02.05.2009 22:28

Gosi kominn með farseðil.



Þetta var nú góður dagur eins og ég reyndar leyfði mér að vona í morgun líkt og aðra morgna. Rauk á fætur eldsnemma og gaf hrossunum til að keppninsgaurarnir yrðu búnir að borða áður en lagt yrði af stað. Í dag var nefninlega úrtökumót hjá hestamannafélaginu Glaði fyrir Fjórðungsmót í sumar. Gosi kallinn var bara í nokkuð góðu stuði og gerðu þeir félagarnir Skúli og hann sér lítið fyrir og sigruðu B flokkinn. Svo nú er bara að halda dampi vanda sig og æfa næstu vikurnar. Mummi fór líka með Dregillinn í A flokkinn og fékk bara fínar tölur fyrir allt nema skeið. Dregill lenti í 5 sæti sem er varahestasæti svo það borgar sig að halda sér við efnið og smyrja fimmtagírinn.

Þegar við komum heim í dag sá ég að við eigum ekki bara fallega hvolpa heldur líka afburða skynsama. Þannig er að símtækjum er dreift um húsið til að meiri líkur séu á því að ná að svara í símann í tæka tíð. Með öðrum orðum við erum með þráðlaust tæki og svo einn gamlan góðan sem er með snúru í tólið eins og allir símar voru fyrir ótrúlega stuttu síðan. Sá sími er staðsettur í þvottahúsinu við bakinnganginn eins og hvolparnir okkar fínu. Hér í Hlíðinni kemur það oft fyrir að síminn hringjir nær stöðug í langan tíma og við ekki heima. Það hefur sennilega gerst í dag með þeim afleiðingum að Ófeigur og Þorri hafa fengið nóg. Það er afar sjaldan sem að þeir félagarnir eru kallaðir í símann svo að þeir hafa talið óþarft að svar heldur gripið til rótækra aðgerða. Dregið símann niður af hillunni og nagað sundur símasnúruna og viti menn síminn steinþagnað. Ég verð að játa að ég hef örlítið meiri áhyggjur af því ef að þeir fá leið á hljóðinu í þvottavélinni.....................

Sauðburðurinn er aðeins farinn af stað bornar ríflega 20 stykki og bara gengið nokkuð vel ennþá. Verður vonandi svo áfram. Búin að fá mókollótan hrút, svarta og svartbotnóttar kollóttar gimbrar og svarta og svartbotnóttar hyrndar gimbrar. Allt afrakstur sæðinga.

Fyrirmyndarhestur dagsins var að sjálfsögðu Gosi frá Lambastöðum og í örðu sæti Dregill frá Magnússkógum. Einnig er alltaf jafn gaman að sjá vinkonu mína gæðingshryssuna Þernu frá Spágilsstöðum sem var að keppa í dag, úrvals hryssa þar á ferð.

Ég fór og skoðaði fylfullu hryssurnar í fyrradag er farin að hlakka til að fá folöld, fyrsta hryssan getur kastað eftir rúma viku. Alltaf jafn spennandi að sjá hvað kemur úr ,,pökkunum,, verður það hryssa? hvernig á litinn? og verður það fallegt?
Annars er ég niðursokkin í stóðhestblaðið flestar lausar stundir og bölva því stundum að það skuli ekki vera skylda að hafa alla stóðhesta í blaðinu. Það væri mikið hagræði fyrir uppteknar t d húsmæður og fleira gott fólk.