04.06.2010 13:54

Í útilegu...........bara uppá grín.



Bara að rifja upp fyrir ykkur að við erum með tjaldstæði hér í Hlíðinni, lúxusinn felst í vatnskósetti, veiði og svo að sjalfsögðu eru friðurinn, róin og blíðan á staðnum.



Og veiðin..................bleikja og urriði.




Og stemmingin............




Kannske bara sjáumst við ???????

31.05.2010 23:10

Landsmóti frestað og Rák hittir Þristinn.



Jæja þá er loks komin ákvörðun um að fresta Landsmóti hestamanna um eitt ár erfið en skynsamleg ákvörðun eins og staðan er um þessar mundir.
Þetta eru erfiðir tímar fyrir alla hestamenn, tjónið mikið og engan veginn allt komið í ljós.
Ég sat formanna fund hjá LH síðast liðinn föstudag þar sem þessi mál voru rædd og síðan fund hjá Sjávarútvegs og Landbúnaðarráðuneytinu í dag þar sem þessi ákvörðun var endalega tekin. Á fundinn mætti samráðshópur hagsmunaaðila um LM 2010 sem áður fundaði þann 21 maí s.l hópurinn var sammála um þessa ákvörðun. Sameiginlega yfirlýsingu getið þið séð á hestamiðlunum einnig bendi ég á yfirlýsingu frá Félagi tamningamanna sem ég birti hér á blogginu fyrir nokkru.

Nú er bara að snúa bökum saman fara varlega og reyna með því að lágmarka tjónið eins og unnt er. Í erfiðleikunum felast oft tækifæri sem erfitt er að koma auga á meðan mesti skellurinn gengur yfir. Vonandi gengur þetta fljótt yfir og hver veit nema í þessum erfiðleikum felist tækifæri handan við hornið sem að við höfum ekki ennþá komið auga á.

Nú stefnum við á Vindheimamela næsta sumar og eigum þar saman gott landsmót.

Þá er komið að daglegu dundi hér í Hlíðinni.

Rák og litla Brák dóttir hennar fóru suður á land í gær, tilgangur ferðarinnar var að hitta hann Þrist frá Feti. En hún Andrá mín sem að ég missti um daginn var einmitt með fyli undan honum. Svo að þetta er tilraun númer tvö við að fá gæðingsefni undan Þristi og núna heppnast það vonandi vel.

Sauðburðurinn er farinn að síga vel á seinni hlutann og bara 16 kindur eftir að bera. Hér hefur verið markað og sleppt af miklum móð að undanförnu.
Langt er komið að bera á en fjárfjöldinn á hluta túnanna tefur svolítið fyrir, klárast vonandi í vikunni.


28.05.2010 01:51

Folöld.........



Jæja þá er það smá sýnirhorn af fæddum folöldum hér í Hlíðinni.
Þetta er hryssan Auðséð frá Hallkelsstaðahlíð faðir er Sporður frá Bergi og móðir Karún frá Hallkelsstaðahlíð. Fyrir á ég tvær skjóttar hryssur sem að heita Fáséð og Sjaldséð svo að þetta nafn var nokkuð sjálfsagt í Skjónusafnið. Auðséð fæddist 22 maí.



Hér er Hellir frá Hallkelsstaðahlíð hann er undan Aldri frá Brautarholti og Þríhellu frá Hallkelsstaðahlíð. Hann var svolítið feiminn og frekar lítið fyrir myndatökur.



Þá er hér næstur Kalsi frá Hallkelsstaðahlíð faðir er Aldur frá Brautarholti og móðir Kolskör frá Hallkelsstaðahlíð. Hann var nokkuð efnileg fyrirsæta allavega miðað við aldur, menntun og fyrri störf..............hann fæddist í morgun.



Þetta er Brák frá Hallkelsstaðahlíð faðir er Piltur frá Sperðli og móðir Rák frá Hallkelsstaðahlíð. Brák og Hellir fæddust bæði þann 25 maí.



Og þá er það ,,folaldakóngurinn,, sem enn hefur ekki fengið nafn, hann er undan Ramma frá Búlandi og Snör frá Hallkelsstðahlíð. Á næstu dögum verður unnið markvisst í nafnavali.

Þessar myndir voru teknar svona á hlaupum en vonandi verð ég dugleg að mynda þessa gripi í sumar.

Hér hefur verið líflegt í sauðburði og ekki margar kindur eftir að bera. Ört fækkar í fjáhúsunum og þann 24 maí fóru fyrstu kindurnar út úr túninu til fjalla.
Við höfum verið heppin og fengið mikla og góða aðstoð við sauðburðinn bæði innan og utandyra, daga og nætur. Sendum okkar bestu þakkir og kveðjur til allra þeirra sem að hafa lagt okkur lið í fjárhúsunum, í eldhúsinu og bara hvar sem er.
Án ykkar værum við ennþá hrukkóttari, baugóttari, tættari............og bara enn ljótari:)
Kærar þakkir fyrir alla hjálpina.

Það eru mörg járn í eldinum þessa dagana..............
Á morgun fer ég á fund með formönnum hestamannafélaganna þar á að ræða þá stöðu sem upp er komin vegna hestapestar og varða landsmót.

27.05.2010 15:25

Yfirlýsing frá FT


 



Félag tamningamanna lýsir yfir áhyggjum vegna þeirrar stöðu sem er upp er komin varðandi smitandi kvefpest í hrossum. Þar sem ekki hefur tekist að greina veiruna eru afleiðingar pestarinnar enn óljósar og hún virðist þrálát og erfið viðureignar. Því vill Félag tamningamanna hvetja hesteigendur til að huga fyrst og fremst að velferð hrossa sinna og hafa hag hestsins ávallt að leiðarljósi.
FT hvetur félagsmenn sína og alla hestamenn til að fara varlega hvað þjálfun hrossa varðar og flýta sér hægt enda dæmi um hörmulegar afleiðingar ef of snemma er farið af stað. Samkvæmt siðareglum FEI, sem er alþjóðlegt stjórnvald hestaíþrótta og Landssamband hestamannafélaga er aðili að, skal velferð hestsins ætíð vera í fyrirrúmi. Í siðareglum FEI/LH segir m.a. að "á öllum stigum undirbúnings og þjálfunar keppnishrossa skal velferð hrossins hafa forgang fram yfir allt annað" og FEI geri þær kröfur að " allir þeir sem taka þátt í alþjóðlegum hestaíþróttum fari að siðareglum FEI og viðurkenni og virði öllum stundum að velferð hestsins skuli alltaf hafa forgang fram yfir keppnis-eða auglýsingakröfur."  Um aðbúnað og þjálfun segir svo "Hesthús, fóðrun og þjálfun skulu uppfylla kröfur um góða meðferð hrossa og mega ekki stefna velferð þeirra í tvísýnu. Allt sem orsakað getur andlegar eða líkamlegar þjáningar, í keppni eða utan hennar verður ekki liðið" og "Hross skulu ekki vera þjálfuð á þann hátt að það stefni líkamlegri eða andlegri getu og/eða þroska í voða." Þessar reglur er rétt að hafa í huga í ljósi núverandi aðstæðna og muna alltaf að hafa hagsmuni hestsins í fyrsta sæti.

FT hefur miklar áhyggjur af afkomu tamningamanna um þessar mundir og hvetur fólk til að huga vel að hrossum svo lágmarka megi skaðann og hægt verði að vinna sig út úr þessum vanda sem fyrst.

Stjórn FT hvetur sína félagsmenn til að hafa samband og kynna sín sjónarmið þannig að stjórnina geti sem best beitt sér í þeirra þágu.

Einnig minnir Félag tamningamanna á reglur um smitvarnir, en þær má m.a. skoða á heimasíðu Matvælastofnunar, www.mast.is. Gríðarlega mikilvægt er að hestamenn sem ferðast á milli landa til vinnu eða samskipta við hross fylgi reglum um smitvarnir ítarlega. Ekki síður að hestamenn og ferðaþjónustuaðilar hér á landi fræði viðskiptavini sína um þessar reglur. Heilbrigði íslenska hrossastofnsins er í húfi.

 

Stjórn Félags tamningamanna.

23.05.2010 02:02

Karún mín köstuð.



Nú er kella kát...............Karún mín eignaðist skjótta hryssu í kvöld undan Sporði frá Bergi.
Þarna er sú litla að æfa jafnvægið í rökkrinu aðeins hálftíma gömul.
Já það má segja að það skiptist á skin og skúrir í hestamennskunni fyrir stuttu síðan missti ég Andrá sem var undan Karúnu og Hljómi frá Brún mikla uppáhaldshryssu. Hún fannst dauð út í haga alveg komin að köstun með fyli undan Þristi frá Feti.
Nú er bara að krossa fingur og vona að allt gangi vel með þessa flottu hryssu.
Fyrir á Karún Andrá sem ég missti, Kolskör, Hlátur, Glundroða, Sparisjóð, Jarp og Kát.
Næst er að finna nafn annars hét minn fyrsti hestur Skjóna svo það er spurning hvað ég geri?

20.05.2010 11:31

Frambjóðendur í Lindartungu.

Eins og þið hafið tekið eftir þá hefur ekki verið mikill tími aflögu til að setjast við skriftir að undanförnu. En nú kemur smá skammtur............................

Á mánudagskvöldið brunaði ég á fund í Lindartungu, þar voru frambjóðendur allra flokka að kynna sín baráttumál. Fundurinn var frekar fámennur enda strembið að fá frí hjá rollunum á þessum tíma. Svo getur nú líka hugsast að áhugi manna hér í sveit á því að kjósa sé ekki eins mikill og við ætti að búast.
Frambjóðendur gerðu sitt besta við að koma sínum málum á framfæri en það ,,besta,, var nú annsi misjafnt. Ég fékk svolítið á tilfinninguna að sumir þyrftu á svo sem einum landafræði tíma að halda og ekki hefði skemmt fyrir að fara aðeins yfir um hvað landbúnaður og búseta í sveit snýst um. Það skiptir máli að sýna lit og reyna að skilja blessaðan kjósandann eftir með smá von um skilning og áhuga.
Eitt verð ég þó að játa að djöf..... fór það í taugarnar á mér að ennþá sé verið að hamra á röngum tölum og samanburði vegna reksturs Laugargerðisskóla. Hvers eigum við hér fyrir vestan að gjalda og hvernig í lífinu stendur á að nefndarmenn sem að unnu að þessum málum og vita mæta vel að þessi samanburður var ekki réttur þegja?
Ég trúi og vona að úr því sem komið er komi Eyja og Miklaholtshreppur til með að reka skólann með glæsibrag. Því tel ég afar mikilvægt fyrir samfélagið hér að við stöndum með þeim og tryggjum að skólahald verði áfram í Laugargerði.
Sameiningamál voru líka rædd á fundinum en til að drepa ykkur ekki úr leiðindum ætla ég ekki að fara nánar út í þá sálma. Ætla þó að segja að ég var alltaf á móti sameiningu þrátt fyrir að hafa búið um langt skeið í Borgarnesi og vera afar vel til Borgnesinga og Borgfirðinga.
Hljóðið var mjög þungt í fundarmönnum og kom meira að segja fram að sumir vildu stíga skrefið til baka. Litlar sem engar efndir og stórauknar álögur.
Þar sem ekki er aftur snúið þá tel ég mikilvægt að reyna með öllum ráðum að sporna við því að enn frekari gjá myndist á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Við erum jú öll ágæt:)
Ég vil þakka frambjóðendum fyrir að koma og hitta okkur í Lindartungu það er erfitt að takast á við sveitastjórnarmál um þessar mundir og full ástæða til að taka ofan fyrir þeim sem að gefa tíma og mannorð í þágu okkar allra.
Að lokum.... ég var ánægð með mitt fólk og þá sérstaklega Sveinbjörn sem að enn hefur þennan ákveðna vilja til að leggja sig fram og gera vel, þó með ákveðnum léttleika í bland.
Hljómar svolítið eins og umsögn um gæðing...........................................

15.05.2010 21:46

Þessi græni dagur....................

Viðburðaríkur dagur langt kominn þó engan veginn búinn...... kindurnar sjá til þess.
Það var rok í Hlíðinni í dag og því ekkert markað út vont fyrir litlu greyin að lenda í roki fyrst á eftir. En það var afar líflegt í fjárhúsunum og kindurnar báru hver af annari komust meira að segja uppí 30 fyrir hádegi. Eins gott að hafa góða aðstoð sem er liðtæk í öllu þessu stússi.

Um hádegið kom hér fríður flokkur frambjóðenda vinstri grænna og þar sem að ég treysti mér ekki til að gefa þeim atkvæði mitt ákvað ég að gefa þeim þess í stað að borða. Á borðum var grjónagrautur og slátur sem þau kunnu bara vel að meta. Allavega held ég að þetta hafi farið mun betur í þau en atkvæðið mitt. Já allt er vænt sem vel er grænt.....................
Takk fyrir komuna alltaf gaman að fá góða gesti og ekki verra ef að það eru frambjóðendur á ferð.
Nú bíð ég bara eftir fleiri frambjóðendum...................

Fyrsta folaldið leit dagsins ljós í gær þegar hún Snör kastaði bleikálóttum hesti undan Ramma frá Búlandi. Þetta folald er afrakstur happadrættisvinnings sem að ég vann í fyrra á miða sem ég verslaði af Húnvetningum. Bara spennandi og nú fer ég að huga að góðu nafni á gripinn. Nokkrar hryssur eru að komast að köstun svo að nú er um að gera að fylgjast með.

Myndatökur eru á dagskrá en hafa bara ekki komist í verk ennþá.


14.05.2010 00:55

Þessi dauði tími............

Það var margt sem að húsfreyjan ætlaði að gera í dauða tímanum í dag en dauði tíminn var bara týndur. Ég var að koma heim úr fjárhúsunum eftir ansi líflegan dag lambanúmerin eru komin í rúmlega 300 stykki og virðist eins og staðan er núna vera verkefnið endalausa. En frábært að fá sem allra flest lömb og enn sem komið er hefur gengið vel enda úrvala lið í öllum hornum. Í dag fór þónokkur hópur af lambfé út en ég var með samviskubit á eftir því það kom hellidemba og hitinn fór niður í 3 stig.
En eins og ég hef stundum sagt það sem ekki drepur það herðir.
Ég renndi lauslega yfir árangurinn í sæðingunum hér á bæ og var bara kát þegar ég sá að það hefur haldið 90% við Rafti, nánari útlistun kemur síðar.

Úr hesthúsinu er það að frétta að nefrennslið er enn í gangi og stöku hósti heyrist svo að allir eru í fríi og fá að fara út að viðra sig þegar ekki rignir með kulda eins og í dag.
Folaldshryssurnar eru komnar í gæslu þær sem eru komnar á tíma og nú er bara að bíða og sjá hver verður nú fyrst þetta árið.

Á morgun er nýr dagur sem að öllum líkindum flýgur hratt eins og bræður hans og vinir.
Ég ætla að nota dauða tímann í eitthvað gáfulegt en sennilega þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því....................frekar en í dag.

12.05.2010 23:20

Sauðburðarkveðskapur.



Þarna sjáið þið lambakónginn og drottninguna þau voru að sjálfsögðu fyrstu lömbin til að fara út og það var sem sagt í gær. Í dag byrjaði svo fjörið og ég markaði nokkuð stóran hóp sem nú er kominn út að smakka á græna grasinu.
Sauðburðurinn hefur farið vel af stað (sjö níu þrettán) og allt innan eðlilegra marka ennþá.
Nú er allt komið í fastar skorður og vaktirnar farnar að ganga smurt en rosalega er nú samt skrítið að vera ekkert að ríða út á þessum tíma. Mummi hefur séð um hesthúsið og fylgjist grant með heilsufarinu. Vonum að pestin fari að ganga yfir svo að allt fari að færast í venjulegt horf.  Á samt erfitt með að sjá fyrir mér hvernig landsmót kemur til með að vera en nánar um það síðar.
Eins og áður sagði eru vaktirnar farnar að rúlla og höfum við eins og stundum áður fengið hjálp góðra manna. Smalarnir okkar þeir Hrannar og Pétur hafa vakað síðustu nætur og hafa leyst vökuverkefnið af stakri prýði. Gist í því efra og stundum verið þar í mat líka. Það hefur verið hefð undan farin ár að vaktirnar hafa skipst á kveðskap og er það eins núna.
Í morgun var þessi vísa á töflunni.

Vorið það kemur og veturinn fer
um víðáttur ungviði skokka.
Rollurnar lömbunum ryðja úr sér
og Ragnar og Sveinbjörn þeir kokka.

Fyrir nokkrum dögum átti Pétur afmæli þá kom þessi sending frá ,,vökuvininum,,

Fertug tala á fantinum.
Fellur eystra askan.
Kaldur er á kanntinum.
Hvar er vodkaflaskan?

Já það er spennandi að sjá hvað verður á töflunni í fyrramálið.

10.05.2010 20:32

Mótorhjólapæja af bestu gerð..............



Ha ha þarna náði ég fjórhjólinu..............................



.............ummmmmm hver á ég nú að fara ?????????



ussssssssssss.............er nokkur að fylgjast með mér ?????



Ég er nú samt svolítið syfjuð...................................



Og nú set ég í gang.........................vííííííí.............................



Og bruna í bæinn............................................

09.05.2010 19:23

Hestapest, sauðburður og straumar........



Eins og hjá vel flestum hestamönnum er hestapestin komin til okkar þannig að orð dagsins hafa að undanförnu verið ,,hor og nefrennsli,,
Við hættum að ríða út um leið og við urðum vör við pestina og ætlum að sjá til hvernig þetta þróast allt saman. Eins gott að taka enga óþarfa áhættu og fara varlega með hrossin.

Mummi tók seinna verknámsprófið í síðustu viku og gekk bara vel enda eins gott að klára það af áður en að allir hestarnir yrðu lasnir.

Það er skrítið að vera ekki að ríða út á fullu á þessum tíma, veðrið yndislegt og vorið komið.
Klárlega skemmtilegasti tíminn.

En við höfum svo sem nóg að gera sauðburður að hefjast og endalaus verkefni þar.

Núna eru rúmlega 20 kindur bornar og allt gengið þokkalega nokkur álitleg afkvæmi Rafts, Ats og Grábotna hafa litið dagsins ljós. Nú skilja bara þeir sem eru á kafi í sauðfjárræktinni.



Sindri Kveiksson sem að ég hef sagt ykkur frá bíður þess nú að verða ábyrgur faðir......



..................það gerir líka Mókollur Mókollsson besti vinur Sindra, úti bíður sumarið með löngu og dýrðlegu feðraorlofi alveg fram í desember.

Annars voru allir eldri hrútarnir settir á Hafurstaðatúnið í dag en þessir ungu félagar fá að vera aðeins lengur inni.



Hún Fáséð litla heimalingurinn frá því í fyrra tilheyrir flokknum ,,geldir gemsar,, sem að enn fær að vera inni. Hvort að flokkurinn mun bjóða fram í næstu kostningum er enn á huldu en spekingsleg er hún Fáséð það er ekki spurning.



Það mætti ungur aðstoðarmaður í húsin um helgina hér er hann að gefa gömlu Feru góðgæti.

Já það er í nógu að snúast og vaktirnar að komast í gang nú er bara að vona að veðri haldist gott svo að fljóttlega sé hægt að sleppa út lambfé.
Ég hugsa mikið til bændanna sem eru nú á kafi í sauðburði og öðrum bústörfum með öskuna eins og dökk ský allt í kring, hlýtur að vera skelfilegt. Sendi þeim mína bestu strauma.

Að lokum ég veit ekki hvað ég á að segja um straumana sem að ég sendi ríkisstjórninni sem að nú ræðir breytingar á ráðuneytum m a breytingar á Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytum.........................það er allavega ekki mínir ,,bestu,, straumar þeir fara á öskuslóðir..................................

05.05.2010 23:54

Vorveðrið góða.

Stundum fær maður það sem óskað er, núna er t.d rigningarúðinn, þokan og vorveðrið sem að ég óskaði mér. Já ég vildi fá vætu og sprettutíð svona áður en sauðburðurinn fer á fullt.
Væri nú óskandi að hægt yrði að sleppa lambfénu sem fyrst út á góðan gróður.

Sauðburðurinn fer að hefjast fyrir alvöru nú um helgina enda er allt að verða tilbúið.
Astrid (brjálaði daninn okkar) komin heim úr fríinu og Lalli mættur á svæðið.
Það voru 47 kindur sæddar þær eiga að bera fyrst og nú er bara að krossa fingur og vona að árangurinn verði góður.

Í dag var fundadagur hjá mér fyrst var það fundur í Umhverfis og landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar þar höfum við þrír sveitungar setið sem fulltrúar okkar flokka.
Í dag var væntanlega síðasti fundur þessarar nefndar á kjörtímabilinu og því líklegt að okkar tími sé liðinn. En kannske gerist það ólíklega að okkar tími muni aftur koma. Það hefur stundum skeð að einhvers tími hafi komið aftur hvort sem það hefur nú verið til góðs eða ekki. Það virðist endalaust vera hægt að ,,lappa,, uppá stjórnmálamenn þrátt fyrir slæma meðferð almennings og minnkandi traust.
Síðan átti ég smá skrepp inná fund hjá sveitarstjórn Eyja og Miklaholtshrepps, bara gaman að hitta sveitunga mína í þeirri sveit.




04.05.2010 20:33

Sennilega væri gaman að vera Lionessa?



Það var föngulegur hópur Lionskvenna sem mætti í heimsókn til okkar á laugardaginn.
Trausti bóndi í Skógarnesi var með þeim í för og var ferðinni heitið til hans eftir heimsóknina til okkar.
Hópurinn skoðaði í fjárhúsin og hesthúsið hjá okkur en svo var sötrað saman kaffi spjallað og hlegið enda margs að mynnast frá góðum árum í Borgarnesi.



Þessum stelpum kynntist ég í Sparisjóðnum mínum góða, leikskólanum og að sjálfsögðu hestamennskunni í Borgarnesi.
Gerða, Steinunn, Íris og Lilja.



María Erla, Sigrún, Jónína og Guðbjörg ræða heimsmálin.



Og þessar voru hressar að vanda Kristín Finndís, Hanna Calla og Ingibjörg Hargrave.



Gerða, Lilja, Íris og Elva................og þið allar.........takk fyrir komuna skemmtilegu konur.

29.04.2010 22:33

Dagurinn í dag.



Þarna er hann Glundroði minn og eldgýgurinn Rauðakúla í baksýn.
Það er  eins gott að hún fari ekki að gjósa á næstunni nóg er nú komið af eldgosum.

Enn einn dagurinn með strekkingi hér í Hlíðinni ég fer nú alveg að fá leið á því en veðurfræðingurinn í sjónvarpinu lofaði hægviðri á morgun og ég treysti á það.
Við erum að verða frekar sandblásin og veðurbarin eftir síðustu daga en kannske fær maður bara sigg á trýnið og verður svo bara sætur og fínn eftir hálfa dós af júgusmyrsli.
Fyrirmyndarhestur dagsins var Von vinkona mín sem tekur sko á því í megruninni og nær vonandi sambærilegum árangri og ætlast er til.

Tíminn þýtur áfram og það er alltaf stutt í eitthvað, núna styttist óðfluga í sauðburðinn. Þegar ég hugsa til baka þá finnst mér eins og sá síðasti hefi verið fyrir svo sem þremur mánuðum. En ekki aldeilis þá var sko þorrablót og fyrir sex mánuðum voru réttir.
Þetta er ekki eðlilegt....................en mér létti stórlega um daginn þegar ég komst að því að þetta er ekki bara svona hjá mér heldur flestum sem að ég þekki. Og ég þekki fólk á öllum aldri svo að þetta er ekki aldurinn hjá mér. Bara svona til að undirstrika það við ykkur og ekki síður kellu sjálfa.

Ég hef líka komist að því síðustu daga að það er atvinnuleysi á Íslandi. Ekki eins og það séu nýjar fréttir eða góðar nei öðru nær. Fyrir stuttu síðan var mikið basl að fá fólk til að vinna almenn landbúnaðarstörf hvað þá að koma og vinna í sauðburði. Það þótti ekki par fínt og auglýsingar báru sjaldnast árangur. Nú er öldin önnur eins og eitt sinn var sagt og örugglega hægt að manna öll fjárhús án teljandi vandræða. Vandinn er bara sá að þeir sem að helst sækjast eftir því að komast í sveit hafa litla sem enga reynslu og eru oftar en ekki full ungir að árum. Það er þó afar ánægjulegt að fólk vilji koma í sveitina og taka þátt í fjörinu með okkur.
Ég krossa bara puttana og vona að okkar góða sauðburðar og aðstoðakokkalið sjái sér fært að mæta. Kella var svo ánægð með liðsaukann í fyrra.

28.04.2010 22:24

,,Grasið grænkar alltaf aftur,,



Vá nú eru þið heppin..............af hverju ??? Jú vegna þess að ég komst ekki inn úr hesthúsinu að blogga fyrr en ég var orðin svo þreytt að allur hamur er horfinn út í norðan garrann og húsfreyjan orðin eins og ljúfasta lamb. Sem húnvar sko ekki fyrr í dag en er samt næstum alltaf (að eigin sögn)........................
Já þá var það pólitíkin, útrásin, bankarnir, fallega fræga fólkið og margt margt fleira.
Spurning hvort að ég ætti ekki bara að hætta að hlusta á útvarpið????
Sennilega hollara.............fyrir blóðþrýstinginn.

En sem betur fer er þetta liðið hjá og lífið dásemdin ein..... Hnappadalurinn gullfallegur, hrossin góð og húsverkin leikur einn.
Skrítið hvað það er létt að skipta um skap en dekkjaskipti hreinasta ógn við geðheilsuna.

Hitastigið var gott í dag en vindurinn full ríflegur svo að mannskapurinn er svolítið blómlegur eftir útiveruna.
Við erum ennþá laus við hestapestina sem gengur nú um landið , hvað svo sem það verður nú lengi. Heyrði aðeins frá Hólum í dag og þar er bara búið að aflýsa prófum og fresta útskriftum um óákveðinn tíma. Leiðinlegt fyrir krakkana og setur strik í reikninginn hjá þeim með þeirra  skipulag.
Nú styttist óðfluga í seinna prófið sem að Mummi tekur í Steinsholti eins gott að allir haldi heilsu og verði tilbúnir í slaginn bæði hestar og menn.

Spurning hvaða afleiðingar þetta hefur svona á landsmótsári fyrir sýninga og mótahald?

Undarleg þessi veröld..........kreppa, skýrsla, eldgos og hestapest, eins gott að rifja upp það sem oft er sagt á þessum bæ...............,,það sem ekki drepur það herðir,,

Í dag hringdi svo fyrsti veiðimaður vorsins í mig til að forvitnast um hvort að við værum farin að veiða. Eins og við var að búast var lítið um að vera í þeim málum hjá okkur en ég bauð hann bara hjartanlega velkominn og vonast til að hann geti gefið mér upplýsingar um stöðu veiðimála sem fyrst.
Annars er mikill hugur í okkur og er ætlunin að taka vel á móti veiði og tjaldgestum í sumar.
Verið hjartanlega velkomin með tjaldið, góða skapið og stöngina.

Ekki má nú gleyma fyrirmyndarhesti dagsins í öllum látunum sem í dag var Gosinn góði:)