15.08.2013 23:04

Af örnefnum og GPS


Þessi mynd er tekin í júní hér fyrir sunnan Stekkjaborg nánar tiltekið suður á Brúnum og ég stend á Stekkjarsandinum eftir að hafa farið yfir Stekkjartúnið.
Já þau eru mörg örnefnin sem hér eru og hafa haldist við um langt skeið, þökk sé þeim sem hafa haldið þessari vitneskju á lofti. Ábúendur, gamlir kúasmalar og áhugasamir afkomendur.
Eldri kynslóðin lærði öll þessi örnefi þegar kúnum var smalað eða hrossin sótt. 
Þá var auðvellt að segja fólki til þegar farið var til fjalla að smala.
Ég verð að játa að ég tilheyri eldri kynslóðinni, sótti kýr, smalaði kindum og leitaði að hrossum.
Það var nefninlega þannig að til undantekningar heyrði ef að kýrnar voru ekki nokkuð á vísum stað, kindunum var smalað og þá með skipulögðum hætti en hrossin þau gátu verið víða. En það sem þetta stúss átti allt sameiginlegt var að maður lærði örnefni, annað var ekki hægt.
Mér finnst líka að hér áður fyrr hafi verið meira lagt uppúr því að vita hvað staðirnir hétu og væru. Það var smá vottur af manndómi og svolítið fullorðins að kunna mikið af örnefnum. Það var svona eins og með mörkin á kindunum, mikið kappsmál að læra og vera vel að sér í leitum og réttum. Það voru líka skýrar og greinilegar lýsingarnar sem voru sagðar þegar komið var heim úr smalamennskunum og verið að útskýra hvar kindurnar höfðu farið.
Sem dæmi þá er algengt að segja núna ,,ég fór inní Fossakrók,, en hér áður var lýsingin nákvæmari. ,, Ég fór upp með Stekkjarborg, inn Háholt, uppí Dýjadali, fyrir ofan Höggið og kom niður í Selbrekkuna og þá var ég næstum komin í Fossakrókinn,,
Sex örnefni í einni bunu og gætu verði miklu fleiri á þessari leið, en í daglegu tali nú til dags eitt.
Þegar ég var lítil fannst mér gaman að heyra sögur, ekki var verra ef að þær höfðu gerst hér heima eða í nágreninu. Sögur sem tengdust örnefnum gerðu líka það að verkum að maður mundi miklu betur hvar staðirnir voru. 
Auðvitað man ég eftir Grýluhellir í Bæjarkastinu, Gálu í Gálutóftum, hryssunni Druslu sem lenti í drama í Síkinu, hundinum hans Einars sem týndist í Illagilinu og nautunum sem aldrei fundust í Nautaskörðunum.
Sögunni af Þyt sem dó inní Bjargurð, tófunni sem bjó í Sandfellinu og lék alltaf á skyttuna að ógleymdum draugnum á Bæjardalsbrúninni.


Einhverntímann eignast ég kannske GPS en þangað til æfi ég mitt alvöru GPS sem ég geymi í kollinum og passa að ekkert glatist. 


13.08.2013 16:21

Sættir og sitthvað fleira


Þessar tvær eru bestu vinkonur og þarna eru þær að fá sér smá blund í sólinni, Hjaltalín litla dóttir Skútu og Álfarins frá Syðri-Gegnishólum og Hrefna Rós. Ef vel er að gáð sést að ljósmyndaranum er bara gefið hornauga hefur eflaust verið að trufla hvíldina.

Það var líflegt hjá okkur þegar stór hópur hestamanna kom hingað til okkar í gær með hátt í hundrað hross og á þriðja tug fólks í hnakki. Þarna voru amerískar konur á ferðinni undir dyggri stjórn Sigurðar á Stóra- Kálfalæk og hans fólks.
Eftir að hafa þegið veitingar undir berum himni var Mummi með stutta sýnikennslu fyrir hópinn. Að lokum var svo reiðsýning þar sem við sýndum þeim nokkra hesta.
Hópurinn hélt svo ferðinni áfram í dag en þá lá leiðin í Kolviðarnes og síðan út á Löngufjörur.Tamningarnar halda áfram af fullum krafti en á myndinni eru tveir folar annar undan Faxa frá Hóli og hinn undan Gandálfi frá Selfossi. Bara spennandi gránar þar á ferðinni.Gamlar myndir eru alltaf í uppáhaldi hjá mér, allavega svona flestar.
Þarna er mynd frá ræktunarbúsýningu Hallkelsstaðahlíðar á Kaldármelum árið 1997.
Húsfreyjan á Jarpi sem var undan Fáfni frá Fagranesi og Jörp frá Hallkelsstaðahlíð.
Mummi á Hring frá Hallkelsstaðahlíð sem var undan Blika og Stjörnu frá Hallkelsstaðahlíð.
Erla Guðný Gylfadóttir þáverandi verknemi frá Hólum á Snör undan Geisla frá Vallarnesi og Jörp frá Hallkelsstaðahlíð. Ragnar frændi minn á Blika sínum sem var undan Fáfni frá Fagranesi og Bliku frá Hallkelsstaðahlíð. Skúli á Dimmu sem var undan Geisla frá Vallanesi og Brúnku frá Hítarnesi.
Takið sérstaklega eftir glottinu á Mumma og hárinu á okkur Erlu Guðnýju :)Talandi um hár............þarna er ein mynd frá permanettímabilinu en hér er ég með nokkrum góðum vinum á leið á Nesoddamót í Dölunum. Fyrir örstuttu síðan...........
Þetta eru þau Ör frá Stóra-Dal, Íra frá Hallkelsstaðahlíð og Bliki frá Hallkelsstaðahlíð.

Já það getur verið gaman að gramsa í gömlu dóti.

Framhald frá síðasta bloggi.............................við Salómon höfum náð sáttum eða öllu heldur hefur Salómon sannfært mig um að þetta var sannarlega slys sem gerðist hérna hjá okkur. Það var algjört óhapp að fuglinn flaug á tennurnar á honum og þurfti endilega að slasa sig á þeim. Fuglinn var líka fluttur inní hús til þess að betur væri hægt að ,,hlúa,, að honum. 
Það var líka ekki skynsamlegt hjá stórslösuðum fuglinum að fljúga út um allt hús og klístra blóði á veggina. 
Það var líka ekki gáfulegt hjá húsfreyjunni að henda ,,aðalbjargvættinum"  (Salómon) út í miðjum eltingaleiknum. Enda gekk ekki vel að góma fuglinn þar sem nokkrir metrar eru til lofts og húsfreyjan þá haldin þeirri ,,ranghugmynd,, að Salómon hefði eitthvað með þetta að gera. 
Bálreið og tautandi hélt hún því fram að ,,helv... kötturinn hefði veitt fuglinn og komið með hann inn. Hún hefur hugmyndaflug.................kellan...........
En það var líka með ólíkindum að húsfreyjunni kæmi það til hugar að Salómon gerði nokkuð af sér.

Hér sitjum við saman ég og Salómon og reynum að finna góða lausn svona heildarlausn eins og það heitir á fínu máli á öryggismálum fugla. :)

11.08.2013 22:42

Fréttaskot og dálítið af drauma.........


Bara nokkuð góð skref hjá þessum görpum sem eiga það til að taka góða spretti saman.
Annar svitnar meira en hinn og báðum þykir þetta gaman.

Það hefur verið líf og fjör í tamningunum það sem af er sumri og harðsnúið liðið sem komið hefur að þeim með okkur. Og ótrúlegt en satt þetta er alltaf jafn gaman og fjölbreytt.Þarna er Mummi að hringteyma sprækan fola í hringgerðinu.Harpa í vinnunni ???.................dottin Harpa ??? 
 Nei, nei bara að bíða eftir því að fara á bak og þá er gott að halla sér í rauðamölina.Harpan okkar komin á bak með bros á vör, já það er gaman að temja krakkar :)Nú er Harpa farin og undirbýr sig fyrir námið í Búvísindum á Hvanneyri í vetur
Takk fyrir góða og skemmtilega samveru Harpa, nú vantar okkur brandarakelluna í hesthúsið. Svo sjáumst við auðvitað fljóttlega aftur :)Eins og þeir sem til þekkja vita er Salómon svarti óaðfinnanlegur draumaprins í augum húsfreyjunnar. Salómon gerir aldrei neitt af sér og ef að einhverjum svo mikið sem dettur það í hug að ætla honum eitthvað misjafnt er sá misskilningur leiðréttur umsvifalaust af húsfreyjunni. Salómon bítur ekki en hugsanlega geta einhverjir rekið sig í tennurnar á honum ef að þeir koma of nálægt. Sá misskilningur gengur fjöllunum hærra hér á heimilinu að ef einhver geti stjórnað húsfreyjunni þá sé það Salómon svarti. Salómon stjórnar ekki, hann biður fallega en er meira fyrir það að honum sé hlítt sem fyrst.
Dagleg samskipti ganga oftast vel, það á að vakna áður en vekjaraklukkan byrjar að vekja, morgunmaturinn fyrstur á diskinn hans (kjötbollur með sósu),opna glugga og hurðir eftir þörfum og leyfi til að leggjast á lyklaborði á tölvunni..............................
En í dag sauð uppúr...................................nánar um það síðar.................04.08.2013 22:08

Rok


Á myndinni er Mummi að teyma Karúnu mína og litla Símon Arionsson uppá kerru en þau fóru í girðingu til hans Ölnirs frá Akranesi,.

Rokið hefur farið frekar illa með okkur hér í Hlíðinni síðustu daga en við vorum bjartsýn og slógum mikið hér heima. Ekki vantaði þurrkinn blástur, sól og blíða. En Adam var ekki lengi í paradís því blásturinn varð að roki sem staðið hefur látlaust í rúma tvo sólarhringa.
Gerðar hafa verið nokkrar tilraunir til að rúlla en útkoman hefur ekki verið góð og einungis tekist að rúlla um 50 rúllur. Mikið af heyi er fokið út í veður og vind en slatti hefur stoppað í skurðum og lægðum.
Nú er bara að skoða veðurspárnar einu sinn enn og vona að verðurfræðingarnir fari að segja satt þar sem verslunarmannahelgin er að líða. 
Um leið og ég skoða spána ætla ég að hlusta á lagið góða ........,,veðurfræðingar ljúga,,

Það þarf að fara mörg ár aftur í tímann til að rifja upp verslunarmannahelgi með svo fáa gesti á tjaldstæðinu. Reyndar ekki skrítið þar sem vindstigin hafa verið ófá og þeir sem komið hafa flestir verið komnir í heimferðargírinn. Við verðum bara að vona að útileguþörf landans sé ekki búin þetta árið og gestirnir mæti galvaskir næstu helgar.


01.08.2013 23:10

Mette er FT meistari
Ég átti góðan dag með þessum snillingum en í dag þreytti hún Mette Mannseth meistarapróf Félags tamningamanna sem er æðsta prófgráða í reiðmennsku á Íslandi.
 Prófið fór fram á Hólum í Hjaltadal, prófdómarar voru Anton Páll Níelsson, Eyjólfur Ísólfsson og Benedikt Líndal.  Það var gaman að fá að verða vitni af þessum merka áfanga í sögu Félags tamningamanna þegar sjötti meistarinn bættist í hópinn. Og ekki skemmdi það fyrir að Mette er fyrsta konan sem þreytir þetta erfiða próf. 
Þeir sem fyrir eru meistarar FT Reynir heitinn Aðalsteinsson, Eyjólfur Ísólfsson, Benedikt Líndal, Sigurbjörn Bárðarson og Þórarinn Eymundsson.
Innilega til hamingju með árangurinn Mette.Þau voru að vonum kát hjúin í Þúfum enda full ástæða til, Háttur frá Þúfum einn af þremur prófhestunum fékk að vera með á myndinni. 
Mette notaði þrjú hross úr ræktun þeirra Gísla í prófið, Hátt, Hnokka og Ró öll frá Þúfum.

Það er alltaf gaman að koma í Skagafjörðin fagra og í þetta skiptið nutum við FT fulltrúar gestrisni þeirra Skörðugilshjóna Elvars og Fjólu. En þau tóku á móti okkur í gær létu okkur í té frábæra fundaraðstöðu og gistingu. 
Kærar þakkir fyrir höfðinglegar mótttökur rétt eins og fyrri daginn.

31.07.2013 13:30

Fréttaskot


Það er óhætt að segja að að veðrið hefur boðið uppá margar gerðir síðustu vikurnar.
Þegar þetta er skrifað er hádegi og ekki nema 6 stiga hiti og bálhvasst hér í Hlíðinni. En veðurfræðingarnir lofa blíðu næstu daga sem er eins gott því hér liggur flatt hey á 25- 30 he.
Við eru búin að ná öllu heyi í plast sem við hirðum niður í sveit á Melunum, Haukatungu, Kolbeinsstöðum og Rauðamel.  Þá eigum við bara eftir að keyra heim og það tekur nú tímann sinn svo maður tali nú ekki um þegar vegurinn er hálf ófær.

Ragnar frændi minn fagnaði 80 árum síðast liðinn laugardag, við kellurnar slettum í form og viti menn nærri 60 manns heiðruðu hann með nærveru sinn. Ragnar var mjög ánægður með daginn og skemmti sér alveg ljómandi vel með ættingjum og vinum.
Ég setti nokkrar myndir inní albúm hér á síðunni sem þið getið skoðað og fleiri myndir munu birtast fljóttlega. Já það er bara gaman að eiga afmæli.

Á morgun fer hún Therese sem hefur verið hjá okkur í mánuð aftur heim til Svíþjóðar.
Þessi mánuður hefur liðið eins og örskot og við eigum örugglega eftir að sakna hennar.
Therese er dugleg og áhugasöm hestakona sem á örugglega eftir að koma aftur til Íslands.

Já tíminn líður óþarflega hratt en er það ekki bara merki um að það sé gaman að vera til ?
Vikan hefur verið þakin ansi fjölbreyttum verkefnum allavega hjá húsfreyjunni. Fyrir utan hestastúss, tamningar og þjálfun hefur ýmislegt verið í boði. Kella kláraði og gerði upp sauðburðinn svona í bókinni þið vitið, hitt var nú frá sem betur fer.
Ég ætla ekki að deila með ykkur neinum niðustöðum þær eru allar frekar sorglegar og ekki til þess fallnar að vellta sér uppúr að svo stöddu.
Bakstur og önnur húsmóðurstilþrif tóku sinn toll að ógleymdum örðum daglegum snúningum. 
Umferð veiðimanna, göngu og hestahópa er þó nokkur svo að nú getum við kannske loksins talist í alfara leið..... um stundarsakir.


26.07.2013 23:18

Mannlíf á markaði


Það var um síðustu helgi sem bændur og búalið á sunnanverðu Snæfellsnesi héldu sveitamarkað á Breiðabliki. Eins og sést á meðfylgjandi mynd þá var gaman og létt yfir mannskapnum. Ég giska á að Arnar frændi minn hafi verið að deila skemmtilegri visku svona eftir svipnum á sessunautunum að dæma. Til als líklegur strákurinn.Þessar eru annálaðar hannyrðakonur og láta sig ekki muna um að mæta með fullt af varningi.
Lóa frænka mín og Inga á Kaldárbakka hressar að vanda.Og það var líka gaman hjá þessum, Sesselja í Haukatungu og Ólöf á Grund, fyrir aftan grillir svo í Önnu Sesselju á Miðhrauni og Guðnýju í Dalsmynni.Margt var til skemmtunnar á markaðnum, þarna er Svanur í Dalsmynni að sýna viðstöddum hvernig hann notar hundana sína. Alltaf gaman að sjá til hans með hundana, hæfileiki, reynsla og óbilandi áhugi er góður koktell þegar temja á dýr. Mikið framboð var af fallegum varningi á markaðnum og óhætt að segja að ekki skorti hugmyndir hér í sveitinni.
Stellupeysurnar eru skemmtilegar og þó svo að ég teljist nú ekki hlutlaus þá voru þær uppáhalds að ógleymdum Lóusokkunum sem alltaf standa fyrir sínu og eiga dygga aðdáendur.Margir litir og munstur þó svo að hestamunstrið sé vinsælast, rennilás, tölur, hetta eða bara eitthvað annað. Alltaf hægt að panta og reynt að verða við ótrúlegustu sérþörfum :)


19.07.2013 22:27

Litla fyrirsætanEr nú ekki einu sinni friður til að leggja sig eftir matinn ???Góð teygja er nú góð fyrir kroppinn og eins gott að æfa skrefastærðina strax..................og fram og niður er það ekki ,,inn" í dag ??????

Þetta er hún Hjaltalín litla Skútu og Álfarinsdóttir sem stillti sér svona flott upp fyrir myndasmiðinn. Hún dafnar vel og ekki að sjá að veikindi móðurinnar hafi neitt skaðað hana.

Það telst til tíðinda að ná heyi í plast þessa dagana en það tókst þegar ráðist var til atlögu við stráin á Melunum. Rúllurnar þar urðu 152 talsins og allir kátir með það m.v aðstæður og veðráttu. Verð samt að deila því með ykkur hvað það er svekkjandi að rúllufjöldinn standi í ca 160 þegar þær ættu að vera komnar í ca 900 stykki. En bannað að væla og auðvitað verður þetta bara fínnt með mörgum rúllum og vonandi góðum líka.

Tamningar og þjálfun ganga vel enda ,,friður,, fyrir öðrum verkum, svo við höfum verið sex að ríða út að undaförnu. Hrossahópurinn er fjölbreyttur, söluhross, frumtamninga og þjálfunarhross allt í gangi eins og vera ber.
Um að gera að renna við og kanna framboðið ef að þið eruð í hestaleit.
Nokkrir hestaferðahópar hafa verið hér á ferðinni eins og venjulega á þessum tíma og töluvert fleiri eftir að koma þegar líður á sumarið.

Já það er ekki allt neikvætt við rigninguna því nú veiðist alveg ljómandi vel í Hlíðarvatninu.
Veiðimennirnir sem hafa verið hér síðustu viku eru kátir með aflann sem hefur verið með mesta móti.


17.07.2013 18:58

Smá fréttaskot í bundnu og óbundnuAllt að gerast gæti þessi mynd heitið.......................skoða, hrista, klóra og geispa.
Hafgola að skoða, Létt að hrista. Kolskör að kljást við Rák og nn litli Gosa og Rákarsonur geispar.

Það hefur sennilega ekki farið framhjá neinum hér um slóðir að það hefur verið frekar votviðrasamt síðustu vikurnar. Blautt Fjórðungsmót, blautt Íslandsmót og heyskapur hann er allavega ekki kominn eins langt og til stóð. Þó greyp um sig bjartsýni hér í gær og slegnir voru rúmlega 7 ha sem nú er verið að rúlla. Ekki er þorandi að treysta á langan þurk svo það er eins gott að klára bara að rúlla í kvöld.

Fjórðungsmótið sem haldið var á Kaldármelum um daginn heppnaðist afar vel nema veðrið það klikkaði allavega að nokkuru leiti. Hestakosturinn var mjög góður og komu fram nokkrar nýjar stjörnur, sérstaklega fannst mér 4 vetra flokkur stóðhesta frábær.
Það er alltaf gaman að gleðjast með góðu fólki á Kaldármelum og var þetta mót engin undantekning. Eftir svo vel heppnað mót tel ég fullvíst að aftur verði fjórðungsmót á Kaldármelum 2017. Mig er strax farið að hlakka til.

Fyrir og meðan á mótinu stóð reyndi ég að deila ,,veðurlæsi,, mínu á sem jákvæðastan máta mótinu hugsanlega til framdráttar. Þetta heppnaðist misjafnlega en hefur þó vonandi ekki orðið neinum til tjóns.
Einhversstaðar segir að maður eigi að líta á björtu hliðarnar er það ekki ?

Fésbókarvini mínum fannst ég bera mig vel miðað við veðurlýsingar annara af mótinu því urðu þessar vísur til.

Þó allt sé fokið út við Sogn
ær og líka seppi.
Hvirfilbyl menn kalla logn
í Kolbeinsstaðahreppi.

Norðanáhlaup, frost mun fylgja.
Fráleitt að ég norður skreppi
en þetta heitir hitabylgja
i Hlíð í Kolbeinsstaðahreppi.

Já hann klikkar ekki þessi þegar að skáldskap kemur.

Takk fyrir Valur Óskarsson eins gott að fara fá þurkvísu svo að heyskapurinn fari að ganga eitthvað.

Þann 9 júlí fóru fóru Þríhella og Skriða undir Stimpil frá Vatni en Kolskör undir Hersir frá Lambanesi.
Þann 11 júlí fóru svo Karún, Skúta, Létt og Rák undir Ölnir frá Akranesi. Nú er bara að bíða og sjá hvort að þessir fundir beri ekki tilætlaðan árangur.
Blika var síðasta hryssan til að kasta þetta árið og kom með gullfallegan og skjóttan hest undan Gosa frá Lambastöðum þann 10 júlí. Hann hefur hlotið nafnið Þytur.08.07.2013 21:29

Sagan hennar HjaltalínSkúta og Mummi að keppa á Íslandsmóti fyrir nokkrum árum síðan.

Já aðalfréttin héðan úr Hlíðinni er að hún Skúta kastaði á föstudaginn alheilbrigðu merfolaldi.
Þetta væri svo sem ekki í frásögu færandi nema af því að hún barðist fyrir lífi sínu í rúman mánuð síðast liðinn vetur.  Sjá nánar á blogginu hér á síðunni í janúar 2013.
Síðast liðinn gamlársdag fárveiktist Skúta af hrossasótt og var svo hætt komin að henni var ekki hugað líf. Þennan dag var hálfgerður bylur, mikið rok og kuldi. Við höfðum gefið hryssunum daginn áður og þá var allt með felldu. Sem betur fer ef hægt er að orða það þannig erum við orðin svo kvekkt af flugeldaskotum áramótanna að við rekum hryssurnar inn. Það var einmitt þegar við komum út í girðingu til að smala þeim inn að við sáum að Skúta var ekki eins og hún átti að sér að vera. Hún stóð langt frá hryssunum og hafði greinilega engan áhuga á heyi eða samneyti við hinar hryssurnar. Þegar við komum nær sáum við að hún var uppþemd og mjög aumingjaleg. Hryssurnar voru reknar heim en Skúta teymd á eftir þar sem hún var slöpp og fylgdi varla hópnum. Þegar heim kom fórum við með hana inn þar sem við erum með reiðsvæði í hlöðunni. Þegar þangað kom bókstaflega lak hún niður og var engu líkara en hún væri að drepast. Ég hafði hringt strax í Hjalta dýralæknir þegar við sáum hversu veik hryssan var og sem betur fer var hann ekki langt undan. Hann brást fljótt og vel við, var kominn eftir ótrúlega stuttan tíma. Þegar hann kom og sá hryssuna duldist engum viðstöddum að vonin var lítil ef að þá einhver. Ég sagði honum að þetta væri algjör uppáhalds hryssa og eigandinn ( Mummi) væri í flugvél á leiðinni heim frá Svíþjóð. 
Þögnin var óþarflega löng en svo sagði hann ,,við getum svo sem reynt en gerðu þér ekki neinar vonir"  Ég ætla ekki að rekja það sérstaklega hvað hann gerði en fyrsta meðhöndlun tók drjúgan tíma. Þegar henni var lokið þurfti Hjalti að bruna í aðrar vitjanir og sækja meiri lyf . Það var því liðið vel á gamlársdaginn þegar hann kom til baka og hélt meðhöndlun áfram.
Hér í Hlíðinni var síðasta kvöldmáltíð ársins snædd afar seint og ekki var hún fyrr á ferðinni hjá Hjalta dýralækni sem brunaði heim í Stykkishólm.
Til að gera langa sögu stutta þá tóku hér við á nýju ári langar og strangar vaktir sem stóðu í einn og hálfan mánuð. Hrossasóttin hafði þær afleiðingar að það myndaðist lófastór poki á þarminn sem gerði það að verkum að skíturinn safnaðist þar fyrir og skilaði sér ekki út. Skúta fékk háan hita og um tíma leit ekki út fyrir að það næðist að halda henni á lífi.
Þegar hún veiktist gekk undir henni hestfolald, Skúti sem af öllu brölltinu varð spakur og meðfærilegur. Hann fékk ekki að sjúga þar sem að Skútu veitti ekki af allri sinni orku fyrir sig en hans hlutverk var að vera í næstu stíu og heimsækja mömmu sína öðru hverju. Þetta var gert til að hryssan rifi sig upp og hefði einhvern áhuga á að hreyfa sig og standa upp.
Skúti litli var sem sagt í fullri vinnu í nokkrar vikur við að hressa mömmu sína við.
Lyfjagjafir, úthreinsun, hitamælingar og ýmislegt fleira að ógleymdum parafínolíu og AB mjólkurgjöfunum voru dagleg verkefni. Já hún Skúta lifði á AB mjólk, parafínolíu og rennblautri há í allan vetur. Þegar hún fór að hressast og hafa meiri áhuga á að borða var henni gefið örlítið af há sex sinnum á sólarhring. Ein lúka í hvert skipti var meira en nóg engin áhætta tekin á að hún stíflaðist aftur. Undir vor var hún svo farin að braggast verulega og orðið alveg ljóst að folaldið sem hún átti að vera með í maganum var þar ennþá.
Það var nefninlega þannig að þegar Mummi útskrifaðist sem reiðkennari frá Hólaskóla fékk hann folatoll undir Álfarinn frá Syðri-Gegnishólum að gjöf.
Það var svo föstudaginn 5 júlí að Skúta kastaði brúnni hryssu sem er heilbrigð, stór og falleg.
Mikil hamingja með þessa flottu hryssu sem að sjálfsögðu heitir eftir dýralækninum honum Hjalta.  Já Hjaltalín frá Hallkelsstaðahlíð er fædd og mæðgunum heilsast vel eins og sagt er á fæðingadeildinni.

Það er ekkert grín að fylgja ,,sjúklingi" af þessu tagi eftir í marga mánuði en trúið mér við vorum aldrei á því að gefast upp. Þetta hefði samt aldrei tekist nema með hjálp Hjalta dýralæknis sem af einskærri natni sinnti og fylgdist með Skútu og leiðbeindi okkur.
Kærar þakkir Hjalti Viðarsson, þér verður örugglega boði á bak þegar þar að kemur.02.07.2013 22:05

FjórðungsmótsfiðringurÞar sem Fjórðungsmótið á Kaldármelum er handan við hornið fannst mér við hæfi að smella hér inn einni mynd sem ég held mikið uppá. Myndin er tekin af hópreiðinni árið 1992.
Olil Amble og Mugga frá Kleifum, ég og Jarpur frá Hallkelsstaðahlíð, Kolbrún Grétars og Pjakkur frá Hvoli.
Í aftari röð eru heiðursdömurnar Ólöf í Nýja Bæ og Arndís Þorsteinsdóttir frá Ystu-Görðum.
Já þarna voru hjálmar ekki í hávegum hafðir og hópreiðin vinsæl og fjölmenn sýning.Þessi mynd er tekin á afmælismóti Hestamannafélagsins Snæfellings á Kaldármelum.
Þarna eru nokkrir af þeim sem gengt hafa formennsku í Snæfellingi, fv Bjarni Alexandersson, Stakkhamri, Haukur Sveinbjörnsson, Snorrastöðum, Ragnar Hallsson, Hallkelsstaðahlíð, Sólrún Júlíusdóttir, Stykkishólmi, Lárus Ástmar Hannesson, Stykkishólmi, Hallur Pálsson, Naustum og Sigrún Ólafsdóttir (húsfreyjan) Hallkelsstaðahlíð.Þessi mynd er líka tekin á afmælismótinu, þarna er þáverandi stjórn félagsins með glaðning sem félagið fékk í tilefni afmælisins.
Fv Illugi G Pálsson, Brynja Jóhannsdóttir, Guðmundur Ólafsson, Sigrún Bjarnadóttir og Sigrún húsfreyja Ólafsdóttir.

Alltaf gaman að gramsa í gömlum myndum.

Eins og áður sagði þá er Fjórðungsmótið á Kaldármelum að byrja á morgun svo það er kominn spenningur í liðið. Harpa vinnukonan okkar ríður á vaðið og keppir í ungmennaflokki snemma í fyrramálið.Við segjum bara áfram Harpa og Blesi, koma svo :)

Svo er aldrei að vita nema það komi folaldamyndir á morgun.

28.06.2013 22:53

SveitinÉg veit ekki afhverju ég fer að hugsa um bjórsmökkun þegar ég sé þessa mynd..................... en mikið er nú gott að fá smá saltstein að smakka.

Enn fjölgar í folaldahópnum hér í Hlíðinni, Karún kastaði brúnum hesti undan Arion frá Eystra-Fróðholti í fyrradag og Létt átti rauðblesótta hryssu undan Toppi frá Auðsholtshjáleigu í gær. Þá eru bara tvær hryssur eftir að kasta þær Skúta og Blika.
Ég sver það myndir eru væntanlegar :)

Annars gengur allt sinn vana gang riðið út, girt og atast í góða veðrinu. Verst hvað tíminn líður á miklum ofsahraða og virðist frekar gefa í ef að eitthvað er.
Heyskapur er handan við hornið og verður vonandi góður fengsæll þetta árið.

Nú styttist í Fjórðungsmótið á Kaldármelum en það hefst í næstu viku og stendur fram á sunnudag. Það eru margar góðar minningar tengdar mótunum þar og alltaf er sérstakur sjarmi við mótin á melunum. Fjöldinn allur af góðum hestum er skráður til leiks svo það verður hægur vandi að finna eitthvað til að gleðja augað. Ekki má svo gleyma því að böllin í kjósinni góðu eru skemmtileg og alveg einstök.  Já þið verðið bara að sjá, prófa og njóta.

26.06.2013 21:04

Flottir Hólakrakkar með meiru.

 

 
Síðast liðinn föstudag var brunað norður í Skagafjörð til að vera við útskrift 19 reiðkennara.
Dagskráin hófst með glæsilegri reiðsýningu nemenda síðan var hópnum stillt upp til myndatöku og veðlaunaafhendingar. Virkilega skemmtilegur dagur og mikið voru þetta flottir krakkar sem voru að útskrifast. Innilega til hamingju með áfangann :)Mér fannst það sérstaklega ánægjulegt að fá að afhenda þessum knapa reiðmennskuverðlaun Félags tamningamanna. Innilega til hamingju með árangurinn Jóhann K Ragnarsson.Hörður 'Oli og Daníel, Jói og Sleipnir.

Þessir félagar voru kátir með áfangann og ekki hefði nú verið leiðinlegt að ná mynd af Mumma með þeim. En þeir og Mummi hafa brallað margt saman síðan þeir hittust fyrst á Kaldármelum og byrjuðu að keppa. Ef ég man rétt þá náðu þeir nú ekki niður fyrir hnakklöfin þegar þeir byrjuðu að keppa. Spurning um að finna gamlar myndir frá þeim árum ?
Læt þessa mynd fylgja þó svo að hún sé tekin við útskriftina í fyrra af þeim köppum Mumma syni og Helga Eyjólfs ,,fóstursyni,,  :)Ein gömul og góð .................þarna eru þeir ekki orðnir reiðkennarar en þessi mynd er tekin þegar danslistin var stunduð stíft.
Þverslaufur og mittislindar voru aðalmálið og svo náttúrulega stelpurnar.

 

 

24.06.2013 23:04

Er það ekki kallað ,,comeback,, ????Snekkja Glotta og Skútudóttir frá Hallkelsstaðahlíð með knapa sinn og ræktannda Guðmund Margeir Skúlason.

Komið þið sæl og blessuð kæru lesendur.
Nú er kella mætt aftur á síðuna eftir langt og gott bloggfrí, já það var alveg orðið nauðsynlegt að taka smá hlé.
Jú jú það er allt í góðu hjá mér en svona ykkur að segja alveg í trúnaði þá var ég orðin hundleið á skrifunum mínum. Það er svona að vera alltaf með sjálfum sér.
Nú er ég aftur á móti full tilhlökkunnar að miðla með ykkur fréttum héðan ú Hlíðinni.
Já og vel á minnst, kærar þakkir fyrir póstana og hvattninguna til að halda áfram að skrifa.
Það er gaman að fá að vita að einhverjum finnist áhugavert að fylgjast með lífinu í sveitinni.Það hefur ýmislegt á dagana drifið frá því ég skrifaði síðast, Mummi hefur verið nokkuð ötull við að taka þátt í keppnum. Hér er hann að ríða í úrslitum á íþróttamóti Skúgga og Faxa sem haldið var í Borgarnesi.Þessi mynd er einmitt tekin á einu mótinu sem Mummi tók þátt í gæðingmóti Glaðs.
Þarna eru þeir Jón Ægisson bóndi á Gillastöðum og Mummi í verðlaunaafhendingu.
Bara kátir kallarnir.Þessi mynd er tekin í Grundarfirði en þar var íþróttamót Hestamannafélagsins Snæfellings haldið. Einn flottasti bakgrunnur sem til er fyrir hestamyndir á mótum, svona eins og Kaldármelar.Ein létt töltsveifla í góða veðrinu gerir góðan dag bara enn betri.

Já það er líf og fjör í hestamennskunni eins og við er að búast og nóg er nú framundan.

Hér í Hlíðinni eru fædd fimm folöld og fjórar hryssur eru enn ókastaðar.
Kolskör átti brúna hryssu undan Blæ frá Torfunesi sem hlotið hefur nafnið Hafgola.
Snör átti rauðblesótta hryssu undan Leikni frá Vakurstöðum sem hlotið hefur nafnið Snörp.
Tign átti brúnan hest undan Gosa frá Lambastöðum, hann er ónefndur ennþá.
Rák átti brúnan hest undan Gosa frá Lambastöðum og er hann einnig ónefndur.
Þríhella átti brúna hryssu undan Ugga frá Bergi og enn á efri að finna gott nafn á hana.
Það er sem sagt orðið tímabært að smella sér í hempuna og nefna gripina ekki gengur að hafa þau nafnlaus til lengdar.

Við höfum ekki haldið neinni hryssu sem af er en það stendur svo sannarlega til, nú er bara verið að velja stóðhesta, spá og spekulegra. Það er svo gaman.

Fjöldinn allur af hrossum er á járnum og mikið riðið út og tamið bæði fyrir okkur og aðra.
Dágóður hópur er hér af söluhrossum sem mér ber vonandi gæfa til að koma myndum af inná sölusíðuna sem fyrst. Annars er bara að hafa samband og kanna málið við lofum að taka vel á móti ykkur.

Astrid var að klára annað árið á Háskólanum á Hólum og lauk því með verknámi sem að hún tók hjá þeim Hauk og Randi á Skáney. Hún var þar í ca tvo mánuði og naut góðs af verunni hjá góðu fólki og snildarkennurum. Svo er stefnan tekin á þriðja árið á Hólum í haust.
Aldeilis flott hjá henni stelpunni.Þarna er einmitt vinkona mín og heimasæta á Skáney Kristín Eir að fara að keppa á Sóló sínum. Þau kepptu í pollaflokki og voru bara kát með sig og mömmuna sem sýndi góða takta sem aðstoðar hestasveinn.

Þá að öðru, sauðburðurinn gekk þolanlega svona eftir allar hamfarirnar sem ég vil helst ekki rifja upp einu sinni enn. Allavega var gaman þegar vel gekk og okkar góða fólk kom til að hjálpa og njóta með okkur. Kærar þakkir þið öll sem komuð og voru okkur svooo mikilvæg.Daníella og Klængur voru alveg ,,meðetta,, og þrílembingurinn lét sig svona hafa það :)Hér eru fleiri upprennandi sauðburðarkonur sem sýndu heldur betur góða takta, Elva Rún og Kristín Rut.

Það sem uppúr stendur eftir sauðburðinn er hvað ég rosalega ánægð með þau fáu lömb sem við fengum undan hrútnum Stera. Þau verða alvöru eins og sagt er.
Ég er líka ánægð með ,,bónuslömbin,, sem við fengum því að ekki veitir af, sennilega verða lömbin hjá okkur ca 500 færri en venjulega.
 Já lambalát er ekkert grín það skal ég segja ykkur.

Sláttur er ekki hafinn hjá okkur enda var sauðféð hér á túnunum langt fram eftir vori. Sprettan er á góðu skriði og vonandi verður þetta gott heyskaparár.


Það er margt sem ég á eftir að segja ykkur á næstunni svo endilega fylgjist mér hér á síðunni.
Gaman væri nú líka ef að þið sem tök hafið á munduð smella svo sem einu ,,læki,, á síðuna fyrir mig.
Nú er kella komin í gang og lætur ekki deigan síga svo glatt, folalda og mannlífsmyndir væntanlegar.

11.05.2013 14:07

Allt á fullu í fjárhúsunumHér er hluti af liðinu sem mætti til okkar um helgina til að hjálpa okkur í sauðburði.

Það eru búnir að vera líflegir dagar og nætur síðan sauðburðurinn fór á fullt hér í Hlíðinni.
Við fórum með hluta af geldfénu út í gær og sennilega fer afgangurinn af því út á morgun, eins gott að hafa nóg af plássi.
Veðrið hefur verið mjög gott síðustu daga eða alveg eins og ég vil hafa það á þessum tíma, rigning, hlýtt og hægur vindur. Það er ótrúlegt hvað hefur grænkað síðust daga, þökk sé vætunni. Framundan slóðadraga, girða og svo að huga að áburði og vona að þetta séu ekki síðustu droparnir þangað til í júlí.

Köstunarhólfið fyrir hryssurnar er klárt og verða þær settar þangað á næstu dögum.