22.06.2017 23:57

Hún er vandséð þessi................

 

Þann 19 júní á sjálfan kvennadaginn kastaði síðasta hryssan þetta árið hér í Hlíðinni.

Það var mikil gleði þegar það kom í ljós að fædd var brúnskjótt hryssa undan Sjaldséð og Káti.

Ekki amalega að fá svona grip verandi félagi í Skjónufélaginu mikla þar sem baráttan er hörð.

Já þessi kemur sterk inn og verður vonandi sér og sínum til sóma í framtíðinni.

 

 

Eins og alltaf þegar folöld fæðast hér í Hlíðinni byrja vangaveltur um hvað gripurinn eigi nú að heita.

Eftir þónokkra umhugsun hefur þessi flotta hryssa hlotið nafnið Vandséð frá Hallkelsstaðahlíð.

 

 

Þá eru ,,séðarnar,, orðnar nokkuð margar á bænum.

Auðséð, Sjaldséð, Fáséð, Útséð, Burtséð og Vandséð svo að eitthvað sé nefnt.

 

 

Ég er sérstaklega hrifin af stertinum sem er tvílitur og flottur.

 

 

Svo maður tali nú ekki um hökuskeggið, væri fullgilt á hvaða jólasvein sem er.

 

Við erum langt komin með að nefna folöldin þetta árið bara eitt eftir.

Vandséð, faðir Kátur frá Hallkelsstaðahlíð og móðir Sjaldséð frá Magnússkógum.

Máni, faðir Kátur frá Hallkelsstaðahlíð og móðir Snekkja frá Hallkelsstaðahlíð.

Krossbrá, faðir Kafteinn frá Hallkelsstaðahlíð og móðir Karún frá Hallkelsstaðahlíð.

Staka, faðir Bragur frá Ytra hóli og móðir Rák frá Hallkelsstaðahlíð.

Kolrassa, faðir Spuni frá Vestukoti og móðir Kolskör frá Hallkelsstaðahlíð.

Nafnið á folanum undan Venus frá Magnússkógum og Arion frá Eystra Fróðholti er enn í ,,hrossanafnanefnd,, Hlíðarinnar.