17.03.2012 22:17

Marsinn hennar Lömbubömbu



Friður og ró í fjallinu...........Stekkjaborg í andlegri íhugun og vissi ekki að ,,pressan,, var að smella mynd af henni.

Talandi um frið og ró............. það hefur væntanlega verið friður og ró hjá fjárhópnum sem að fannst útigenginn fyrir nokkrum dögum. Hópurinn fannst í landi Miklaholtssels og leit alveg ótrúlega vel út miðað við það hvað veðrið hefur verið leiðinlegt í vetur.
Það er spurning hvort að hópurinn hefur eitthvað notið góðs af skógræktinni hans Guttorms bónda í Seli ? Vonandi ekki gert neinn ursla eða skandal þar.
En friðurinn var úti hjá kindunum þegar Svanur í Dalsmynni mætti til þeirra með fjárhundana sína og náði að handsama þær, enda við ofurefli að etja á því sviði.
Ég var himinlifandi að heimta kindina Lömbubömbu og son hennar sem að sjálfsögðu hefur hlotið nafnið Svanur Gutti. Hinar kindurnar voru frá Ystu-Görðum og Mýrdal, nú verður tíminn að leiða það í ljós hvort að einhverjar kynbætur hafa átt sér stað í úti vistinni góðu.



Eins og sjá má þá líta þau mæðginin Lambabamba og Svanur Gutti vel út svona miðað við að vera fyrst núna að koma inn. Mars er greinilega uppáhalds mánuður hjá Lömbubömbu því hún er fædd í mars og heimtist svo með stæl í mars.



Dekrið og uppáhaldið byrjaði snemma og á þessum aldri var hún nefnd þessu ágæta nafni.
Nafnið kom eftir mikið krakkaknús og tæpitungutal enda festist það rækilega á gripinn.
Þarna er Astrid að leggja henni lífsreglurnar en hefur trúlega gleymt að segja henni að strjúka ekki í aðrar sveitir eða taka sér bólfestu í annara manna skógrækt.



Þarna er hún sakleysið uppmálað á leiðinni út í lífið með mömmu sinni og bróðir.
Flökkukindur eru ekki alltaf vinsælar og stundum eru þær teknar úr umferð fyrr en aðrar kindur. En þar sem Lambabamba hefur frá upphafi átt dyggan og góðan aðdáendahóp er næsta víst að hún verður ekki tekin strax úr umferð. Enda algjör óþarfi þar sem hún hefur ,,örugglega,, lært að hlýða bæði Svani og hundunum...................fullkomlega.
Takk fyrir smölunina Svanur, nú er kella kát.