05.01.2010 22:45

.......og þar með var draumurinn búinn.



Þetta er hann Ófeigur minn........alltaf klár í vinnuna þessi elska og mesta átvagl sem ég þekki.

Hann og bróðir hans Þorri fagna eins árs afmælisdegi sínum í lok janúar. Þeir eru mjög áhugasamir og verða vonandi góðir fjárhundar allavega eru þeir efnilegir þessa dagana.
Eftir að þeir unnu sín ,,afrek,, þegar húsbændurnir voru í Laufskálarétt áskotnuðust þeim þessi fínu einbýli öðru nafni búr, við það fækkaði umtalsvert möguleikunum á að framkvæma eitthvað eftirmynnilegt. En eins og þið kannske munið átu þeir úlpu húsfreyjunnar, smökkuðu aðeins á þvottakörfunni, nöguðu dyrastafi og færðu vinnukonunni löpp af dauðri kind við afar lítinn fögnuð hennar. Allt þetta náðu þeir að gera á mjög stuttum tíma og lá því fyrir að annað hvort yrði að fjárfesta í búrum eða róandi fyrir Astrid. Ég valdi búrin lyf eru svo asssskoti dýr.

Það gekk mikið á hjá þjóðinni í dag og allt í einu allir komnir með einhverja skoðun á þjóðmálunum. Ég var ánægð með forsetann fór meira að segja heim úr hesthúsinu til að horfa á fréttatímann. Dreif mig svo að ríða út og hlustaði á útvarpið svona á milli hesta en um kaffileitið var orðið tímabært að slökkva á útvarpinu í hesthúsinu. Maður getur nú ekki boðið hestunum uppá hvað sem er.
Svo er bara að búast við því versta og vona það besta en við verðum samt að muna það að miðað við allar spár þá ættum við að vera löngu komin til fj......

Aftur á móti hef ég meiri áhyggjur af gangi mála hjá bæjarstjórninni í minni sveit eins og þar stendur. Fréttir af þeim málum síðustu daga hafa ekki verið gæfulegar og grunar mig að ekki sé að vænta neinna skemmtitíðinda þaðan á næstunni.

Mig dreymdi það eina nóttina að gamli Kolbeinsstaðahreppur væri enn í hreppa tölu.
Það var góður draumur en svo hringdi síminn...........og þar með var draumurinn búinn.