01.10.2009 19:54

Viðja fundin, bræður í vanda, Kraftur og Tóti góðir.


Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað þið sjáið á þessari mynd.............ó jú þetta er hún Viðja sem var búin að vera týnd alveg síðan í október í fyrra. Ég var meira að segja búin að stroka nafnið hennar af hrossavitsblaðinu mínu en sem betur fer ekki búin að skrá hana dauða í Worldfeng. Viðja er þriggja vetra hryssa undan henni Tryggð minni og Faxa frá Hóli hún hvarf í október í fyrra og erum við búin að leita mikið. Ég var orðin sannfærð um að hún væri dauð og varð því ekki lítið ánægð þegar hún kom fram hjá honum Halldóri í Syðstu-Görðum. Viðja leit mjög vel út spik feit og hefur stækka helling, greinilega gott að vera í vist hjá honum Halldóri. Takk fyrir það.
Þegar Viðja kom heim var henni smellt beint inní hesthús og verður byrjað að temja hana fljóttlega. Já stundum gerast skemmtilegir hlutir.

Í gær fór ég á frumsýningu á myndinni ,,Kraftur síðasti spretturinn,, sem sýnd er í eina viku í Kringlubíói. Ég skemmti mér ljómandi vel og mæli hiklaust með því að fara og sjá þessa mynd. Hún er skemmtileg, tilfinningaþrungin og gefur fólki annað sjónarhorn á ýmsa þætti hestamennskunnar. Innslag bóndans í Kýrholti er tær snild, ég er enn að hugsa um það hversu mikill sannleikur var í orðum hans og ekki skemmdi fyrir að flétta köldum húmor saman við. Verð að játa að ég rúmlega brosi útí annað þegar ég hugsa um morgunvandræði verðbréfasalans sem hann vitnaði í. Ekki spurning skellið ykkur á myndina og munið að þið þurfið ekkert að vera forfallnir hestamenn til að hafa gaman af myndinni, þó það sé að sjálfsögðu ekki verra.
Áður en ég sá myndina var mér lofað gæsahúð, brosi og tárum..........það stóðst og ég notaði það allt.
Svo er ég líka rosalega ánægð að hafa eignast hryssu undan Krafti og bíð eftir að hún komist á tamningaaldur.

Eftir afrek síðustu helgar hjá þeim bræðrum Ófeigi og Þorra þar sem þeir snæddu úlpu húsfreyjunnar var ráðist í framkvæmdir. Nú hefur verið komið upp búrum í þvottahúsinu sem hýsir kappana þegar þeir eru ekki við löglega vinnu. Ófeigur er þokkalega sáttur með nýja híbýlið en Þorri er hundfúll vildi fá stærð svona meira í anda ársins 2007 og viðbrögðin eru þau að rétt sé að vera ekkert að koma heim í þessa holu.
Húsráðendur eru alsælir með framkvæmdirnar en bræðurnir eru frekar súrir og kenna ríkisstjórninni um vandann eins og sjálfsagt er.

Fyrirmyndarhestur dagsins var hann Skeggi Stælsson bara skemmtilegur.