11.04.2011 22:54

Já sæll..............herra Kári

Það gustaði heldur betur um okkur hér í Hlíðinni eins og marga aðra í gær.
Þetta byrjaði nú bara með saklausum strekkingi sem að ekki var tekið meira mark á en svo að hesteigendur bæði komu með hross og sóttu hross til okkar.
En þegar líða tók á daginn bætti heldur í og þegar við vorum á leið heim frá kvöldgegningum var komið óveður.
Stuttu síðar kom alvöru hvellurinn og plötur fóru að fjúka af fjárhúsunum og losna af hlöðunni.
Það er alltaf jafn óhugnarlegt að sjá járnplötur rifna af og fjúka um eins og pappírsblöð.
Þakið á fjárhúsunum skemmdist töluvert og um tíma gat Pálina forustuær og hennar sambýlingar horft til himins í gengum gatið á þakinu. Feðgarnir náðu svo þegar örlítið lægði vind að negla niður timbur og plötur á þakið þannig að ekki skemmdist meira.
Í morgun þegar birti komu svo ýmsar smá skemmdir í ljós hér og þar.
Þrátt fyrir þetta varð endirinn nokkuð góður enginn slasaðist og skemmdirnar óverulegar í samanburði við t.d tjónið hjá Baldri og fjölskyldu í Múlakoti, en þar hreinlega hurfu fjárhúsin og hlaðan.
Nú hefur vindinn lægt og vonandi eigum við ekki von á svona heimsókn frá Kára á næstunni.