08.08.2010 21:34

Ferðalag...........og fleira.



Þjóðhátíð frá Hallkelsstaðahlíð.
Faðir Glymur frá Innri-Skeljabrekku, móðir Skúta frá Hallkelsstaðahlíð.

Í gær var brunað með mæðgurnar Skútu og Þjóðhátíð austur að Jaðri undir stóðhestinn Stíganda frá Stóra - Hofi. Löng leið fyrir lítinn hest en Þjóðhátíð var samt bara eldhress þegar hún kom út af kerrunni í Jaðri. Með í för voru líka aðrar mæðgur Klara frá Lambastöðum og hennar dóttir en þær ætla einnig að hitta Stíganda.
Móttökurnar í Jaðri voru aldeilis góðar og sérstaklega var gaman að skoða ungar dætur Stíganda sem húsfreyjan í Jaðri er núna að byrja að temja.
Og ekki má nú gleyma flottu málverkunum eftir húsbóndann á bænum.
Skemmtilegt spjall við Jaðarsbændur, þurfum lengri tíma næst.

Þegar við fórum austur varð Lyngdalsheiðin fyrir valinu falleg leið og langt síðan ég hafði farið hana. Á heimleiðinni fórum við svo Kjósaskarðið og ég ætla ekki að segja ykkur hvað er langt síðan ég fór það síðast.  Ég held að ég hafi ekki farið það síðan sumarið 2004 þegar ég brunaði á Landsmót á Hellu og  fór með Karúnu mína undir Fræg frá Flekkudal í leiðinni.
Þessi tími bara æðir áfram eins og ekkert sé...........
Rifjaði upp skemmtilegt ferðalag og heimsókn að Meðalfelli þegar farið var þarna um í gær.
Afhverju er maður nú ekki duglegri við að skoða sig um og heimsækja skemmtilegt fólk ?

En takk fyrir skemmtilegt ferðalag Lambastaðabændur.

Í gærkveldi komu Snör og Hrókur litli heim eftir góða dvöl í Skáney.
Nú getur Sveinbjörn farið að láta sér hlakka til að fá gæðingsefni undan Snör sinni og höfðingjanum Soldán frá Skáney.