05.05.2009 21:41

Vorið er ekki alveg visst.


Þetta vor er nú ekki alveg sannfærandi, allavega var rigningin ekki alveg viss hvort hún ætti að vera rigning eða kannske bara snjór. Ég hugsaði til orða sem eitt sinn voru sögð hér í Hnappadalnum ,,líklega er áburður í maísnjónum,, og hresstist mikið við það.
Það er stund milli stríða í sauðburðinum núna, rollurnar sem voru sædda eru bornar og ekki alveg komið að hinum. Reyndar er ég ekki ánægð með hversu margar rollur sem voru sæddar hafa ekki haldið. Alvöru fjörið hefst svo um og upp úr næstu helgi.
Það fæddist upprennandi kynbótahrútur í gær hann er undan sjarmatröllinu Kveik og henni Sparisvört sem hefur nærri því allt til að bera sem hæfir ofurkind. Það skal sérstaklega tekið fram að hann mun ekki hljóta nafnið Steingrímur. En nafnið Sindri kemur sterkt til greina.
Einnig er fæddur mókollóttur sjarmur sem kemur nú bara nokkuð sterkur inn þegar hugsað er til frekari kynbótaafreka.

Á sunnudaginn fór hann Dregill aftur norður að Hólum þar sem hann og Mummi ætla að lesa saman fimmgangsfræði. Nú er að koma að loka sprettinum í náminu á þessum vetri.
Ég ætla að kíkja á þá félagana á morgun þegar að ég skrepp norður með góðum félögum mínum í stjórn Félags tamningamanna. Alltaf spennandi að koma að Hólum.
Í dag var fundur með kynbótadómurum og stjórnarmönnum í Fagráði í hrossarækt fundurinn var haldinn á Miðfossum. Þetta var fínn fundur þar sem rætt var um hvort að færa eigi einhvern hluta af kynbótasýningunum inná hringvöll.

Fyrirmyndarhestur dagsins var Bikar Oddsson (ekki bróðir Davíðs) hann var frábæri í dag.