19.06.2014 21:31

Gleðin og allt hitt líka.

 

Þessa myndarlegu hryssu fékk ég undan henni Karúnu minni, faðirinn er Ölnir frá Akranesi. Sú litla hefur enn ekki fengið nafn enda skal vanda valið þegar uppáhaldið er annarsvegar. Hef fengið nokkrar uppástungur en engin þeirra hefur hitt í mark. Verð að drífa mig að nefna hana áður en hún fer af bæ með mömmu sinni til að hitta einhvern spari stóðhest.

 

 

Hér á myndinni er hann Hallkell frá Hallkelsstaðahlíð, faðir er Hersir frá Lambanesi og móðir Kolskör frá Hallkelsstaðahlíð. Þessi garpur er sprækur og búinn að vera á harða hlaupum síðan hann fæddist. Nú er hann farinn með móður sinni í Steinsholt en þar er Kolskör á stefnumóti við hann Skýrr frá Skálakoti.

Vonandi gengur það samkvæmt áætlun og ég fæ hryssu næsta vor ;)

 

 

Þarna er hún Kveikja litla dóttir Þríhellu frá Hallkelsstaðahlíð og Stimpils frá Vatni nýfædd. Myndar folald sem komin er í Skipanes með móður sinni til að hitta Vita frá Kagaðarhóli.

 

 

Það var svo í morgun að hún Skúta kastaði jörpum hesti sem hlotið hefur nafnið Kapteinn frá Hallkelsstaðahlíð. Faðir hans er Ölnir frá Akranesi. Kapteinn er stór og myndarlegur hestur sem skartar hring í öðru auga, svona uppá punt. Já það er hreint ótrúlegt að hún Skúta sé búin að eignast tvö afkvæmi síðan hún veiktist. Skúta er undir daglegu eftirliti 365 daga á ári og er fóðruð á sérvöldu ,,góssi,, meiri hluta ársins. Hér á bæ telur það enginn eftir þó að smá snúningar séu í kringum þessa drottningu.

 

 

Hér sjáið þið augað fína sem gerir heilmikið fyrir hann Kapteinn litla.

 

 

Já það er eins gott að vera í sambandi þarna eru Mummi og Skúta sennilega að setja fréttirnar á fésbókina. Skúta eignaðist marga góða vini sem fylgdust með henni þegar hún var sem veikust, svo það er eins gott að ,,ritarinn,, hennar á fésinu standi sig í fréttafluttningnum. Mér sýnist samt á svipnum á Skútu að hún sé ekkert endilega að huga að fésvinum og velferð þeirra. Sonur hennar og grasið eru mun meira freistandi þennan daginn.

 

 

Þessi bíður bara eftir því að fá Ölnirsafkvæmi en Rák er ekki köstuð enn svo að Astrid verður bara að bíða. Snotra leggur henni lið við biðina og andlegan stuðning.

 

 

Það eru oft góðar stundir sem verða til í hestagirðingunum. Þarna eru spekingar að spjalla og hafa gaman saman, takið eftir brosinu sérstaklega á Snotru.

 

 

Þessar dömur stóðu sig bara nokkuð vel á Miðfossum um daginn. Snekkja fór í 1 verðlaun með 8.25 fyrir hæfileika og aðaleinkun uppá 8.13 og Gangskör fór í 8.08 fyrir hæfileika og aðaleinkun uppá 7.91. Nú er það bara í höndum eiganda Snekkju hvort að hún fer í folaldseignir eða aftur í dóm. Gangskör, eigandinn og þjálfarinn stefna óthrauð að því að hún nái fullri heilsu og smelli sér aftur í dóm. Hún á klárlega inni en alvarleg sýking og veikinda vesen hafa tafið hana á leiðinni til að vera ein af spari hryssum húsfreyjunnar.

 

 

Þarna er mynd af Gangskör og Jakobi í léttri töltsveiflu á Miðfossum. Mummi hefur þjálfað Snekkju og Gangskör en á Miðfossum sýndi lærimeistari hans Jakob Sigurðsson hryssurnar með glæsibrag eins og honum er einum lagið. Takk fyrir það Jakob.

 

 

Gangskör mín er stórbrotin persóna og fer ekki alltaf troðnar slóðir en kjarkinn vantar ekki. Hún lét sig ekki muna um að liggja á gluggunum þegar húsfreyjan var í afslöppun á þjóðhátíðardaginn.

Lætur sér ekkert óviðkomandi, já svona er víst eftirlitsiðnaðurinn í dag.

 

 

Gæðum heimsins er misskipt og ekki eru allir jafn heppnir það er víst. Sparisjóðurinn minn er einn af þeim sem alveg þarf að hafa fyrir sínu en geðprýðin og gæfan munu án efa sigra að lokum. Nú stendur þessi elska í stíunni sinni og bíður þessa að mega fara út að sinna skyldustörfum. Þessi gleðigjafi húsfreyjunnar slasaðist um miðjan maí og á enn í þeim meiðslum. Hann og húsfreyjan ætluðu svo sannalega ekki að vera í þessu stússi um há bjargræðistímann.

En okkar tími mun koma sannið þið til.

Það er huggun harmi gegn að afkvæmin hans sem verið er að temja gleðja um þessar mundir meira en flest annað. Og hryssurnar sem bíða eftir honum...... já þær eru tilhlökkunarefni.... fyrir Sjóðinn.

 

Speki dagsins:

Að gleðjast með góðum er gott en væla með vondum vont.