handa við að læra til prests. Við munum leggja hart að okkur við námið en svo kemur í ljós hvort við fáum ,,brauð,, eða förum bara að harka í einhverri annari atvinnugrein. Ferðaþjónustan kemur sterk inn ef ekkert gengur í bransanum.

Við gætu kannski passað uppá að norðuljósafarar færu sér ekki að voða.

Ferðamannaforráðar væri kannski eitthvað fyrir okkur Möru ?

En ég átti alltaf eftir að segja ykkur frá því að þegar húsfreyjan varð 50 ára (sem hefur bara gerst einu sinni) fékk hún margar skemmtilegar gjafir. Þar á meðal var gjöf frá Svani og Höllu í Dalsmynni sem sagt tamningatímar á Möru.

Mér þótti afar vænt um þessa gjöf þar sem ég ákvað að túlka hana þannig að Svanur hefði allavega trú á annari hvorri okkar.

Það var svo einn fagran dag sem ég mætti með Möru mína til Svans. Þar sem húsfreyjan var ný orðin fimmtug og reynslunni ríkar fór hún betur með spenninginn en Mara. Hún hafði frekar litla reynslu af bílferðum og nýjum bæjum. Kom reyndar í pappakassa frá Eysteinseyri en það var sennilega grafið og gleymt.

Þegar Mara kom útúr bílnum á hlaðinu í Dalsmynni réði hún sér vart fyrir fögnuði og forvitni. Hún sem er róleg, ljúf og meðfærileg heima fyrir breyttist skyndilega í ofvirkan krakka sem aldrei hefur heyrt um Rídalín.

Það var eins gott að bleika hálsólin sem keypt var í KS fyrir margt löngu var sterk. Ekki var síður heppilegt að pundið í húsfreyjunni vegur svolítið og því varð skoðunarferðin um Dalsmynnisland heldur styttri en Mara hefði kosið.

Eftir örskoðun á smalahólfi og sauðfé var Möru boðin gisting á fína hundaóðalinu hans Svans. Húsfreyjan drakk kaffi og brunaði síðan heim með krosslagða fingur og von í brjósti um þokkalega hegðun Möru.

Þegar liðið var vel á aðra viku var tímabært að sækja gripinn. Við útskrif var auðvitað farið með Möru í kindur til að sýna hvernig staðan væri á henni. Ekki var annað að sjá en þeim Svani og Möru hefði samið þokkalega enda var það fyrir mestu.

Eins og á alvöru tamningastöðum er mikið um að vera og þegar Svanur og Mara höfðu sýnt hvað í þeim bjó var næsti hundur kominn á hliðarlínuna. Var því ekkert að vandbúnaði að leggja af stað heim með gripinn.

Þá var bara að smella kossi á hundatemjarann og halda heim frekar hressar í bragði............. báðar tvær.

Nú er það bara okkar Möru að finna út á hvorri hann hafi trúnna...........

Verkefni fram undan er hinsvegar að venja saman tík og húsfreyju með það að markmiði að þær verði nothæfar til smalamennsku.

Geldu gemlingarnir eru vonandi til reiðu eins og til var ætlast.

Góðar stundir.

17.03.2016 20:47

Fósturtalning 2016

 

Fósturtalning fór fram í gær þegar Guðbrandur í Skörðum kom og kíkti í ,,jólapakkana,, hjá okkur.

Hér á bæ er alltaf svolítill kvíði fyrir þessum degi en líka spenningur.

Að þessu sinni getum við bara vel við unað og erum mjög ánægð með útkomuna á eldra fénu.

Gemlingarnir sem komu afar vel út í fyrra hafa ekki lagt línurnar fyrir komandi kynslóð.

Eða með öðrum orðum gemlingar þessa árs eru ekki að standa sig jafn vel og gemlingarnir í fyrra.

Það er þó ljóst að við eigum von á fjölda lamba og alveg þess virði að láta sig hlakka til sauðburðarins í vor.

Þrí og fjórlembur hafa nú fengið sérstakan sess í fjárhúsunum og njóta dekurs, eins er gert sérlega vel við tvílemdu gemlingana.

Já það borgar sig að standa sig.

 

 

Það er góð samvinna á milli bæja hér í Hnappadalnum og bara þónokkuð fjör þegar eitthvað stendur til.

Þessir góðu grannar ræddu málin á jötubandinu, Sveinbjörn og Sigríður Jóna Hraunholta húsfreyja voru kát og hress.

 

 

Allir hjálpa til og gera daginn bara betri.

 

  • 1