03.01.2009 22:58

Það er margt skrítið......




Salómon svarti ,,draumaprins,,

Það er margt skrítið og skemmtilegt bara ef að maður fer að veita því eftirtekt.
Ég var að hugsa um það í dag hvernig minningar af ýmsum toga verða til. Til dæmis af hverju man maður sumt miklu betur en annað? Jafnvel ,,ómerkilegustu ,, hlutir verða eftirminnilegir vegna þess að það var eitthvað sérstakt sem maður tengir við það.
Þegar að ég rifja upp mínar fyrstu minningar varðandi hesta þá koma uppí hugann nokkurs konar ,,klippt,, myndskeið. Það er að segja ég man einhver atvik vel og sé þau fyrir mér en annað er óljóst og hefur ekki geymst eins vel í minningunni.
Smá sýnishorn.
Ég er berbakt á henni Fjöður gömlu, leirljósblesóttri hryssu sem frænka mín átti. Ég er varla meira en 4 ára við erum að koma niður Kúabollana það er teymt undir mér, mamma og móðursystir mín labba sitthvoru megin við Fjöður og allt er í róleg heitum. En skyndilega tekur Fjöður smá hopp yfir þurran lækjarfarveg. Hoppið var hvorki hátt eða harkalegt en þó nóg til að litli knapinn rúllaði aftur af og lenti milli þúfna. Lendingin var mjúk og hafði ekki í för með sér nein líkamleg meiðsli en eitthvað hefur stoltið hruflast því lengi á eftir var mér meinilla við frásagnir af þessu. Þetta var sem sagt ,,þegar Sigrún datt í fyrsta sinna af baki,,

Annað...
Þegar ég var lítil þá hafði ég svæsið ofnæmi fyrir nýfæddum folöldum. Þetta lýsti sér þannig að ef að ég snerti folöld sem voru ný köstuð og ekki orðin þurr þá steyptist ég út í roða og kláðabólum á höndum og í andliti. Þessu fylgdu svo mikil óþægindi að ég lét mig hafa það að rjúka EKKI út í girðingu um leið og það fæddist folald. Loks kom þó að því að ég gat ekki annað en rokið til og heilsað uppá nýfætt upprennandi eftirlæti. Í kjölfarið breyttist ég í einhverja veru sem líktist helst krakkaormi með jarðaberjaáferð á höndum og andliti. Kláðinn og óþægindin voru nær óbærileg í nokkra klukkutíma, en eins og alltaf lagaðist það aftur.
Um haustið fór ég í skólann sennilega í 8 ára bekk, þegar kom að skólaskoðun var okkur sagt að ef að eitthvað væri að hjá okkur ættum við endilega að ræða það við hjúkkuna hún gæti leyst úr öllum helstu krankleikum. Það var því með mikilli eftirvæntingu sem ég bað hjúkkuna um sprautu við nýfæddum folöldum.
Enga fékk ég sprautuna og ekki man ég hvað hún sagði en eitt er víst svipnum á henni gleymi ég aldrei.

En að öðru við í Hlíðinni eigum litla vinkonu í Garðabænum hún á afmæli svo að ég tileinka henni myndina sem fylgir blogginu mínu í kvöld. Innilegar hamingju óskir til þín frá okkur í sveitinni.