31.01.2014 11:14

FT í Fákaseli



Það var gaman í gær þegar góður hópur félaga í Félagi tamningamanna heimsótti Fákasel nýja hestamiðstöð á Ingólfshvoli. Guðmar Þór og hans fólk tók vel á móti okkur FT félögum.
Þar sem ég var ekki með myndavélina með smellti ég inn mynd sem tekin var á 40 ára afmælishátíð FT.


Boðið var uppá hestasýningu sem var afar skemmtileg og áhrifarík þar sem risaskjár leikur stórt hlutverk. Á skjánum fær maður íslenska náttúru beint í æð ef svo má að orði komast.
Þegar gengið var í salinn hljómaði notalegt sjávarhljóð rétt eins og maður væri komin á Löngufjörur á góðum degi. Á meðan sýningin fór fram birtust svo fleiri myndir með nýjum upplifunum m.a eldgos, vont veður, sumarblíða og hvað eina sem íslensk náttúra hefur uppá að bjóða.
 Djákninn á Myrká var flottur og ég er ekki frá því að ég hafi séð honum bregða fyrir hér í Hlíðinni stöku sinnum. Já já það er stundum reimt hér í dalnum.
Opnunaratriðið var frábært en þá kemur fallegt stóð sem skokkar um salinn með skemmtilega smala og frábæran hund sem svo sannarlega kann sitt fag.
Sýningin er stutt, fjölbreytt og að lang flestu leiti góð en á örugglega eftir að slípast enn betur.

Eitt er það þó sem mér finnst ekki gott en það er þetta hjálmleysi í flestum atriðunum, algjör óþarfi. Í samstarfi við svo góðan og reyndan búningahönnuð væri leikur einn að útfæra þetta á farsælan og flottan máta.
Þetta er mín skoðun og flokkast kannske undir tuð en þeir sem hafa séð og reynt hvað hjálmurinn er mikilvægur vita sitt. Mér finnst lífið yndislegt og nota hjálm.

Það er gaman að geta bent ferðamönnum á að skoða þessa sýningu sem verður í gangi fimm sinnum í viku allt árið.
Þið sem ekki hafið enn séð sýninguna drífið ykkur það er alveg þess virði.

Það er alltaf gaman að gera eitthvað skemmtilegt með FT og það var svo sannarlega gaman í gær. Takk fyrir góða kvöldstund kæru félagar starfið hjá nýrri stjórn fer vel af stað.