08.05.2014 13:31

Stuðið í Hlíðinni.

 

Það er fátt dásamlegra en að sjá sólina koma upp og það í blíðu og hita. Ekki er svo mikið síðra að sjá hana setjast en það er kannske orðið full mikið af því góða ef að maður sér hana aftur koma upp. Sko á sama ,,deginum,, En stuttar ,,kríur,, að hætti sauðfjárbóndans bæta allt upp og virka jafnvel sem dýrasta fegrunaraðgerð. Þennan sólríka morgun áttum við Salómon svarti góðar stundir við leik og störf í fjárhúsunum. Læt liggja á milli hluta hvort var að leika og hver var að starfa, er ekki stundum sagt að vinnan eigi að vera leikur ?

 

 

Kátir fuglar syntu á vatninu og við fegnum að heyra mörg tóndæmi frá fuglakórnum góða sem æfir nú af miklum mó. Já svona morgnar kosta eða eru allavega gulli dýrmætari.

 

 

Eftir allar annirnar er góður morgunverður nauðsynlegur, það var bara annað okkar sem var myndatöku fært. Hinn aðilinn frekar úfinn og ljótur.

 

 

Þessar stelpur létu sig ekki muna um að tríttla í fjárhúsin og taka stöðuna. Bara hressar og kátar unglingsstúlkur Lóa 84 ára og Maddý 79. Já já aldur er að mestu hugarfar.

 

 

Það er dýrmætt að hafa góðan mannskap þegar hátt í 700 eru á fæðingadeildinni. Marie og Mummi að redda málunum í gemlingakrónni.

 

Þarna er hún Marie með mógolsótta gimbur undan Stera og Golsusyninum Loðmundi.

 

 

Golsuflekkótt krútt að pósa með Marie.

 

 

Þarna eru afkvæmi Grámanns, ég var sérlega ánægð að fá þarna móbotnóttan hrút og gráa gimbur. Þessi hafa fengið viðeigandi merki í númerabókinn.

 

 

Grasið sprettur og því ekki seinna vænna en að klára slóðadráttinn. Í gær fóru fullorðnu hrútarnir í sumarfrí, þeir fóru með ,,nesti og nýja skó,, suður á Hafurstaðatún. Óðum styttist í að lambfé fari útá tún og geldfé hefur gist sína síðustu nótt inni þennan veturinn. Sauðburður byrjaði af fullum krafti mun fyrr en ég átti von á eða kannske var ég bara búin að vonast eftir að þær yrðu rólegri. Allar vaktir sem voru skiplagðar af mikilli nákvæmni fóru úr böndunum og svefninn er núna bara munaður.

Það hefur sko verið nóg að gera fyrir alla alltaf. En það er jákvætt að þetta klárast þá bara fyrr og ekki getum við kvartað yfir gróðurleysi það sem af er.

Sennilega hafa aldrei verið bornar jafn margar kindur í Hlíðinni 8 maí.