27.09.2011 21:29

Lofandi Logi og ýmislegt annað......



Þetta er Logi frá Ármóti tveggja vetra stóðhestur undan Glotta frá Sveinatungu og Virðingu frá Hala.
Ég sá hann í fyrra vor þegar ég kom með hesta í girðingu á Kistufelli og varð stórhrifin af hreyfingunum. Ganglagið, mýktin og fasið gerði það að verkum að ég hugsaði strax ,,þennan verð ég að nota,, ekki skemmir fyrir hvað hann er yfirvegaður og skemmtilegur karater.
Þegar ég fór að spyrjast fyrir um hestinn kom í ljós að ættin sem að honum stendur er ekkert slor.
Faðirinn Glotti hefur hlotið 8.64 í aðaleinkun þar af 8.97 fyrir hæfileika hreint ekki slæmt.
Móðirin Virðing hefur hlotið 8.35 í aðaleinkun þar af 8.40 fyrir hæfileika.
Hryssan sem að fór undir Loga og kom heim í dag með 45 daga gömlu fyli er hún Dimma.
Nú er bara að bíða og sjá hvað bætist í hópinn næsta vor.

Í gær komu tvær hryssur heim af suðurlandinu sem að hafa verið hjá stóðhestum. Það voru þær systur Gefn og Tign Fáfnisdætur frá Fagranesi. Gefn var hjá Leikni frá Vakursstöðum en Tign hjá Ugga frá Bergi, báðar hryssurnar eru fyllausar. Gefn var sleppt uppí fjall og mun bíða þar eftir nýju stefnumóti við Leiknir næsta vor. Aldeilis frábær þjónustan hjá Halldóru og fjölskyldu á Vakurstöðum.
Húsfreyjan er hinsvegar í miklum vangavelltum um það hvort að Tignin eigi ekki bara að ,heilsa,, uppá einhvern kappann hér heima. Hún yngist nú ekki blessunin.............frekar en sumir aðrir.



Ég rakst á þetta draumatæki í Þykkvabænum, mundi gefa mikið til að fá það lánað svona hluta úr degi. Við eigum sem sagt eftir að taka upp slatta af kartöflum og í trúnaði sagt er það ekki draumastarfið. En kannske er bara betra að láta vaða með forkinn að vopni og vita hvort þetta tekur ekki fljótt af heldur en væla í ykkur.

Svo að því sé haldið til haga þá fengum við 33 kindur úr Bakkamúlanum en engin var það Evran. Það ætlar ekki að ganga snuðrulaust að ,, innleiða,, þessa Evru frekar en hina.......
Síðar í vikunni verður svo smalað á öðrum slóðum og kannske heimtist eitthvað þar ?