21.01.2011 22:34

Þorri kallinn.

Til hamingju með daginn kæru bændur í borg og til sjávar og sveita.

Hér heilsaði dagurinn með þýðu og vorveðri svo það hefði ekki væst um nokkurn mann að hoppa í kringum bæinn á nærfötunum einum klæða. Ég varð ekki vör við að neinn á þessu heimili gerði það en ýmislegt fer nú framhjá mér.
Venjulega hef ég haft þjóðlegan mat á boðstólnum þennan dag en núna var breytt út af þeirri venju og í stað hákarls og punga var það steik og bernes. Mun bæta úr þessu þegar líður á Þorrakallinn.

Margt hefur á dagana drifið síðan ég skrifaði síðast, eins og ein Reykjavíkurferð á fund í Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytinu og margt fleira.
Í ráðuneytinu vorum við í Þróunarsjóðsnefndinni að hittast og ræða málin.
Í gær var svo fundur í Háskólaráði Hólaskóla fróðlegur og góður fundur.

Þorvaldur á Skeljabrekku kom og tók DNA úr folöldunum svo að nú er það frá og vonandi allt rétt feðrað og mæðrað.

Það var gaman í hesthúsinu í dag og ekki skemmdi það fyrir að hafa vor í lofti þegar út var komið. Tryppin kunnu vel að meta það og reiðfærið mun mýkra en undanfarið.
Mummi kom heim frá Hólum í kvöld svo að nú verður gramsað í námsefninu og reynt að læra svolítið. Nýjasta og skemmtilegasta efnið er boltaæfingar af ýmsum toga, eins gott að engum datt myndavél í hug á meðan ég var að æfa mig.
Á morgun eru það svo folaldaklippingar og prufureiðtúrar.
Fyrirmyndarhestur dagsins var klárlega Riddari frá Lækjarbotnum sem að sýndi sínar allra bestu hliðar í dag.