Færslur: 2011 Október

31.10.2011 22:57

Námskeiðsnjósnir.Um helgina var Mummi með frumtamninganámskeið í Söðulsholti, þangað mætti góður hópur af áhugsömum hestamönnum. Hver nemandi kom með tvö tryppi með sér til að vinna með á námskeiðinu. Námskeiðið stóð frá kl 9.00 - 18.00 laugardag og sunnudag en síðan koma þau aftur saman eftir tvær vikur og halda áfram með tryppin sín. Þarna er hluti hópsins að skoða hrossin hvert hjá öðru og undirbúa fyrsta tímann.
Ég kom við með smá snarl fyrir hópinn og laumaðist einn hring með myndavélina, vona að ekki verði sett lögbann á mig.Það var létt yfir mannskapnum eins og sjá má á þessari mynd.Það var þétt setinn bekkurinn en námskeiðið var þannig upp sett að allir fylgdust með og gátu þannig séð aðferðir með mismunandi hestgerðum.Laus í hringgerði..................myndgæðin ekki sérstök en samt................Svo var það snarlið ekki er nú vit að vera að brasa mikið svangur í svona stússi.Og alveg nauðsynlegt að spjalla svona á milli atriða.Aðstaðan í Söðulsholti er svo frábær að það er næstum hægt að leggja sig eftir matinn.

Veðrið heldur áfram að vera með leiðindi og í dag var það  rok, slidda og hitastigið heldur lágt sem boðið var uppá. Á svona dögum er bara fínt að sinna bókhaldi og inniverkum.
Engin rólegheit á næstunni en meira um það síðar.................

29.10.2011 21:54

Nú er bræla í HlíðinniÞað er nú bara þannig tíðarfar núna að manni veitir ekkert af því að rifja upp eitthvað skemmtilegt.  Og þá er bara að skoða svolítið af folaldamyndum frá síðustu árum.
Hér á fyrstu myndinni eru Létt okkar og Léttstígur að stinga saman nefjum, hann er undan Sporði frá Bergi.Þarna er aftur á móti sjarmatröllið Fleyta sem er dóttir Stíganda frá Stóra-Hofi og Skútu.
Hún er skemmtilegur prakkari sem gaman er að hitta út í haga og sjá hreyfa sig.Stoltur minn stendur alltaf fyrir sínu og gerir meira að segja húsfreyjuna og ræktandann svolítið stolta stundum. Stoltur er undan Alvari frá Brautarholti og Tign minni.Þarna er árgerð 2010 Þjóðhátíð litla sem er dóttir Skútu og Glyms frá Skeljabrekku.
Grallari eins og öll afkvæmin hennar Skútu.Þetta er líka uppáhaldsmynd hjá mér en þarna er Kostur sonur Sparisjóðs og Tignar að hjálpa föður sínum við skyldustörf. Já stundum er vilji allt sem þarf.Hér er svo Kátur minn að stilla sér upp fyrir myndatöku hann er undan Karúnu og Auði frá Lundum.Að lokum er svo hér mynd af Auðséð sem er dóttir Karúnar og Sporðs frá Bergi.

Hollt fyrir geðsmunina að skoða myndir af folöldum þegar vindurinn hvín og rigningin streymir niður gluggann.

Annars var þetta fínasti dagur, Mummi var með góðan hóp á frumtamninganámskeiði sem að stendur nú um helgina í Söðulsholti. Ég smellti í súpu og bollur fyrir hópinn og laumaðist svo aðeins með myndavélina inn til þeirra. Spurning að setja inn myndir þegar ég hef fengið birtingarleyfi?

Lífgimbrarnar eru allar komnar inn og Rúnar dýralæknir búin að sprauta þær allar við garnaveiki.
Næst koma svo hrútarnir inn en þeirra ,,útivistarleyfi,, rennur út fljóttlega þetta árið.

27.10.2011 23:35

Skemmtileg mynd.Þessa skemmtilegu mynd sendi hann Per vinur minn í Danmörku til mín.
Myndin sýnir hluta að kindunum hans en hann ræktar feldfé með afar góðum árangri eins og fjölmörg verðlaun sanna. Við Per kynntumst fyrst þegar að hann hafið eignast hryssu frá okkur og kom til landsins í heimsókn. Síðan þá er mikið vatn runnið til sjávar, hryssuhópurinn hans frá okkur hefur stækkað og afkomendur þeirra komnir vítt og breitt um danaveldi. Per hefur verið afar duglegur að koma í heimsókn til okkar m.a kom hann enn og aftur í réttirnar. Það er gaman að kynnast sauðfjár og hrossabónda í öðru landi.
Takk fyrir komuna Per og nú fer að koma að því að heimsækja þig.....................

Síðasti hópurinn af lömbum fór í slátur í dag og með þeim fóru þær kindur sem að höfðu lokið sínu hlutverki hér á bæ. Það var smalað fram á síðustu stundu og nú er bara að lesa rollubókina með góðu gleraugunum og finna út hvað vantar af fjalli. Ég er samt heldur bjartsýnni á betri tölur þar um heldur en í fyrra en bíðum og sjáum til sennilega verða þær seint taldar góðar þessar lokatölur.

Ég setti inn nokkrar myndir frá folaldasýningunni í Grundarfirði og bæti fleirum við fljóttlega.

23.10.2011 21:06

Þá er veturinn kominnHaustfagnaður sauðfjárbænda í Dölum fór fram um helgina og að sjálfsögðu drifum við okkur þangað.
Þetta skemmtilega lopapeysumunstur varð á vegi mínum eins og svo ótal mörg önnur sem voru frumleg og falleg. Já það var nokkurskonar lopapeysumót þarna hjá dalamönnum.
Á föstudagskvöldið var 500 manna sviðaveisla haldin á Laugum í Sælingsdal, boðið var uppá ný, reykt og söltuð svið og að auki sviðalappir. Hagyrðingar fóru á kostum undir stjórn Bjarna Harðarsonar fyrrverandi framsóknarmanns. Hvort það var rokan úr framsókn eða eitthvað annað þá fannst mér hann tilþrifalítill og ekki sama fasið á honum og þegar hann var að berjast við Mórakallinn. En það var gaman að þessu og það skiptir mestu.
Það var svo Geirmundur sem að endaði kvöldið með Skagfirskrisveiflu og fjöri fram á nótt.
Ótrúlegt að sjá fólk sem að ekki borðar svið og ekki tilbiður Geirmund mæta með bros á vör til þess eins að skemmta sér með okkur hinum sem borðum og tilbiðjum.
Svona eru sauðfjárbændur skemmtilegir sérstaklega í dölum.

Á laugardaginn var það svo rúningskeppnin góða þar sem að atvinnurúningsmenn og áhugarúningsmenn etja kappi hvern við annan af miklum móð.Áhorfendur komu víða að og hvöttu sína menn, þarna eru bændur í Bjarnarhöfn og fleiri góðir gestir.

Það var vaskur hópur sem að tók þátt í keppninni og hart barist í báðum umferðum.
En þrátt fyrir að ég væri búin að raða upp í huganum hvernig úrslitin ættu að vera með tilliti til þess að eiga son, fósturtengdason, nágranna og hreppstjóra í hópi keppenda þá bar eldfljótur austlendingur sigur úr bítum. Til hamingju með sigurinn Hafliði bóndi.
Ég held samt áfram að halda með srákunum og hreppstjóranum og efast ekki augnablik um að þeir raði sér í efstu sætin næst.Keppnin fór fram undir styrkri stjórn Ásmundar Einars Daðasonar, þingmanns sem að sjálfsögðu klæddist sauðfjárhúfu í tilefni dagsins.

Á laugardagskvöldið var svo haldin fjölmenn grillveisla í Dalabúð þar sem að verðlaun fyrir bestu hrútana og ærnar voru afhent. Þar kom líka fram skemmtilegur kór, Drengjakór Hafnarfjarðar en hann er skipaður einum hafnfirðingi, einni konu og stútungsköllum vítt og breytt af landinu.
Allt endaði þetta svo með hörku balli í Dalabúð þar sem að m.a sveitungarnir fjölmenntu í rútu alveg eins og í gamla daga.
Haustfagnaðurinn þetta árið var hreint frábær, takk fyrir það sauðfjárbændur í dölum.

Fleiri myndir koma svo inná síðuna næstu daga þegar að netsambandið leyfir.

Sunnudagurinn var ekki viðburðalaus því þá var haldin folaldasýning í Grundarfirði.
Þangað var brunað en folöldin voru eftir heima, bæði var að mannskapurinn hefur stundað samkvæmislífið af miklum móð og eins stefnum við bara á að koma með þau í Söðulsholt þegar sýningin verður þar seinna í vetur.
Mörg áhugaverð folöld komu fram en myndir og hugleiðingarnar um það allt saman koma við fyrsta tækifæri.

Vel gengur hjá Mumma að bóka á námskeiðið og fer plássum fækkandi (sjá auglýsingu hér fyrir neðan). Um að gera að drífa sig gaman að hittast spá og spekulegra.

21.10.2011 16:19

Frumtamninganámskeið.Frumtamninganámskeið

Tveggja helga námskeið í Söðulsholti:

Dagana 29.-30. Október og 12.-13. Nóvember

Kennari: Guðmundur M. Skúlason  Tamningamaður og Þjálfari FT

Haustið er góður tími til að frumtemja gæðingsefnin.

Á námskeiðinu kemur hver nemandi með tvö trippi og vinnur með báðar helgarnar.

 Allir þátttakendur fá heimaverkefni til að vinna með á milli helganna.

Það sem verður meðal annars farið yfir á námskeiðinu er:

Atferli hestsins (Hvernig hugsar hesturinn?)

Leiðtogahlutverk (hvað getur maður fengið hestinn til að gera?)

Undirbúningur fyrir frumtamningu (Við byrjum ekki að taka stúdentspróf í 1. Bekk!)

Frumtamning er grunnur að góðri tamningu á forsendum hestsins.

 

Tveir bóklegir tímar (sameiginlegir fyrir alla þátttakendur)

Átta verklegir tímar á hvern nemanda.

 

Samantekt í lok hvers dags þar sem farið er yfir verkefni dagsins og spurningum svarað.

 

Miðað er við að allir þátttakendur horfi á tímana hjá hinum og sjái mismunandi hestgerðir og hvernig þær bregðast við á mismunandi hátt.

Þá geta allir fengið mikið út úr námskeiðinu J

Námskeiðið kostar 19.000 kr á mann með hesthúsplássi frá föstudagskvöldi fram á sunnudag.

Ef einhverjum sem langar á námskeiðið en hafa ekki trippi á sínum vegum geta fengið lánuð trippi. J

Síðasti skráningadagur 24. október

Skráning í síma:7702025 (Guðmundur)

Eða á netfangið: [email protected]

19.10.2011 21:39

Góðir dagarÞessar elskur litu út eins og bangsar þegar ég kom við hjá þeim í gær.
Þarna er Fjarki sá brúni sem átti að vera skjótt hryssa, hann er undan Rák og Þristi frá Feti. Ég hef loforð frá Huldu Guðfinnu Geirs vinkonum minni að hann verði alveg rosalega góður því að ég fékk ekki skjótta litinn frá Þristi með. Svo eru það Krakaborg sú sokkótta undan Dimmu og Sporði frá Bergi og sú jarpa Randi undan Snör og Soldán frá Skáney.

Ég fór í eftirlitsferð til að skoða hvort að ekki væri allt í góðu lagi hjá folaldshryssunum og smellti þá þessari mynd af gripunum.
Þarf svo að fara að líta á stóðið í fjallinu og taka stöðuna á því, telja og skoða með ,,stóru,, gleraugunum.
Kannske væri bara rétt að auglýsa innrekstur á stóðinu og bjóða ykkur að koma skoða og sötra úr kaffibollum saman???

Tamningarnar ganga vel og nokkur spennandi tryppi að stíga sín fyrstu spor með knapa.
Veðrið hefur líka leikið við okkur síðustu tvo daga svo að birtutíminn hefur nýst afar vel.
Við höfum verið þrjú að ríða út að undanförnu en eftir þessa tvo vel nýttu góðviðrisdaga eru kosningar á ,,fyrirmyndarhesti dagsins,, í algjöru uppnámi.
Tuttugu og sjö hross voru í kjöri og var hugmyndin að aðeins eitt hross mundi hreppa titil dagsins en heimilisfriðsins vegna eru fyrirmyndarhestar dagsins þrír.
Melkorka, Muggison og Kæna.

Svona í lokin langar mig að segja ykkur frá símtali sem að ég átt fyrir stundu en á línunni var bóndi að segja mér frá meðalvigtinni sinni. Svo sem algengt umræðuefni þessa dagana allavega hjá okkur rolludellufólkinu en vitið þið hvað ???' Meðalvigtin var 25.55 ég segi nú eins og góður maður ,,Já sæll,,  er svo bara farin að halla mér og láta mig dreyma um það þegar meðalvigtin verður 20+..............................og allt tví, þrí og fjórlembt.

16.10.2011 22:26

Ýmislegt............

Haustveðrið réði ríkjum hér í dag þegar gekk á með hvössum skúrum og allt að því éljum.
Vorkenni alltaf hestunum sem að úti eru þegar svona bleytu tíð er í boði en skjólin í fjallinu eru góð og eflaust finnst þeim þetta ágætt á með þau hafa gott gras og frið fyrir mannfólki.

Á fimmtudagskvöldið kom stjórn Félags tamningamanna saman hér í Hlíðinni og fundaði.
Að sjálfsögðu byrjuðum við fundinn á því að hlaða okkur orku og snæða Hnappdalsfjallalamb með öllu því helsta ,,grænfóðri,, sem að spettur hér í Hlíðinni.
Það er ekki nokkur von til þess að við gerum eitthvað gáfulegt nema við séum södd og sæl.
Ýmis mál voru á dagskránni svo sem skipulagning viðburða sem verða í boði á næstunni, undirbúningur fyrir aðalfund og margt fleira. Bara góður og gagnlegur fundur.
Við áttum ljómandi kvöldstund með spjalli og skemmtilegheitum, takk fyrir komuna.

Föstudagurinn var fundadagur fyrst var það fundur með forsvarsmönnum LH, FHRB, hrossaræktarráðunauti, dómarafélögum LH og Sigríði Björns dýralækni hrossasjúkdóma.
Umræðuefnið að fara yfir niðurstöður áverkaskráninga á Landsmóti 2011.

Seinni fundurinn var svo aðalfundur Gæðingadómarafélags LH, góður fundur með nokkuð góðri mætingu. Alltaf fróðlegt að mæta á aðalfundi.

Laugardagurinn var svo slátursgerðardagurinn mikli sem er alltaf svo góður þegar hann er búinn. Afurðin var svo prófuð um kvöldið og hlaut bara þó nokkuð lof allt frá okkur heimafólkinu ,,upp,, til kærkomins þyrluflugmanns sem að mætti í matinn.
Það voru nokkurnveginn 77 ár sem að skildu þann yngsta og elsta að í aldri sem tóku þátt í slátursgerðinni. Já kynslóðabil er ekki til í skyldustörfunum hér á bæ.

Í dag voru svo veisluhöld hjá Stellu sem að fagnar 70 árum á morgun, já þær voru ekki af verri endanum veitingarnar hjá henni frekar en venjulega.

Helgin var svo þétt skipuð að enginn tími var til að fara á sauðamessu í Borgarnes hvað þá hrossauppboð og hrútasýningar. Já það er ekki einleikið hvað maður vildi vera víða og gera margt, kannske vex ég uppúr þessu þegar ég verð ,,stór,, ????
Ýmislegt er  líka á döfinni næstu vikuna en ofarlega á stefnuskránni er sviðaveisla, Geirmundartjútt, smalamennskur og folaldasýning.
En kannske verð ég bara til friðs og fer ekki neitt.

12.10.2011 21:29

Já það er langt síðan.......Þarna er hann Ríkur minn að njóta veðurblíðunnar og safna kröftum fyrir næstu verkefni.
Kannske verða það smalamennskur, skemmtireiðtúr húsfreyjunnar nú eða nýja hlutverkið hans ,,ásetuæfingakennslutæki,, Mumma sem að notar hann óspart fyrir nemendur sína.

Jæja þá er loksins tími til að setjast niður og pára eitthvað á ,,blað,, af fréttum héðan úr Hlíðinni, af nægu er að taka.

Eins og undanfarnar vikur hefur mikill tími farið í smalamennskur og kindastúss en brátt sér fyrir endann á því svona í bili að minnsta kosti. Heimtur eru að skána en eru langt í frá góðar enn vantar t.d rúmlega 60 lömb af fjalli.
Í gær og dag hafa farið um 250 lömb í slátur.
Smaladagarnir hafa verið margir og langir með misjöfnum árangri, verstur var samt síðasti laugardagur en þá var boðið uppá rok og rigningu í óhóflegu magni sem að gerði litla læki að stórfljóti og árnar ófærar.
Um síðustu helgi voru svo þrjár réttir tvær sem að við gerðum skil í þ.e.a.s Hólmarétt og Vörðufellsrétt síðan var það Mýrdalsréttin líka.
Sunnudagurinn fór svo í vigtun og vísindarannsókir þar sem að væntanleg líflömb voru valin til þess að mæta fyrir æðsta dómi.
Á mánudaginn komu þeir Lárus ráðunautur og Torfi frá Búvest að sónarskoða og stiga lömbin hjá okkur. Margar góðar gimbrar fengu staðfesta búsetu í líflambakrónni fyrir veturinn en þeir voru færri hrútarnir sem að þangað komust þetta haustið. Bæði er að hrútaásetningurinn í fyrra var með rílegara móti og eins að við vorum ekki eins ánægð með útkomuna á hrútunum eins og í fyrra. Þrír kappar hlutu samt náð og standa vonandi undir væntingum.
Tveir af þeim eru synir Hriflons frá Hriflu og einn er sonur Asks okkar sem að er sonur Papa, hann stigaðist hæsta af þeim köppum.
Bestu gimbrarnar er undan Hriflon, Kosti, Frosta og honum Svartakolli okkar sem að stendur svo sannarlega fyrir sínu eins og áður. Hér fæddust bara tvennir tvílembingar undan uppáhalds hrútnum mínum honum Kveiki frá Hesti. Heppnin var ekki með afkvæmunum því báðar mæðurnar fengu júgurbólgu þannig að stærð og þroski lambanna var eftir því. Ein gimbur undan Kveik var þó stiguð og kom vel út úr því þrátt fyrir að vera bara 37 kg. Svo er það leynivopnið mitt hann Litli-Sindri Kveiksson sem að frestaði stigun þangað til næsta haust en þá hefur hann vonandi tvöfaldað stærð og þyngd sína. Segir það ykkur ekki nóg??? Hann lúrir samt á góðum genum kallinn.
Það er ekkert grín að þykjast vera sauðfjárbóndi..........með vaxandi viti.

Ekki hefur allt púður farið í kindur því á fimmtudagskvöldið greip menningarþráin öll völd hér á heimilinu. Og vitið þið hvað ??? bara rokið í bæinn á tónleika hjá ,,veiðibóndanum,, í Kjósinni Bubba sjálfum sem að lét gamminn geysa með Sólskuggunum sínum.
Bara flottur kallinn.
Skemmtileg tilbreyting frá kyrrðinni í fjöllunum já og kindajarminu góða.
Já svona láta þessir bændur stundum...................

Á ferðinni um fjöllin hef ég oft fengið að mér finnst góðar hugmyndir um efni til að setja hér á bloggið en hvort það er fjallaloftið, lognið eða rokið þá er hugurinn blankur núna.05.10.2011 22:33

BirrrrrrrrSá sem að raðaði saman þessum fallegu haustlitum hér í hnjúkinn er í meira lagi smekklegur.
Fallegir haustlitir hafa skartað sínu fegursta að undanförnu en í morgun var þetta í boði........Já það var eins gott að kartöflurnar ,,drifu,, sig uppúr garðinum í gær..................... þökk sé húsasmiðnum á heimilinu. Verkaskiptingin var þannig í gær að við Mummi rukum til fjalla að smala og þá varð það hlutskipti Skúla að smala kartöflum uppúr garðinum. Við Mummi vorum kát með skiptin en þó endaði það nú þannig að Skúli mætti líka í kindasmalamennsku með okkur en við sluppum við kartöflurnar.Þarna brunar einn smalinn af stað um hádegið en þá var orðið nokkuð útséð með að ekki væri neitt betra í boði hjá veðrinu þennan daginn.

Árangurinn varð samt ekki svo slæmur og heimturnar hér á bæ stór löguðust þennan daginn.
Já Tófudalirnir eru oft gjöfulir á fé..............héðan úr Hlíðinni.

En svona til að væla svolítið þá er þetta nú aðeins of snemmt fyrir minn smekk ég man nú ennþá eftir vorinu og finnst bara allt í góðu að fara fram á blíðu í haust.
Tamningahrossin eru öll inni og ekkert á leiðinni út ef að þetta verður svona áfram.

02.10.2011 20:31

Ósréttin var í dag.Baksvipur vaskra Kolhreppninga...............

Ósréttin var í dag og veðrið sem boðið var uppá vorblíða, lognrigning með 13 stiga hita svona alveg eins og við vildum hafa í júní.Réttir eru góðar til að spjalla og blanda geði..........þarna eru Flosi og Kristín bændur á Emmubergi að ræða málin við Sveinbjörn.Margir af Skógarstrandarbændum voru mættir í réttirnar enda réttir sannkallaðar hátíðir fyrr og síðar. Þarna eru bændur m.a frá Breiðabólsstað og Ósi mættir í réttina.Þarna er bóndinn í Litla-Langadal að segja eitthvað skemmtilegt.......nú eða fara að stjórna söng.......hver veit? 
Allavega er gaman þarna hjá honum, Bíldhólshjónum og Haukabrekkubóndanum.

Það voru margar réttir um helgina auk Ósréttar voru Þverárrétt, Hólmarétt, Hítardalsrétt og örugglega margar fleiri. Við fengum nokkurn reiting úr þessum réttum en heimtur lagast sennilega ekki fyrr en um næstu helgi þegar smalað verður til annarar réttar hér hjá okkur og nágrönnunum.

Nú koma frumtamningatryppin hvert af öðru svo að það fer aftur að lifna yfir hesthúsinu.
Í dag komu fimm trippi sem að byrja sitt nám á næstu dögum, bara spennandi að sjá hvað verður úr þeim.

  • 1