05.09.2013 22:20

Þessi fallegi dagur með réttarskipulagi og vísum.




Stundum er gaman að koma ,,bakdyramegin,,

Já það var fallegur dagur í dag og ekki rigning sem er nú fréttnæmt þessar vikurnar.
Kominn september og heyskapur enn í gangi og óðum styttist í réttirnar.
Listinn er langur sem átti að tæma í sumar en það er gott að hafa nóg fyrir stafni ekki leiðist manni á meðan.

Frétt dagsins var reyndar ekki úr Hlíðinni heldur var hún af fótabúnaði Sigmundar Davíðs forsætisráðherra sem var í úttlandinu að hitta ,,stóra,, kalla.
 Hingað til hefur áhugi minn einungis náð til fótabúnaðar íslenska gæðingsins en ég verð að játa að ég staldraði við þegar ég sá myndina góðu sem allt fárið var útaf í fjölmiðlum í dag.
Fyrsta sem mér datt í hug var að ráðherrann hefði verið að skokka orðið of seinn og stokkið í skónna með fyrrgreindum afleiðingum. 
Frekar fannst mér samt sú skýring hæpin en hvað veit ég kelling uppí fjöllum ?

Góður vísnavinur minn af fésbókinni var nú ekki lengi að finna tengingu hingað vestur þegar í ljós kom hvað olli ,,stílbrotinu,,

Sýkinginu fékk hann til fóta
svona ferlega "nasty" og ljóta.
En Obama sagði
æstur í bragði:
Í Hlíð svona hesta þeir skjóta.

Takk fyrir þessa Valur Óskarsson.

Þar sem að eitt af næstu verkefnum er að skipuleggja leitir og réttir orti Valur eina vísu til að hjálpa mér að sannfæra smalana mína og helst einhverja fleiri um að koma.

Um fjöllin er frábært að tifa
mig fýsir því ykkur að skrifa.
Ef þú smalar hér
í Hlíð lærist þér
að þetta er listin að lifa.

Og hér koma drög að skipulaginu hjá okkur varðandi réttirnar.

Þann 18 september verður smalað inní Hlíð og útá Hlíð.
Þann 19 september verður smalað Múlinn og Oddastaðir.
Þann 20 september verður aðalsmalamennskan Hafurstaða og Hlíðarland.
Þann 21 september verður Vörðufellsrétt.
Þann 22 september verður réttað hér heima, dregið í sundur, vigtað og ragað.
Þann 24 september verður Mýrdalsrétt og sláturlömb sótt til okkar.

Já bara stuð og gaman hér í Hlíðinni.