Færslur: 2014 September

30.09.2014 09:27

Kósý kvöld

 

Réttirnar eru tíminn til að æfa raddböndin og klappa gítarstrengjum.

Þarna eru Hjörtur og Mummi í góðum gír.

 

 

Góður smali og liðtækur gítarleikari, það er góð réttarblanda.

Haukur Skáneyjarbóndi er með þetta.

 

 

Já já og fleiri gítarleikarar spruttu upp og áður en yfir lauk urðu þeir held ég fimm.

Mummi, Hjörtur, Haukur, Skúli og Hrannar.

 

 

Þessar eru nú frekar mikið uppáhalds skal ég segja ykkur. Erla Guðný og Randi Skáneyjarfrú.

 

Lúxuxvandamál er að ég á fullt af fleiri myndum sem ég þarf endilega að sýna ykkur.

 

 

27.09.2014 13:49

Vörðufellsréttarstemming

 

Það er alltaf gaman í Vörðufellsrétt og á því var engin undantekning þetta árið.

Mummi, Astrid, Haukur og Randi Skáneyjarbændur.

Þessi sem er verulega hátt uppi er hann Hjörtur yfir gítartæknir.

 

 

Þessi voru sæt saman á réttarveggnum, Maron, Kristín Eir og Marie.

 

 

Hrannar, Björgvin, Ólafur og Flosi ræða málin.

 

 

Þessi mynd heitir Hrannar og hreppsstjórinn.

 

 

Þóra húsfreyja í Ystu-Görðum ásamt fjölskyldunni í Mýrdal.

 

 

Þau eru eitthvað sposk á svipin þessi, Hildur og Hallur með frú Björgu í baksýn.

 

 

Þessi er bráðefnilegur sauðfjárbóndi, þarna er hún aðeins að fara yfir dilkinn og kann hvort við höfum nú dregið rétt. Já hún Kristín Eir er alveg með þetta.

 

 

Þóra og Dag líta yfir hópinn.

 

 

Þessar tóku smá pós, Hrefna Rós og Astrid.

 

 

Og þessi var ennþá allra hæðst uppi............... reyndar að taka myndir.

 

25.09.2014 18:02

Smaladagurinn heima

 

Það sá ekki út úr augum fyrir þoku á föstudaginn þegar leggja átti af stað í leit héðan úr Hlíðinni.

En það var bjart yfir mannskapnum sem beið þess að leggja af stað í fjallið.

Nokkuð á eftir áætlun lögðum við af stað fram í sókn og samfylktum liði til fjalla.

 

 

Ragnar og mamma stilltu sér upp á meðan við biðum eftir að þokunni létti.

 

 

Óskar aðeins að smakka á ,,mikstúrunni,, svona áður en lagt var af stað í þokuna.

 

 

Stella, mamma og Lóa voru mættar í eldhúsið, þarna taka Sigrún og Björg stöðuna á dömunum.

 

 

Hún Kristín Eir var mætt í smalamennskuna og þarna er hún með Astrid og Magnúsi.

 

 

Þessar voru hressar og kátar.
 
 

Smalamennskan gekk vel þó svo að ekki væri smalað jafn stórt svæði og venjulega.

Á sunnudaginn var svo rekið inn hátt á annað þúsund fjár og var ókunnugt vel á sjöttahundraðið.

Það kom fjöldi fólks og hjálpaði okkur ómetanlega um réttirnar, kærar þakkir öll þið sem lögðuð okkur lið.

Fleiri myndir eru væntanlegar en netsambandið bíður ekki uppá meira í bili.

 

 

 

 

23.09.2014 21:16

Réttarfréttir nú eða réttar fréttir.

Smalamennskan á Oddastöðum gekk vel og var fjöldi fjár rekin inn hér heima á fimmtudagskvöldið.

Til að forðast enn meiri þrengsli en venjulega var ákveðið að draga allt ókunnuga fé frá og keyra það í safngirðinguna við Mýrdalsrétt.

Útsýnið var frábært eins og alltaf í Hnappadalnum.......já já það er bara þannig.

Þarna sjáið þið niður í tangana sem eru vestast í Hlíðarvatni.

 

Það getur verið seinlegt að reka út Oddastðahlíðina og þá er gott að hafa fólk bæði uppi og niðri.

Á þessari mynd bera þau Skúli og Skriða við himinn en Freyja sést ekki, kindurnar lalla út bekkina.

 

 

Það var líka alvöru bílalest sem fylgdi smölunum, flestir grænir og sumir jafnvel vinstir grænir.

 

 

Þegar hér er komið við sögu erum við komin fram á Hraunholtahlíðina og allt gengur eins og í sögu.

Jafnvel enginn orðinn smalabrjálaður, annars fann ég nýtt ,,lyf,, við smalabrjálæði.

Stór og safarík krækiber hafa ótrúlega róandi áhrif á smalabrjálaða, geta meira að segja hálf svæft ótrúlegasta fólk.

 

 

Það var góður hópur sem að smalaði með okkur á Oddastöðum.

Á þessari mynd má sjá Ólaf frænda minn færast óðfluga nær toppnum, Þríhellurnar í baksýn.

Þess má þó geta að hann náði ekki toppnum að þessu sinni en hver veit hvað síðar gerist ?

Allavega gekk smalamennskan vel.

 

 

Það var alþjóðlegt yfirbragð í kartöflugarðinum þegar ég, Marie og Dag mokuðum uppúr heilu beði.

Við fórum af stað aðeins seinna í smalamennskuna á Oddastöðum og náðum því góðri upphitun um morguninn.

Þetta var sem sagt samstarf Íslands, Noregs og Danmerkur. Snotra var sérlegur ráðgjafi og leit eftir því að allt færi vel fram.

Fleiri réttarfréttir koma eins fljótt og kostur er............... smalamennskan heima, Vörðufellsréttin, heimaréttin og partýið........... maður lifandi. Og að lokum verður það svo Mýrdalsréttin.

 

 

 

 

 

 

 

17.09.2014 23:26

............. og fleiri myndir úr Skarðsrétt

 

Líf og fjör við réttarvegginn.

 

 

Eitthvað var nú sniðugt í umræðunni þarna eins og sjá má.

 

 

Flottar mæðgur alltaf hreint, Þura og Krístin voru auðvitað í réttunum.

 

 

Halldóra í Rauðanesi var fjallkóngurinn í leitinni og hefur örugglega staðið sig vel eins og alltaf.

Þarna er hún að skoða fjárstofninn, hugsanlega eitthvað golsótt ??

 

 

Já það voru bara allir kátir í Skaðrðsréttinni enda veðrið gott og mannlífið skemmtilegt.

 

Við hér í Hlíðinni byrjuðum að smala í dag, inní hlíð og útá hlíð eins og við segjum.

Smalamennskan gekk bara nokkuð vel meira að segja náðust nokkrar af eðalkindunum.

Fyrstan skal telja kynbótagripinn Vökustaur, þá ljóngáfaða forustusauðinn Jóa og að lokum Garðabæjargolsu.

En með smáa letrinu ætla ég að segja ykkur að Pálína, Litla-Pálina og Fótfrá áttu ekki ,,bókað,, far heim í dag.

Þær hurfu upp fyrir efstu brún um leið og þær sáu hreyfingu sem gat þýtt smalahreyfing.

Nei nei forustufé er ekkert með neina óþekkt það hefur bara annað skipulag en við..............

Á morgun er það svo Oddastaðafjall með meiru.

 

 

16.09.2014 22:30

Mannlíf í Skarðsrétt

 

Það var gaman að koma í Skarðsrétt og óhætt að segja að þar hafi verið margt um manninn.

Það var allavega auðveldara að ná myndum af fólki en fé.

 

 

Guðrún Fjeldsted var réttarstjóri og stjórnaði af röggsemi með þessa fínu dómaraflautu að vopni.

 

 

Þessi voru að sjálfsögðu mætt í réttina.

 

 

Guðbrandur í Skörðum var skilamaður fyrir dalamenn, þarna hlýðir hann á boðskap réttarstjórans.

 

 

Þeir voru kátir þessir enda full ástæða til, Þorvaldur á Brekku og Anton Torfi.

 

 

Guðmundur á Beigalda og Kristján á Tungulæk ræða málin.

 

 

Kátir sauðfjárbændur úr Borgarnesi, lopapeysan tær snild.

 

 

Og ekki var nú þessi lopapeysa síðri alveg ekta kindapeysa.

 

 

Bóndinn á Háhóli var merktur í sinni lopapeysu og auðvita verður að taka símann með í réttirnar.

 

 

..............og það voru fleiri í símanum, spurning hvort þeir hafi verið að tala saman ?

 

Þetta er bara brot af þeim myndum sem ég tók í réttinni en fleiri kom hér inn á næstunni.

Það gekk vel að gera skilin en kindurnar sem við komum með í Kolbeinsstaðahreppinn voru rúmlega 50 talsins frá 8 bæjum.

Dagurinn í dag fór að mestu í undirbúning og stúss en á morgun byrjum við að smala fyrsta hlutann.

Aldrei að vita nema myndavélin fari eitthvað með.

 

 

 

 

 
 
 

14.09.2014 23:29

Góður dagur

 

Það var hvasst í morgun og ekkert ferðaveður fyrir gæðinga á kerru því var skipulaginu breytt í snarhasti. Dagurinn átti að byrja með hrossaflutningum og fleiru.

Hryssan bíður eftir blíðunni sem á að vera þegar hún fer frá okkur og heim til sín.

En í staðinn urðu til nokkrar formkökur sem verða á boðstólnum um réttirnar og aðhaldsgirðingin kláraðist. Til að fyrirbyggja allan misskilning þá er þessi aðhaldsgirðing alvöru girðing fyrir kindur.

Eftir hádegið var svo brunað inná Skógarströnd en þar voru bændur á Emmubergi að hefja sína smalatörn. Eins og undanfarin ár förum við og sækjum féð sem þangað kemur héðan úr Kolbeinsstaðahreppnum. Þetta er gert til að auðvelda bæði okkur skilamönnum í Vörðufellsrétt og Bergsbændum ragið. Það er jú alveg nóg að draga hverja kind einu sinni.

Andrés og Björgvin Ystu-Garðabræður komu líka með og var góður hópur fluttur suður fyrir.

Það er alltaf viss stemming sem skapast þegar fyrstu kindurnar koma heim.

Þá er spáð og spekulegrað flett fram og til baka í rollubókunum og rífjað upp hver átti hvaða lamb og hvernig það var.

Já rollukellingar eru spes og ekki síður kallar.

Á morgun er það svo að gera skil í Skarðsrétt þangað höfum við ekki sent skilamann fyrr.

Gaman að fara á nýjar slóðir, nánar um það síðar.

13.09.2014 22:30

Vikan sem allt er að gerast

 

 

Þessi öðlingur hefur það gott fyrir utan eldhúsgluggann enda ekki annað hægt í svona blíðu. Sumarhiti og logn sem manni langar til að nota í allt mögulegt.

Núna fer ein líflegasta vika ársins í hönd þar sem allt skal gert................

Eins og kom fram hér neðar á síðunni er komið skipulag fyrir leitir og réttir sem enn er verið að fín pússa. Skipulagasveikin heltók húsfreyjuna fyrir stuttu og í því kasti varð til langur listi sem æskilegt er að klára fyrir réttir. Enda eru allir á góðum snúningi.

Yfirfara fjárhúsin, laga og bera ofaní réttina, girða ,,aðhaldsgirðinguna, fara með túngirðingunni, hreinsa uppúr skurðum, gera víggirðingu kringum rúllurnar og ýmislegt fleira. Þetta var bara fyrrihlutinn...... seinni hlutinn var einhvern veginn svona: Telja saman smalana, finna talstöðvarnar, baka (ekki bara vandræði) , taka upp kartöflur, skipuleggja nesti, horfa á matseðilinn og klappa regngöllunum. Já það er sko mikilvægt ég hef fulla trú á því að ef gallinn er hreinn, vís og klár þá séu minni líkur á að það rigni. Svo þarf líka að kanna járningar, fjórhjólið og litaspreyið.

Og smalavestin auðvitað, enginn má nú týnast í fjöllunum.

Annars var tekin smá æfing um síðustu helgi þegar við tókum þátt í smalamennsku og fjárragi með Skáneyjarbændum. Það er alltaf gaman að fara á nýjar slóðir að smala. Ég sá Reykholtsdalinn og Hvítársíðuna frá nýju sjónarhorni og ekki skemmdi nú fyrir hvað veðráttan var góð. Það var líka gaman að skoða féð og fylgjast með þegar verði var að velja sláturlömbin. Smá hluti af fjárstofninum er ættaður frá okkur og var gaman að sjá hvernig það blandast við hópinn. Það er alltaf gott að fá fimmstjörnu dekur hjá Skáneyjarbændum hvort sem það er á námskeiðum eða í leitunum.

Á þessum árstíma gluggar maður gjarnan í markaskrá af gömlum vana enda er ég alin upp við það að telja markaskrár til gæða bókmennta. Nú orðið eru flestir sem draga sundur fé eftir bæjanúmerum en það er samt ákveðinn sjarmi yfir því að spreyta sig á mörkunum. Þegar ég var barn gerði ég mér það að leik að marka bréfeyru. Utan um Tímann kom bréf sem Lóa frænka mín klippti niður og bjó til eyru, þessi eyru ,,markaði,, ég svo með skærum. Ég horfði á frændur mína marka og tók upp sömu taktana og þeir höfðu við verkið. Það var alltaf sjálfsagt að læra svolítið af nýjum mörkum á hverju hausti.

Man sérstaklega eftir því þegar að ég lærið mark sem eignað var þeim í vonda í neðra. Það var þrírifað í þrístíf og þrettán rifur í hvatt.

Sennilega mundi MAST gera einhverjar athugasemdir við þetta mark í dag.................

Já þau hafa ekki alltaf verið hefðbundin áhugamálin mín.

12.09.2014 10:15

Hitt og þetta frá nýliðinu sumri

 

 

 

 

 

Nei nei þessi mynd er ekki tekin í dag en góð samt sem upprifjun á því sem í vændum er. Þarna er forustuféð að leggja á fjall en þessi fjölskylda fær alltaf bílfar á staðinn sinn. Það er löng hefð fyrir því að húsfreyjan keyri gripina þegar allar þessar eru bornar og að sjálfsögðu fer Jói ekki út á undan öðrum fjölskyldumeðlimum. Það er svo algjört aukaatriði hversvegna.........................nei ekkert svo óþekkar sko. Sauðurinn Jói lítur yfir hópinn eins og systir hans Pálína en Litla-Pálína og Fótfrá kanna beitina. Þessi góði hópur heldur sig svo hér í hlíðinni fyrir ofan bæinn allt sumarið, bítur gras og æfir flóttaleiðir. Það er kannske ekki tilviljun að þetta svæði er smalað fyrsta daginn.....................

 

 

Það er alltaf gaman að renna yfir myndirnar sem teknar hafa verið í sumar og rifja upp. Þarna er Fríða María frænka mín að skoða eitthvað spennandi í tölvunni hjá Astrid. Marie og Maron fylgjast grant með.

Já það er oft þröngt í sófanum.

 

 

Þessar voru góðar saman, þarna er kjötsúpan borðuð með stæl.

 

 

Það komu líka margir skemmtilegir gestir í sumar sem við áttum góðar stundir með. Per er í sérstöku uppáhaldi hjá okkur og núna kom hann með systir sína og mág með.

Spjalla um hross, spá í landsmótið og margt fleira skemmtilegt.

 

 

Salómon er nú oftast höfðingi heim að sækja en að hans mati eru gestir misskemmtilegir. Þessi unga dama var t.d mjög skemmtileg og alveg upplagt að vera með smá gestalæti og sýna sig.

Elva Rún og Salómon eru sko góðar fyrirsætur.

 

 

Maron tók góða þrifnaðar sveiflu í fjárhúsunum þegar tími gafst til.

 

 

......og árangurinn lét ekki á sér standa svo nú eru fjárhúsin ballfær fyrir réttirnar.

 

 

Maron var líka aðal ,,rúlluplastendafelarinn,, og svona var gengið frá endunum.

 

 

Það var oft gott veður í sumar þó ekki til að þurka þvott eða hey.

Daginn sem að þessi mynd var tekin var blíða af betra taginu.

 

 

 

Að ganga frá í eldhúsinu getur verið fjölbreytt starf................................og skemmtilegt.

Þessi tvö alveg með ´etta.

 

 

Þessar kunnu að njóta blíðunnar enda góðu vanar úr Danmörkinni en því miður var ekki oft veður fyrir svona klæðnað í sumar.

 

 

Ferðahóparnir sem fór hér í gegn voru nokkrir, þessir góður grannar fengu frábært veður.

 

 

Það er mikið talað um eldgos þessa dagana, þarna lúrir ein sem einhverntíman hefur nú gosið myndarlega. Gullborgin er ósköp sakleysisleg þar sem hún kíkir uppúr hrauninu.

 

 

Við fórum líka í veislur t.d voru þessar flottu frænkur eldhressar í síðustu afmælisveislu.

 

 

Þessar voru líka í veislunni og skemmtu sér bara vel.

Já Lóa og Fríða er nauðsynlegar í stelpuafmæli.

 

 
Þessi tvö voru með okkur í fermingaveislu í vor, litli bróðir og Svandís Sif.

 

 

Þessar dömur voru líka í veislu Gulla og Mamma.

 

 

Þetta er drengirnir sem voru að fermast Magnús Hallsson og Magnús Már Hrannarsson.

 

 

Pabbarnir og amman, Hrannar, Gulla og Hallur.

 

 

Mömmurnar Björg og Ósk nú eða Ragnhildur eða Ingibjörg.

 

 

Þessi mynd sem tekin var í fermingaveislunni í vor er mikið uppáhalds hjá mér. Þarna er þær Daniela og Dúna sem voru alltaf svo miklar vinkonur. Hennar Dúnu verður sárt saknað.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

08.09.2014 20:50

Þessir góðu dagar


Nú líður að leitum svo það er tímabært að líta upp og gjóa augunum til fjalla. 
Á þessari mynd sjáið þið bergganga sem nefnast Þríhellur, þær eru hér í múlanum fyrir utan og ofan bæinn. Afar vinsælt myndefni hjá ferðamönnum og jafnvel mér sjálfri.
Ég hef hugsað um það síðustu daga hvort það séu ekki myndalegar ,,þríhellur,, sem Bárarbungan er að hanna um þessar mundir ? Allavega hafa þessar orðið til í einhverjum umbrotum fyrir langa löngu.
En það er annað á myndinni ef grannt er skoðað sem ætti að halda verðandi smölum við efnið.
Ein tvílemba fyrir utan Þríhellurnar og tvær kindur uppí brúninni fyrir innan Þríhellurnar.
Hver þorir að sækja þessar ???' esssaðsú????

Þar sem óðum styttist í fjörið ætla ég að setja hér inn upplýsingar um hvernig við höfum skipulagt smalamennskur og fjárrag hér í Hlíðinni.

Þann 17 september verður smalað inní Hlíð og útá Hlíð.
Þann 18 september verður smalað Múlinn og Oddastaðir.
Þann 19 september verður aðalsmalamennskan Hafurstaða og Hlíðarland.
Þann 20 september verður Vörðufellsrétt á Skógaströnd.
Þann 21 september verður réttað hér heima, dregið í sundur, vigtað og ragað. 
Þann 23 september Mýrdalsrétt og sláturlömbin sótt til okkar.

Eins og alltaf eru allir smalar boðnir hjartanlega velkomnir í fjörið og reyndar allir sem vilja fylgjast með okkur þessa daga. Það hafa allir sem vilja mikilvægt hlutverk í réttunum, inni sem úti.
Gott er að heyra frá ykkur sem hafið tök á því að mæta svo móttökunefndin geti gert viðeigandi ráðstafanir og fóðuráætlanir.
Við lofum góðu fjallalofti, stuði og stemmingu.

Verið hjartanlega velkomin.

Við hlökkum til að sjá ykkur.

03.09.2014 21:38

Vitið þið að það er kominn september ?Sumarið er tíminn en nú er komið haust................. með allri sinni dýrð.

Þessa skemmtilegu mynd tók hann Maron okkar einhvern af síðustu dögunum sem að hann var hjá okkur.  Nú er kappinn farinn í skólann og arkar menntaveginn eins og vera ber.

Sumarið hefur flogið frá okkur og margt sem gera átti verður að bíða betri tíma.
Kindurnar eru farnar að týnast niður og kanna grösin hér í kring.
Á allra næstu dögum smelli ég nákvæmu tímaplani hér inná síðuna með upplýsingum um réttirnar.

Já það er að koma að leitum og réttum.

Það er hressandi og skemmtilegt að taka sprett á Löngufjörum svo maður tali nú ekki um í góðum félagsskap. Það er gaman þegar allt gengur vel.
Þarna eru kátar kellur að ferðast með einum af fyrirmyndar hópunum sumarsins.

Gott veður, góðar fjörur, góður félagsskapur og góðir hestar.........gera lífið dásamlegt.

Mummi er nýkominn heim eftir velheppnaða kennsluferð til Danmerkur.
Astrid fór til Bretlands þar sem að hún var að byrja í fjarnáminu sínu í íþróttasálfræði og þaðan fer hún svo til Finnlands. Hún ætlar að kenna hjá henni Ansu okkar í tvær vikur og hitta nemendurna sína sem hún hefur verið að kenna þar að undanförnu.


  • 1