Færslur: 2015 Nóvember
23.11.2015 23:57
Síkátir vestlenskir...........
|
||||||||||||||||||||
Það var létt yfir vestlenskum hestamönnum þegar þeir héldu árshátíð sína í Reykholti á föstudaginn. Þetta er í þriðja skiptið sem vestlenskir hestamenn halda hátíð með þessu sniði. Fyrst var hátíðin haldin í Stykkishólmi, þá á Laugum í Sælingsdal og nú var það Reykholt. Glens og gaman eins og hestamanna er von og vísa en þessi hátíð er svo sannarlega að festa sig í sessi. Mætingin var góð og fulltrúar frá öllum hestamannafélögunum auk góðra gesta. ,,Landinn,, okkar allra fór vel í mannskapinn en eins og meðfylgjandi mynd af okkur frændsystkynum ber með sér dreyptu sumir á rauðvíni.
|
19.11.2015 20:48
Krakkarnir.
|
||||||
Tamningar og þjálfun eru í fullum gangi, veðrið verið til friðs og þá er flest fengið. Á myndinni er hann Baltasar með nýju vinkonu sína hana Sidney, myndin er tekin á afmælinu hennar. Sidney hefur verið að hjálpa okkur við tamningarnar og allt hestastússið að undanförnu. Það fer vel á með þeim og afmælisreiðtúrinn var tekin þrátt fyrir kulda og smá strekking.
|
09.11.2015 22:45
Efnilegur sauðfjárbóndi.
Vá hvað við erum sætar....................báðar. |
||||||||
Ég á litla frænku sem er efni í góðan sauðfjárbónda. Einn daginn kom hún og tók út spari gimbrina mína hana Vöku litlu.
|
09.11.2015 21:56
Kindaleg.
|
||||||||
Matartíminn er uppáhalds hjá þessum enda eru þau í ,,vinnu,, við að stækka. Rúningurinn hófst fyrir alvöru í dag þegar klipptar voru 100 kindur en áður var búið að klippa 40 kindur. Reynt verður að taka góða skorpu á hverjum degi svona með tamningum og öðru stússi svo sem eftirleitum.
|
03.11.2015 22:26
Vonandi verða þau sér og sínum til sóma.
|
||||||||||||||
Það er svo gaman að fá fréttir af hestunum sem flutt hafa til nýrra eigenda. Á þessari mynd er hann Gosi vinur okkar frá Lambastöðum sem nú lifir í vellystingum í Ameríku. Eigandinn og hann hafa náð frábærlega vel saman og gera það gott saman. Mummi fer reglulega í heimsókn og fylgjist með þessu flotta pari.
|
01.11.2015 22:49
Bara gaman.
|
Sólarlagið í gær var með því allra besta og veðrið dásemdin ein. Á svona dögum er ekkert betra en vera á fjöllum. Nú hafa verið unnin mörg hvuntagsafrek frá síðustu bloggfærslu. Þetta var sko vikan þar sem allt var að gerast og rúmlega það. Líflömbin komin inn á gjöf, búin að fá Hjalta dýralæknir í heimsókn og ormalyf í kaupbætir. Þau bíða svo eftir því að fjölgi í fjárhúsunum þannig að þau geti fengið jólaklippinguna. Eftirleitir voru aðal síðustu vikuna og árangurinn að verða nokkuð góður. Við hér í Hlíðinni búin að æða um þrjár jarðir og að auki hafa góðir grannar fyrir innan fjall heldur betur staðið sig. Rjúpnaskytturnar okkar voru ansi liðtækar við að sjá eftirlegu kindur enda allir sem einn fyrirmyndarsmalar. Þeir hinsvegar sem voru að stelast á rjúpu hér í nágenninu og það ekki einu sinni á réttum dögum.......mega vara sig. Það getur verið hljóðbært við eftirleitirnar............. Kvöldföndur húsfreyjunnar er svo að telja og stemma af sauðfjárbókmenntirnar. Nýjustu tölur úr ,,Hlíðarkjördæmi,, eru væntanlegar fljóttlega. Já jólaföndrið er ekki ennþá komið á dagskrá. Við frænkur rukum svo til og gerðum slátur um helgina eins og við höfum gert í næstum óteljandi ár. Ómissandi stemming með góðum árangri þar sem ungir sem aldnir taka þátt. Ein saumakonan var 5 ára og önnur 85 ára við hinar einhversstaðar á milli. Vikurnar líða á ógnar hraða örstutt síðan um síðustu helgi þegar við fögnuðum 40 árum með góðri vinkonu. Það er líka líflegt í hesthúsinum og mikið um að vera eins gott að nýta tímann vel á meðan Mummi er heima. Rúv sýndi snildar þátt í kvöld þar sem rætt var við tíu barna móðir. Það var ekki barlómur á þeim bænum. Sama hvernig spyrillinn reyndi að fá hana til þess að kvarta það bara tókst ekki. Hún geislaði af orku, jákvæðni og hamingju. Ég verð að játa að stundum finnst mér fólk með örfá börn láta eins og það séu að vinna einstök afrek í mannkynssögunni við að lifa daginn af. Nei verið róleg þetta er bara mín skoðun og ég er nú svolítið skrítin. Mér fannst þessi kona flott, krakkarnir og kallinn. Auðvita var mér hugsað til hennar Hrafnhildar ömmu minnar sem átti 12 börn og bjó hér í Hlíðinni. Hún var fædd árið 1906 átti 12 börn það elsta fætt 1927 það yngsta fætt 1945. Og það sem meira var hún varð ekkja 1945. Bara eitt í viðbót..................engin þvottavél, engin uppþvottavél, ekkert rafmagn, engin frystikista, enginn ísskápur, enginn sími, engar einnota bleyjur.................ekkert net krakkar. Hvernig var þetta hægt ????? |
- 1