10.10.2009 13:49

Er fokið í flest skjól??



Á þessari mynd er gullið mitt hún Karún að kljást við unga Gosadóttir sem heitir því framsýna nafni Framtíðarsýn. Þær nutu saman veðurblíðunnar á dögunum og lögðu sig fram um að kynnst nánar. Hryssurnar eru ánægðar með að vera komnar á hauststaðinn sinn en voru samt svolítið öfundsjúkar þegar Skúta og litla Trilla fengu einhverja sér meðferð í sliddunni.
Þær vor teknar og settar í skjól sem er ofan, neðan og allt í kring sem sagt inn á meðan versta veðrið gekk yfir. Það er munur að vera uppáhalds þegar maður er bara eins og hálfsmánaða.

Veðrið þessa dagana er hreint ekki eins dásamleg eins og við fengum í réttarstússið um síðustu helgi, þegar ég einmitt tók fullt af myndum sem ég hef nú sett inná ,,myndaalbúm,,
Okkur hefur verið boðið uppá leiðinda rok og stundum sliddu en megum kannske þakka fyrir að fá ekki aftakaveður eins og víða annars staðar.



Þarna er hann Kynbótakollur hann fer á níunda vetur sem er nú nokkuð hár aldur í hrútaheimi. En takið eftir hann er ekki eins og þið kallarnir........hann er sko ekki að verða skollóttur þó að aldurinn færist yfir. Reyndar eru nú eyrun farin að vísa full mikið til jarðar, en hvað um það sjarmatröll á sinn hátt.

Nú fer að styttast í kindastúss hér heima fyrst verða það smalamennskur og eftirleitir svo val  á líflömbum og förgunarkindum. Mér finnst alltaf gaman að raga í fé spá og spekulegra skoða afkvæmi og rekja ættir. Þegar ég var lítil þá var dagurinn sem að lífgimbrarnar voru valda einn af þeim bestu þó svo að allar væntingar um líflömb stæðust ekki.
Nú bíð ég spennt eftir því að sjá hvernig ,,kynbótagripurinn,, Sindri kemur af fjalli einnig verður gaman að sjá Mókoll já og ýmsa fleiri. Það er ekki bara hrossaræktin sem er skemmtileg.
Það hefur verið að heimtast fé hér jafnt og þétt síðan í fyrstu leit en engin nákvæm talning farið fram. Við erum bara búin að senda lömb í förgun einu sinni í haust það var eftir fyrstu leit sem fóru 501 lamb. Fyrir þá sem hafa áhuga á meðalvigt þá var ég nokkuð sátt  en hefði að sjálfsögðu viljað hafa hana hærri en flokkunin var góð. Meðalvigtin var meira en 15 kg en minna en 20 kg og reiknið þið nú......
Annars höfum við gert mikla skissu undanfarin ár þegar við höfum verið að setja 5-600 lömb í fyrstu förgun. Við hefðum átt að setja bara þessi 100 þyngstu og hafa svo nótuna með meðalvigtinni til sýnis allt haustið.
Hver skoðar dagsetningu þegar kílóafjöldinn er stórkostlegur?

Eitt er það sem farið er að banka óþægilega á undirmeðvitund húsfreyjunnar......SLÁTURGERÐ mér finnst það nokkuð ljóst að ég verði að gera eitthvað í því í næstu viku.