19.01.2009 22:23

Við Perla og ,,snjóflóðið,,



Það var frábært veður í Hlíðinni í dag bara nokkuð hlýtt hægviðri og snjór. Sem sagt frábært útreiðaveður og skemmtilegt færi með snjó og ís á veginum.
Við Perla vinkona mín vorum einmitt að hugsa um hvað allt væri hreint og fallegt þegar við fórum framhjá hesthúsinu í dag. Vorum bara á rólegu feti og löngum taumi þegar við allt í einu heyrðum mikinn skruðning og læti. Perla ákvað að þarna væri á ferðinni ógurlegt snjóflóð sem best væri að forða (allavega) sér undan og líka knapanum ef að hann næði að fylgja með. Ósjálfráð viðbrögð og heppni gerðu það að verkum að þetta varð bara fín æfing af einhverskonar fljúgandi starti, þar sem hestur og knapi urðu samferða áfram. Ég veit samt ekki alveg hvernig en það er auka atriði þegar allt endar vel.
En snjóflóðið ógurlega var snjórinn sem sest hafði á þakið í nótt og var svo að bráðna í blíðunni í dag. Perla vildi bara vera viss.

Núna er hann Bassi okkar kominn í skóla. Jón Ben fékk hann lánaðan og er nú með hann í knapamerkjanámi á Hvanneyri. Þeir tóku smá æfingu hér heima áður en þeir fóru svona til að vera vissir um að þeir ættu samleið og stefndu að sama marki. Það er að verða ,,bestir,,emoticon æfingin gekk vel og nú vinna þeir bara saman að markmiðinu sínu.

Eins og þið vissuð þá var ég í Reykjavíkinni um helgina að reyna að finna góðan flokksformann. Það gekk nú aldeilis vel og nú eigum við í flokknum flottan formann já og flokksstjórn. Ungur og ferskur hópur sem hefur alla burði til að ná árangri. Leiðtogar annara flokka hafa pirrað sig í allan dag í fjölmiðlum og gert sitt besta til að finna eitthvað formanninum og flokknum til foráttu. Ég held að það fari svolítið í taugarnar á þeim hversu vel þetta flokksþing gekk. Þeim langar nú sumum að endurnýja hjá sér.  

Og ef þeir bara vissu hvað úrvalið var gott.




16.01.2009 23:41

Sólarpönnukökur og staðan í dag.




Bara svo allt sé á hreinu þá hefði ég átt að blogg 14 janúar (ef það hefði verið samband) um sólarpönnukökusiðinn okkar í Hlíðinni. Þann dag sést sólin aftur hjá okkur eftir jólafríið sitt sem er frá því 30 nóvember. Þá eru alltaf bakaðar pönnukökur og haldið uppá þetta í Hlíðinni. Amma mín hún Hrafnhildur hélt mikið uppá þennan sið og fylgdist grant með því hvort sólin næði að senda smá geisla niður á bæjarhólinn þennan dag.



Núna er ég stödd í höfuðborginni og er bara í ljómandi netsambandiemoticon
Ég brá mér í bæinn m a til að kanna hvort ég fengi ekki nýjan flokksformann sem ég yrði ánægð með. Það er svona eins og að skoða hest hann þarf að vera hæfileikaríkur, heiðarlegur,viljugur og að auki hafa forustuhæfileika á við úrvals forustusauð.
Allt kemur þetta í ljós á sunnudaginn.

Undanfarnir dagar hafa verið fínir þokkalegt veður og gengið vel að ríða út. Nemendurnir að ,,vestan,, eru í góðum gír og lofa góðu. Reyndar eins og margir aðrir í hesthúsinu en þar sem ég veit að orðalagið komst til skila um daginn þá læt ég þetta fylgja.

Eina dagstund tókum við svo í að lesa númerin af kindunum sem nú hafa verið með hrúta sér til skemmtunnar frá því 19 desember. Mest mæddi þetta á honum Helga því hann hefur góða sjón og þar af leiðandi miklu fljótari að lesa númerin heldur en gamla settið með ,,Tigergleraugun,. 
Allt gekk þetta vel og nú eru allir lambsfeðurnir komnir á blað hjá viðkomandi kind.
Næsta vers í kindastússi er svo þegar ,,sónarvinur,, okkar frá Noregi kemur og segir okkur hvað mörg lömb eru í hverri kind.

15.01.2009 23:35

Vonlaust netsamband.


Sæl verið þið.
Smá skilaboð til ykkar, síðan á sunnudag hefur netsambandið í Hlíðinni verið ónýtt.
Er núna stödd á öðrum bæ til að kíkja á póstinn minn.
Vonandi stendur þetta til bóta.
Kem inn sem fyrst með fullt af ferskum fréttum af mönnum og dýrum.
Kveðja Sigrún

10.01.2009 22:41

Leyndarmál og önnur mál.





Við Deila höfum alveg gleymt að segja ykkur leyndarmál sem nú er að verða opinbert leyndarmál.
Þá verður það fréttemoticon
Deila skrapp í heimsókn til hennar Önnu Dóru á Bergi og hitti þar þennan fína hund.
Árangur þeirrar heimsóknar er að koma fram og nú er Deila ekki langt á undan okkur uppí hús og nennir ekki að fylgja okkur í alla reiðtúra út afleggjara. Enda kemur í ljós þegar við skoðum dagatalið að það styttist í hvolpadaginn mikla hér í Hlíðinni. Afmælisdagurinn hennar Lóu frænku minnar kemur vel til greina það er 3 febrúar.
Bíðum spennt því við verðum að fara að koma okkur upp fleiri fjárhundum.

Var að setja inn nýtt albúm sem heitir hundar.

Í gær bættist við í hesthúsið þá komu tveir félagar að vestan, annan höfum við fengið áður til okkar en hin er að hefja sitt nám. Álitlegir hestar og verður spennandi að vinna í þeim.
Það var mikið riðið út og járnað einnig skoðuðum við nokkur trippi sem við erum að byrja að temja.  Það er svo spennandi að skoða þau og sjá þeirra fyrstu spor og hreyfingar á nýjum skeifum. Og enn einu sinni var kvöldmaturinn snæddur á ókristilegum tíma.

Það var leiðinlegt veður í dag og þá þakkar maður fyrir að hafa smá inniaðstöðu til að vinna með hrossin. Snyrtum líka veturgömlu tryppin og settum þau á dekurstaðinn sinn.
Mummi fór um fjárhúsin og hesthúsið vopnaður myndavél í dag vonast til að geta sýnt ykkur afraksturinn fljótt.



09.01.2009 23:27

Keyrum heim að Hólum......



Í gær fóru nokkrir vinir okkar úr hesthúsinu í langt ferðalag, ferðinni var heitið alla leið að Hólum. Þetta voru frá vinstri á myndinni Þríhella, Vinningur, Fannar og Dregill.
Þar sem að veðurspáin var heldur leiðinleg fyrir helgina þá var ákveðið að drífa þau bara norður á meðan engin hálka væri og gott veður. Mummi smellti þeim á kerruna og lagði af stað fyrir hádegi, var svo kominn aftur til baka um kvöldið. Hann hafði með sér fína selskapsdömu hana Snotru mína. Hún ferðast venjulega ekki mikið nema á sínum fjórum fótum um heimalandið svo þetta var heljar bíltúr hjá henni, fékk meira að segja pylsu á Blönduósi.
Fannari er ætlað viðamesta hlutverkið af hópnum sem sagt að vera nemendahestur hjá Mumma. Í því felst að þeir fari saman í gegnum súrt og sætt í náminu í vetur.
Hin hrossin þrjú eru á mismunandi stigum í tamningu og þjálfun, ætlumst við gamla settið til þess að þau hafi gagn af og hann gaman af samstarfinu.
Til gamans má geta þess að hestarnir þrír Fannar, Vinningur og Dregill eru bræður. En svolítið ,,snúnir,, bræður þ.e.a.s Fannar og Dregill eru báðir undan Gusti frá Hóli en Fannar og Vinningur eru báðir undan Tign frá Meðalfelli. Sem sagt Fannar er aðal bróðirinn.emoticon
Svo er það hún Þríhella hún er Hlynsdóttir frá Lambastöðum. Það er alltaf gaman þegar fólk heyrir nafnið hennar í fyrsta sinn, flestir segja ,,ha,, hinir horfa skilnings litlir á mann og hugsa mikið er hún óskýrmælt.
En Þríhella fékk nafnið sitt innan við klukkustundar gömul. Hún er fædd ,,útá hlíð,, sem við köllum þar undir berggangi sem heita Þríhellur. Set inn mynd við tækifæri þar sem þið getið séð Þríhellurnar.
Læt fylgja með hvers vegna Fannar og Vinningur heita sínum nöfnum. Þegar Fannar fæddist 28 maí var alhvít jörð því ekki um annað að ræða. Vinningsnafnið er þannig til komið að ég fór eitt sinn á reiðhallarsýningu í Víðidalinn og vann folatoll undir Gauta frá Reykjavík. Um sumarið fór ég svo með Tignina mína undir hann og þá varð hann Vinningur til.

Hér fyrir neðan er svo Fannar kominn í fínu svítuna sína á Hólum.
Vonandi ekki með heimþrá.



07.01.2009 22:41

Eftirlit og ormalyfsgjöf



Í gær var nóg um að vera eins og stundum áður hér í Hlíðinni.
Vaskir sveinar sem undanfarna daga hafa verið að moka skít úr tryppastíunum kláruðu það með glæsibrag um miðjan dag í gær. Að því loknu rákum við inn allt stóðið settum ormalyf í allan hópinn og skoðuðum ástand hvers og eins. Það gerum við þannig að eftir að við höfum rekið allan hópinn inní gerði þá rekum við fimm í einu inná gang í hesthúsinu. Þá er ormalyfinu smellt í þau og um leið metið holdafar og kannað hvort nokkur sé með hnjúska. Allt var í stakasta lagi og útlitið bara mjög gott. Við tókum inn nokkur hross og við það fylltist hesthúsið. Á morgun er svo stefnan tekin á Hóla með hestana sem Mummi ætlar að vera með þar. Þá kemur pláss sem sennilega fyllist aftur á föstudaginn.
Það var rok og dálítil rigning í dag nokkrir hestar voru járnaðir aðrir fengu trimm.
Svo kom hún Gróa okkar í heimsókn alltaf gaman að rifja upp skemmtilega tíma, tíma þegar að hún var heimalingur hjá okkur eins og hún segir sjálf.
Drengirnir voru greinilega ekki búnir að fá nóg eftir járningar dagsins og smelltu sér í körfubolta. Spurning um að láta þá járna aðeins meira á morgun svo að orkan fari ekki í eitthvað vafasamt sprikl.emoticon

05.01.2009 23:11

Sitt lítið af hverju






Það var vor í lofti í dag súld, þoka, dumbungur, logn já og ýmislegt fleira sem gæti alveg verið vor.
Þó ekki, of mikill snjór í fjöllunum, jólaskraut, myrkur og  jólaboð í gær. Nei það er ekki vor.

Jólaboðið var frekar fámennt á okkar mælikvarða, en góðmennt engu að síður. Þar mættu frændur, frænkur, vinir og velunnarar. Við erum svo nísk á dagsbirtuna á þessum tíma að boðið byrjaði klukkan fjögur, þá var búið að taka nokkra spretti, járna og ýmislegt fleira.
Við gamla settið erum mjög upptekin þessa dagana að kynna okkur námsefni 1 árs nema hrossaræktar og reiðmennskubrautar Háskólans á Hólum. Hæg heimatökin eins og sagt er. Skoða bækur, blöð og verkefni sem Mummi er með. Síðan þegar kemur í hesthúsið verðum við að fá að sjá og prófa, spá og spekulegra.
Teljum Mumma bara trú um að þetta sé góð upprifjun fyrir hann í jólafríinu. Við höfum verið svo heppin að fá að fylgjast með ,,krökkunum okkar,, sem hafa verið á Hólum og þannig haft tök á að fá smá smjörþef af því sem þar fer fram. Meira um það seinna.





03.01.2009 22:58

Það er margt skrítið......




Salómon svarti ,,draumaprins,,

Það er margt skrítið og skemmtilegt bara ef að maður fer að veita því eftirtekt.
Ég var að hugsa um það í dag hvernig minningar af ýmsum toga verða til. Til dæmis af hverju man maður sumt miklu betur en annað? Jafnvel ,,ómerkilegustu ,, hlutir verða eftirminnilegir vegna þess að það var eitthvað sérstakt sem maður tengir við það.
Þegar að ég rifja upp mínar fyrstu minningar varðandi hesta þá koma uppí hugann nokkurs konar ,,klippt,, myndskeið. Það er að segja ég man einhver atvik vel og sé þau fyrir mér en annað er óljóst og hefur ekki geymst eins vel í minningunni.
Smá sýnishorn.
Ég er berbakt á henni Fjöður gömlu, leirljósblesóttri hryssu sem frænka mín átti. Ég er varla meira en 4 ára við erum að koma niður Kúabollana það er teymt undir mér, mamma og móðursystir mín labba sitthvoru megin við Fjöður og allt er í róleg heitum. En skyndilega tekur Fjöður smá hopp yfir þurran lækjarfarveg. Hoppið var hvorki hátt eða harkalegt en þó nóg til að litli knapinn rúllaði aftur af og lenti milli þúfna. Lendingin var mjúk og hafði ekki í för með sér nein líkamleg meiðsli en eitthvað hefur stoltið hruflast því lengi á eftir var mér meinilla við frásagnir af þessu. Þetta var sem sagt ,,þegar Sigrún datt í fyrsta sinna af baki,,

Annað...
Þegar ég var lítil þá hafði ég svæsið ofnæmi fyrir nýfæddum folöldum. Þetta lýsti sér þannig að ef að ég snerti folöld sem voru ný köstuð og ekki orðin þurr þá steyptist ég út í roða og kláðabólum á höndum og í andliti. Þessu fylgdu svo mikil óþægindi að ég lét mig hafa það að rjúka EKKI út í girðingu um leið og það fæddist folald. Loks kom þó að því að ég gat ekki annað en rokið til og heilsað uppá nýfætt upprennandi eftirlæti. Í kjölfarið breyttist ég í einhverja veru sem líktist helst krakkaormi með jarðaberjaáferð á höndum og andliti. Kláðinn og óþægindin voru nær óbærileg í nokkra klukkutíma, en eins og alltaf lagaðist það aftur.
Um haustið fór ég í skólann sennilega í 8 ára bekk, þegar kom að skólaskoðun var okkur sagt að ef að eitthvað væri að hjá okkur ættum við endilega að ræða það við hjúkkuna hún gæti leyst úr öllum helstu krankleikum. Það var því með mikilli eftirvæntingu sem ég bað hjúkkuna um sprautu við nýfæddum folöldum.
Enga fékk ég sprautuna og ekki man ég hvað hún sagði en eitt er víst svipnum á henni gleymi ég aldrei.

En að öðru við í Hlíðinni eigum litla vinkonu í Garðabænum hún á afmæli svo að ég tileinka henni myndina sem fylgir blogginu mínu í kvöld. Innilegar hamingju óskir til þín frá okkur í sveitinni.

02.01.2009 22:22

Janúar er fínn


Sæl verið þið !

Þá er kominn janúar skemmtilegur mánuður með dögum sem alltaf verða lengri og lengri þegar á mánuðinn líður. Þó svo að jólin og allt sem þeim tilheyrir sé gott og skemmtilegt þá er alltaf ljúft þegar lífið fer aftur í sinn vana gang. Hjá okkur í sveitinni eru svo sem flestir dagar nokkuð svipaðir á meðan allar skeppnur eru á gjöf, en þó meiri róleg heit um hátíðirnar. Þegar ég kom út í morgun var veðráttan og hitastigið þannig að ég hefði orðið nokkuð ánægð hvort heldur í apríl eða maí. Nei annars það var full dimmt fyrir vorið. Janúar er bara fínn.

Úr hesthúsinu er bara allt gott að frétta, reyndar flest hrossin að byrja sína dagskrá en þó eru nokkur sem eru bara að komast í skemmtilegt form. Stóðhestarnir fengu mikinn tíma í dag trimmuðu, viðruðu sig og að lokum var farið í alsherjar þrif og hárgreiðslu.
Er byrjuð að vinna svolítið í honum Glundroða mínum Frægssyni, sennilega hefur hann verið taminn í fyrra lífi. Allavega er hann enn sem komið er fyrirmyndar nemandi.
Folöldin eru mjög ánægð með nýju klippinguna og gaman að sjá hvað allt verður þurrt og snyrtilegt í stíunum hjá þeim þegar þau hafa verið rökuð. Fengu steinefnablöndu útá heyið í fyrsta sinn í morgun, voru alveg viss um að þetta væri eitthvað stórhættulegt og henntust út og suður áður en þau þorðu að smakka.

Smelli inn einni vormynd hérna með, það er svo gott að sjá vorið í janúar.

31.12.2008 17:48

Gleðilegt ár!

Gleðilegt ár!


Kæru vinir!

Við í Hlíðinni sendum okkar bestu óskir um gleðilegt nýtt ár megi árið 2009 færa ykkur farsæld, frið og hamingju.
Með þökkum fyrir samskiptin á árinu sem er að líða.

Sjáumst hress og kát í sveitinni.

Allir í Hlíðinni.

29.12.2008 23:11

Rakstursdagurinn mikli og spilamennska.



Dagurinn í dag var skemmtilegur líka spilamennskan í gærkvöldi. Við gerðum innrás í það ,,efra,, í gær þegar við vorum búin að borða kvöldmatinn. Fórum gamla settið og unga settið og starfskrafturinn okkar og spiluðum Kana við þau í ,,efra,, til klukkan rúmlega 2 í nótt. Um miðnættið bættist við óvæntur skemmtikraftur sem átti að vera sofandi en fann það greinilega á sér að eitthvað spennandi var í gangi. Daniella lætur nú ekki svona fram hjá sér fara þó hún sé bara 2 ára.

Í dag var svo rakstursdagurinn mikli, við byrjuðum á því að raka undan faxi og nokkrar bumbur í hesthúsinu. Síðan var haldið í folaldastíurnar og heil 12 stykki fengu áramótaklippinguna. Allt gekk þetta ljómandi vel og ég held að allir hafi bara verið sáttir við útlitið á eftir.
Þegar að við erum að meðhöndla hrossin okkar sem að við þekkjum býsna vel þá er ég alltaf að velta fyrir mér persónuleika og geðslagi. Spá í hvernig þessi eða hin breggst við ólíkum og óvenjulegum aðstæðum.Ég tel það afar mikilvægt að þekkja vel sem flesta eiginleika þeirra hrossa sem við ætlum að nota í ræktun. Þegar við vorum að raka og snyrta í dag þá voru það þrjú systkyni sem voru til fyrirmyndar í hegðun, þau eru öll undan sama hesti en mjög ólíkum hryssum. Þegar klippurnar fóru í gang með miklum hávaða mátti lesa úr látbragði þeirra ,, þetta er í fínu lagi við vitum að þetta verður flott og við treystum ykkur alveg,, jafnvel þó við séum ekki mikið tamin.
Sumum hrossunum fannst þetta algjör óþarfi og reyndu með hæverskum hætti að fá okkur til að sleppa þessu, en í heildina gekk þetta frábærlega.
Það fjölgaði líka i hesthúsinu í dag Proffi minn kom inn, eiginlega ekki með hófa heldur sýnishorn af hófum eftir fríið og Glundroði minn kom líka inn því hann þurfti meðferð útaf stungu sem var að hrella hann.


Salómon svarti.
Ég hef fengið kvartanir vegna þess að ég hafi ekki sett inn mynd af aðal höfðingja heimilisins.
Aðdáendur og einnig þeir sem bera óttablandina virðingu fyrir honum hafa haft samband og spurt hverju þetta sæti. Því er auðsvarað ég varð að bera undir hann hvort að myndbirting af honum á vefnum bryti í bága við friðhelgi einkalífs hans. Hann kvað svo ekki vera og því fylgjir hér með mynd af okkur vinunum.

27.12.2008 23:07

Atvinnuöryggi íslenskra hrúta.




Í dag er 27 desember og í kvöldfréttum sjónvarps kom athygglisverð frétt sem fékk mig til að líta uppúr mikilvægu verkefni. Gísli Einarsson ,,ríkisfréttamaður,, okkar vestlendinga var að segja frá því að fyrirsjáanleg væri ný tegund atvinnuleysis.
Það væri svo sem ekki í frásögu færandi á þessum síðustu og verstu tímum þó atvinnuleysi væri nefnt í kvöldfréttatímanum. En atvinnuleysi íslenskra hrúta hefur ekki oft svo að ég viti verið til umfjöllunnar í fréttum Rúv svo ég sperrti eyrun.  Fréttin fjallaði um það að sífellt fleiri íslenskar ær fari í tæknifrjógvun að sjálfögðu með hjálp eigenda sinna og sérmenntaðra sæðingamanna. Í fréttinni kom fram að ríflega 40.000 ær hefðu fengið þessa þjónustu nú í desember og hreint ótrúlega mikið magn sæðisskammta væri tekið úr þeim afburðagripum sem á sæðingastöðvarnar hefðu valist.
,,Heitasti,, gripurinn þetta árið er hann Kveikur frá Hesti.  
Ekki er þó hætta á því að íslenskir hrútar þurfi að örvænta því þetta er einungis lítill hluti fjárstofnsins. Og til gamans má geta þess að ekki er árangurinn af sæðingunu alltaf góður, svo að hrútarnir geta vænst þess að einhverjar ær sem fóru í sparimeðferðina þurfi jafnvel þeirra aðstoð á næstu dögum. emoticon

26.12.2008 17:56

Jóla jóla



Gleðilega hátíð, vonandi hafa allir átt góða og ánægjulega jóladaga. Hér í Hlíðinni hafa jólin verið afar notaleg og góð, allt í föstum skorðum sem er kostur fyrir vanafasta konu eins og mig. Gamla jólaskrautið fór á gömlu staðina sína og jólahefðirnar í mat og drykk voru þær sömu og undanfarin ár. Við á heimilinu fengum heilan helling af frábærum gjöfum t.d gestaþrautir (uppáhald húsbóndans) hestadót, nokkur eintök af Samspili Benna Líndal og síðan Trivial Pursuit, stelpur á móti strákum. Það var gjöf frá fyrrverandi starfsmanni sem sannreyndi það í sumar að það er ekki sjálfgefið hvernig á að skipta í lið þegar keppnisskapið hefur tekið völdin. Margar útgáfur hafa verið reyndar til að gæta jafnræðis t.d háskólapróf á móti FT prófum, bændur á móti búaliði, smiðir á móti meistarakokkum og ýmislegt fleira. Nú á bara eftir að koma í ljós hvernig stelpur á móti strákum virkar.
Þúsund þakkir fyrir okkur öll.

En að öðru og alvarlegra máli, það eru hræðilegar fréttir sem við höfum heyrt undanfarna daga um veiku hrossin í Mosfellsbæ. Sem hrossaeigandi veit ég að þetta hafa verið erfið og slæm jól fyrir þá sem þarna eiga hross. Það er alltaf hræðilegt þegar að svona kemur upp, bæði er þetta fjárhagslegt tjón en ekki síður tilfinningalegt. Þarna er fólk að missa vini sína og félaga til margra ára og þarf kannski að horfa uppá langt og strangt veikindastríð.
Sendum ykkur alla okkar bestu strauma og óskir um bata hjá hestunum ykkar.
Svona veikindi minna mann enn og aftur á hversu mikilvægt það er að halda okkar íslenska bústofni, hver sem hann er, hestar, kindur, kýr eða hvað annað hreinum og lausum við sem flesta sjúkdóma. Mér hefur fundist á undanförnum misserum að nauðsynlegt sé að vera á verði og slaka aldrei á hvað þessar varnir varðar. Reynum nú einu sinni Íslendingar að gera ekki mistökin fyrst og læra svo.

Ég vil að lokum þakka frábærar móttökur við litla vefglugganum okkar og á næstu dögum munum við vera dugleg að bæta við. Margt er framundan, reka inn stóðið, klippa folöldin og taka fleiri hesta inn.


22.12.2008 23:06

Jólakveðja úr Hlíðinni


Í dag var allt á ,,haus,, hjá mér í jólaundirbúningi. Kláraði að baka, pakka og ýmislegt fleira það er sko í mörg horn að líta. Á morgun er Þorláksmessa og þá er það bara skatan og hangikjötið. Já ilmurinn er indæll og bragðið vonandi eftir því. Veðrið var ekki skemmtilegt í dag slagveður og rigning. Ég vorkenni alltaf útigangshestunum í svona veðri, en þau voru samt bara kát í dag og tóku fagnandi á móti rúllunum þegar traktorinn kom brunandi með þær. Bíð spennt eftir því að taka inn fleiri vini mína á milli jóla og nýárs.
Kæru vinir við í Hlíðinni óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári með þakklæti fyrir samskiptin á árinu.

21.12.2008 15:24

Verið velkomin!




Komið þið sæl og verið velkomin í litla vefgluggann okkar í Hallkelsstaðahlíð.


Hér mun ég á næstunni fjalla um það sem efst er í huga hverju sinni og reyna með því að gefa ykkur innsýn í lífið í sveitinni hjá okkur og þær vangaveltur sem fram fara.
Hugmyndin um að opna heimasíðu hefur verið lengi að brjótast um í mínum kolli en er nú orðin að veruleika. Við höfum notið frábærrar aðstoðar Tómasar Jónssonar grafísks hönnuðar sem á og rekur fyrirtækið Kviku sem er auglýsinga og hönnunarstofa. Tómas hannaði merkið okkar sem við erum mjög stolt af. Ekki verra fyrir fólk eins og okkur að þau hjónin Tómas og frú eru mikið hestaáhugafólk. Án hans hjálpar værum við örugglega enn að hugsa.emoticon Takk Tommi og Tóta.

En að öðru, síðustu vikur hafa verið annasamar í Hlíðinni og í mörg horn að líta. Haustið einkenndist af kindastússi og smalamennskum eins og alltaf en þó allt samtvinnað hestunum.
Í haust hóf Mummi nám á hrossabraut Háskólans á Hólum og þar með hefur engin starfsemi verið í hesthúsinu okkar á Kjóavöllum. Við gamla settið fylgjumst með og reynum að kíkja í bækurnar þegar hann kemur heim í frí. Alltaf svo spennandi að sjá eitthvað nýtt í hestamennskunni.
Um miðjan nóvember rákum við stóðið heim og tókum folaldshryssurnar og settum þær í girðingu heima á túni. Þær fengu sér dekur og var byrjað að gefa þeim fljótlega. Veturgömul tryppi og ,,sparihross,, voru svo sett í annað hólf og litlu síðar var farið að gefa þeim líka. Og nú er byrjað að gefa öllum hestum í Hlíðinni.
Inni voru svo tamningahross og smalahross sem staðið höfðu í ströngu í haust.  Í byrjun desember var haldin folaldasýning í Söðulsholti þangað fórum við með nokkur folöld og gerðum bara nokkuð góða ferð. Snekkja litla Glotta og Skútudóttir gerði sér lítið fyrir og vann hryssuflokkinn, einnig völdu áhorfendur hana sem glæsilegasta grip sýningar. Léttlindur Hróðs og Léttarson varð svo í 4-5 sæti í hestaflokknum.
Þessa dagana fjölgar ört í hesthúsinu og allt að fara á fulla ferð þar. Það er alltaf jafn gaman að fá hestana inn, heilsa uppá góða vini og kynnast nýjum sem eru að byrja í sínu námi tamningunni.