22.09.2009 23:16

Í réttum er þetta helst.



Þarna eru vaskir sveinar að leggja af stað til að smala Oddastaðafjall þetta eru Skúli, Hrannar og Pétur. Þeir voru hluti af heilmiklu smalagengi sem smalaði Oddastðafjall á fimmtudaginn.
Smalamennskan gekk vel og var allt féð rekið hér heim í Hlíðina þar sem það var dregið í sundur, ókunnugar kindur fóru áleiðis til síns heima en okkar kindur útá tún.

Það var þoka niður í miðjar hlíðar svo það var eins gott að rata.



Þarna má sjá þau Astrid og Sveinbjörn á lokasprettinum.



Á föstudaginn var svo aðal smalamennskan hjá okkur þegar Hlíðar og Hafurstaðalönd voru smöluð. Við vorum svo heppin að fá mikinn fjölda af aðstoðarfólki sem kom og veitti okkur ómetanlega aðstoð við leitir og ýmislegt fleira.
Ég held að ég fari rétt með að kvöldmatinn í Hlíðinni borðuðu rétt um 40 manns.
Á þessari mynd eru Óskar, Ragnar og Pétur að slaka á eftir erilsaman dag.



Hrannar, Skúli og Óskar rifja upp eitthvað skemmtilegt úr fjallinu......



Ungar dömur laðast meira að sumum en öðrum..........þarna eru Halldóra, Sveinbjörn og Astrid.



...........gat nú verið kellurnar komnar í Grandið.



Þokkalega ánægðar..............húsfreyjan og Sigfríð súkkulaðikona.



Já ............Jón láttu hana heyra það...............æviráðni vinnumaðurinn frekar áhyggjufullur.



Á laugardaginn var svo Vörðufellsrétt þar var mætt með fríðu föruneyti og dregið af miklu kappi. Veðrið lék við okkur í réttinni þetta árið og þurftum við ekki að flýja haglél þetta árið.
Það tilheyrir að mæta í kjötsúpu á Bíldhóli þennan dag og síðan í réttarkaffi þegar réttarstörfum er lokið.
Þegar við komum heim var svo brunað í Hraunholt þar sem að við áttum þó nokkurn fjölda fjár. Á heimleiðinni þaðan greip okkur mikið hreingerningaræði hvað smalamennskur varðar og hugðstum við taka með okkur eina lambrollu frá okkur sem við sáum á leiðinni. Þetta töldum við að tæki svona 10- 15 mínútur og yrði létt verk og löðurmannslegt með fullt af fólki. En annað kom nú á daginn því Kolla hafði ákveðið að heim ætlaði hún ekki með góðu þrátt fyrir að hafa eytt langri ævi hér í Hlíðinni. Rauk hún af stað og þá í öfuga átt miðað við það sem eigndurnir hefðu helst kosið.Þegar útlitið var þannig að Deila hefði fullan sigur ákvað Kolla að nú skyldi gripið til rótækra aðgerða og ekkert minna en sund útí Hlíðarvatn dyggði til undankomu. Hvort að viljinn hjá Kollu var ekki nógu einbeittur eða ellin farin að segja til sín þegar kom að því að leggjast til sunds er ekki alveg á hreinu en eitt er víst Skúli var heldur sneggri og gat rétt svo rokið úti vatn og gripðið í sunddrottninguna áður en hún drekkti sér. Var Kolla handtekin með það sama og henni dröslað uppí bíl og flutt heim.
Klukkan var orðin margt þegar hangikjötið var snætt í því efra þann réttardaginn. Um kvöldið var svo aðeins kíkt í söngbók með undirleik og haft töluvert gaman vel fram á nótt jafnvel alveg fram á morgun. Það er bara þannig að menn þurfa mislangan svefn.



Á sunnudagsmorgunn var svo rekið inn allt safnið þá rigndi mikið og allt var sóðalegt.



Réttarstörfin gengu vel enda harðsvíraður mannskapur okkur til aðstoðar.
Ókunnugar kindur voru rétt um 5oo eins og venjulega þær voru keyrðar niður í safngirðingu við Mýradalsrétt. En fé granna okkar hér á næstu bæjum fór til síns heima.
Einnig voru tekin frá 500 lömb til slátrunnar og rúmlega 200 sem fóru á fóðurkál og ætla að stækka þar næstu vikurnar. Allt þetta at var búið kl 21.00 og er það algjört met á þessum langa ,,rolludegi,,

Eins og áður sagði kom fjöldi fólks að aðstoða okkur og vil ég þakka þeim öllum kærlega fyrir hjálpina. Það er okkur mikilvægt að fá alla þessa hjálp hvort sem hún er í fjallinu, réttinni eða eldhúsinu. Takk fyrir okkur.

Eins fljótt og ég hef tíma mun ég setja inn fleiri myndir og segja ykkur hvað gerðist mánudag og þriðjudag.................læt hér staðar numið að sinni.