17.09.2013 22:38

Og nú er að koma að því..........



Þessa mynd tók hún Charlotte vinkona mín þegar hún kom hingað í heimsókn um daginn.
Charlotte var hjá okkur um nokkurt skeið fyrir ,,örfáum,, árum, þá var hún með okkur að ríða út og smala. Núna komu þau hjónin bara sem ferðamenn að skoða Ísland og líta við hjá vinum og kuningjum.



Sparisjóður var bara kátur með heimsóknina þó svo að hann væri tekin frá dömunum sínum.
Það fór vel á með þeim Charlotte og honum enda er Sparisjóður með eindæmum gestrisinn og kvennhollur.
Takk fyrir komuna Charlotte og fylgdarlið.

Enn gerast undur og stórmerki.........það var klárað að rúlla hér heima í gær, örfáum dögum fyrir réttir. Þó svo að þurkurinn væri svikull var látið til skarar skríða, slegið, rakað og rúllað allt í kappi við rokið og rigninguna. Gæðin á þessu heyi voru svo sem ekki sérstök en eins og stundum er sagt ,,það er betra að hafa það en vanta,, Nú eru allar heyskaparvangavelltur lagðar til hliðar í það minnsta fram yfir réttir.
Gaman væri að ná meiri há og hestaheyi en núna er það seinnitíma verkefni.

Fyrsti í smölun er á morgun svo það er eins gott að hafa hugann við það verkefni.
Reyndar er farið stutt á morgun en ýmislegt annað þarf að hafa af.
Listinn góði sem gerður var hér fyrir stuttu er langt kominn enda hafa síðustu dagar verið langir og strangir en skemmtilegir.

Búið að yfirfara girðingar, laga réttina, bera ofaní, laga til í fjáhúsunum, járna, baka og ýmislegt fleira. Já vel á minnst húsfreyjan er m.a búin að baka títtnefndar Sírópslengjur.
Það var nefninlega þannig að í fyrra hafði húsfreyjan það ekki af og hefur í heilt ár orðið fyrir hálfgerðu ,,aðkasti,, vegna þess. Sér því fram á betra atlæti við Sírópslegjuaðdáendur.

Við tókum smá forskot á kindafjörið um síðustu helgi þegar við sóttum nokkrar kindur innað Emmubergi. Næsta vikan er svo alsett fjárstússi með alskonar ívafi.
Ég vil benda á nánara skipulag fyrir réttirnar hér fyrir meðan á blogginu þann 5 september.

Allir þeir sem áhuga hafa á að koma og smala með okkur eða atast í fjárragi eru hjartanlega velkomnir. Gangandi, ríðandi nú eða bara trallandi.

Hringið bara á undan ykkur svo að móttökurnar verði eins góðar og tilefni er til.

Verið hjartanlega velkomin.