05.03.2010 12:25

Ferðasaga fyrsti hluti



Þarna er formaður Félags hrossabænda Kristinn Guðnason að taka út gæðingshryssu hjá henni Heklu dóttur sinni. En þær tóku sýningu fyrir okkur þegar við komum að Hólum, sýningin heppnaðist með miklum glæsibrag og alveg ljóst að þær eru bráðefnilegar báðar tvær.

Eins og þið hafið kannske tekið eftir þá hefur húsfreyjan verið að heiman og því ekki skrifað neinar fréttir um nokkurt skeið. En nú er ætlunin að bæta þar úr.

Nú stendur yfir mikil fundaherferð sem ég hef tekið þátt í fyrir hönd Félags tamningamanna.
Við lögðum uppí ferð síðasta þriðjudag. Ég frá FT, Guðlaugur Antonsson hrossaræktarráðunautur Bændasamtakanna og Kristinn Guðnason formaður Félags hrossabænda. Ferðinni var heitið norður í land til að vera frummælendur á þremur fundum sem haldnir voru á Sauðárkróki, Akureyri og  Blönduósi.
Í næstu viku heldur svo ferðin áfram og þá verða fundir í Reykjavík, Hvanneyri og Selfossi.

Fyrsti fundurinn var haldinn á Sauðárkróki og var nokkuð fjölmennur. Þar sem að þetta var fyrsti fundur var mannskapurinn aðeins að slípa til lengd og efni á framsögunum.
Góðar umræður urðu og almennt gott hljóð í hestamönnum í Skagafirði.
Að fundi loknum var brunað í Miðsitju þar sem við gistum fyrstu nóttina, húsráðendur þar eru Eyþór Einarsson og Þórdís Sigurðardóttir. Við fengum höfðinglegar móttökur og ekki skemmdi fyrir að húsfreyjan á gullfalega og skemmtilega læðu sem ekki væri slæmt að eignast ,,kattakynbótagrip,, undan við tækifæri.



Þarna sjáið þið glæsigripinn sem mér leist svo vel á og ekki skemmdi fyrir að hugsanlega er hún frænka Salómons svarta.

Á miðvikudagsmorgun hófst svo mikil yfirreið um Skagafjörðinn þar sem við komum við á nokkrum stöðum.
Frá Miðsitju fórum við að Flugumýri til þeirra Páls Bjarka og Önnu, Páll sýndi okkur bráð efnilegan fola undan heimsmeistaranum Krafti frá Bringu. Það er ljóst að mikill hugur er í þeim hjónum hvort sem er varðandi ferðaþjónustuna eða landsmót á komandi sumri.
Frá Flugumýri fórum við að Hólum, þar byrjuðum við á að fylgjast með samverustund reiðkennaranna sem fer oftast fram á miðvikudagsmorgnum. Þá hittast þeir allir með hesta og bera saman bækur sínar. Að því loknu fórum við í hesthúsið og skoðuðum gripi og hittum nemendur. Kristinn notaði tækifærið og skoðaði hrossin sem að dóttirin er með í þjálfun og mutum við hin góðs af því.



Sum hrossin voru dæmd meira en önnur......Guðlaugur, Hekla, Sveinn Ragnarsson og Kristinn.
Mér finnst alltaf jafn gaman að koma að Hólum en reyndar vantaði Mumma, svona miðað við undan farnar heimsóknir.

Frá Hólum var ferðinni heitið að Sleitustöðum þar beið okkar dekkað borð með frábærum veitingum. Þar áttum við skemmtilegt spjall við húsráðendur og þar öðlaðist ég fullkominn skilning á því afhverju þetta er staður sem skapast hefur hefð að heimsækja í þessum árlegu fundarferðum.
Næst var brunað að Þúfum þar sem að Gísli bóndi sýndi okkur margan glæsigripinn og mikið var spjallað og spáð í hrossarækt.Alltaf gaman að koma þangað.



Rikka , Bjarni og Kristinn ræða málin.

Þarna erum við komin að Narfastöðum, þar ræður ríkjum Bjarni Jónasson sem tók vel á móti okkur og sýndi okkur marga álitlega gripi meðal annars gæðinginn Kommu frá Garði.
Komma og Bjarni voru að undirbúa sig fyrir keppni í KS mótaröðinni um kvöldið.
Frá Narfastöðum fórum við í Skörðugil til þeirra Elvars og Fjólu þau voru að sjálfsögðu í hesthúsinu og sýndu okkur tvo efnilega fola.
Við Kristinn eru forfallnir sauðfjáráhugamenn og fengum við að sjá gullfallegt fé hjá þeim Skörðugilsbændum. Í þessari ferð hefur það sannast að flestir hrossaræktendur og tamningamenn hafa líka brennandi áhuga á sauðfé.
Nánar um það síðar.

Frá Skörðugili var brunað norður til Akureyrar þar sem fundur var haldinn í Hlíðrbæ.

Framhald af ferðasögu birtist við fyrsta tækifæri.

Munið svo fyrirlestur Rúnu Einars í Félagsheimili Skugga í kvöld kl. 19.00