12.08.2009 22:50

Góðir krakkar



Það var oft þétt setið við eldhúsborðið í sumar, þarna eru þau Jón Ben vísnaskáld, Nikulás girðingameistari, Ansu tamningakona frá Finnlandi, Linda systir hennar og Astrid hestaþjónn frá Danmörku. Hörkulið hress og skemmtileg. Við hin sem að teljumst heimilisfólk litum hreinlega ekki nógu vel út fyrir myndatöku.
Það skal tekið fram að það var matur á pönnunni í upphafi borðhalds.emoticon



Þarna getið þið séð að það er bara nokkuð gaman að vaska upp og ganga frá í eldhúsinu, það er helst að Salómon sé efins.



Þessi mynd heitir ,,Sveitapiltsins draumur,, þarna er Nikulás Rúnar að hamast við að fela enda. Yfirmaður endafelinga................hefur sennilega falið á annað þúsund enda í sumar.



Þarna eru Ansu og Freyja saman á góðri stund og brosa báðar út í annað. Ætli það sé svona gott veður í Finnlandi núna????



Þarna eru tveir félagar í slökun þessi mynd er tekin í brekkunni á Kaldármelum þegar íþróttamótið var haldið þar í vor.
Hvað þeir eru að hugsa er ekki gott að vita, kannske eru það tamningar og girðingavinna.....................?????? Nei sennilega ekki.

11.08.2009 22:29

Sparisjóður með heimilishjálp og fleiri góðir viðburðir.



Sumum er hreinlega gefið meira sjálfstraust en öðrum...........þarna er hann Kostur minn að reyna að aðstoða föður sinn. Honum hefur líklega fundist full mikið annríki hjá Sparisjóði og ákveðið að vera hjálpsamur sonur. Hann er allavega sannfærður um að þetta geti hann vel.
Það hefur fjölgað ört hjá Sparisjóði síðustu daga og í gær fékk hann þrjár eðaldömur til sýn sem að honum er ætlað að þjóna. Ein af þeim er Klara vinkona mín frá Lambastöðum, en hún eignaðist um daginn rauða hryssu undan Dyni frá Hvammi. Við erum stórhrifin af þessu folaldi og hreyfingarnar er stór glæsilegar. Aldeilis spennandi gripur.

Við fórum í gær og kíktum á hann Hlyn og Edda sónaði hjá honum hryssurnar. Útkoman var nokkuð góð og vonandi nokkrir fyrirmyndar reiðhestar á leiðinni. Hlynur leit frábærlega út og var eins og ungur reiðhestur í toppþjálfun...............algjör kroppur.

Helgin hér í Hlíðinni var hreint frábær við fengum góða gesti sem að komu hér með hestana sína og riðu út með okkur. Við fengum gott veður og riðum skemmtilega leið um slóðir sem að margir af gestunum höfðu aldrei farið. Í stuttu máli og á tungu heimamanna......út hjá Heiðarbæ, niður hjá Höfða, Gjánna og niður að Rauðamel. Þar var stoppað og þegið kaffi sem að ein úrvals húsfreyja úr sveitinni kom með til okkar. Að því búnu var riðið ,,upp hraun,, og heim að Hraunholtum síðan var riðið heim í Hlíðina. Þar hitnaði í kolunum í orðsins fyllstu merkingu og undir miðnættið voru allir orðnir saddir og sælir.
Þökk sé íslensku sauðkindinni einu sinni enn...................
Á sunnudaginn var síðan tekinn annar reiðtúr og þá héldu gestirnir heim á leið.
Já það er alltaf gaman að hittast og rifja upp góðar stundir með fyrrverandi samstarfskonum mínum úr Sparisjóði Mýrasýslu. Takk kærlega fyrir komuna það var gaman að fá ykkur öll.

Mummi smellti sér norður á Hvammstanga um helgina og tók þátt í íþróttamóti þar. Fór hann með kappana Fannar og Dregil. Hann var bara nokkuð kátur með árangurinn (sjá úrslitin inná http://thytur.123.is/
Mig er farið að hlakka til að skreppa í stóðréttirnar í haust og hitta ferðafélagana góðu frá því á fjörunum í sumar.

Hann Jón Ben yfirgaf okkur síðasta föstudag eftir góða samveru í sumar vonandi birtist hann sem fyrst aftur. Læt hér fylgja með vísukorn sem að hann skyldi eftir sig.

Hlátursóminn heyra má
frá álfum á Hafurstöðum.
Þar var ekkert borið á
því bila nú tæki í röðum.

Nú er að líða undir lok
bilanna sumar mikið.
Og allir komnir með uppí kok
af heyskap fyrir vikið.

Þetta þarfnast frekari skýringa fyrir þá sem ekki til þekkja..............það kemur síðar.

11.08.2009 00:43

Kella sibbin.............

Var að koma heim eftir mjög langan dag, hef fullt af fréttum að færa ykkur en er svo syfjuð að það er ekki möguleiki á því að skrifa eitthvað af viti. Stend mig vonandi betur á morgun.
Góða nótt og hafið það sem allra best.

PS í dag sá ég eitt það fallegasta folald sem ég hef séð um æfina...............og hef ég nú séð þau nokkur. Meira um það á morgun.

05.08.2009 23:13

Ánægjuleg sónarskoðun........alveg 100%



Þessi hestur heitir Muggur og er hér í tamningu hjá okkur, ég dauðöfunda frúnna sem á hann.

Góður dagur að kveldi kominn og þá er rétt hjá húsfreyjunni að setjast niður og rifja upp ,,sumt,, af því sem gerðist hér í Hlíðinni í dag.
Það var sónarskoðað hjá honum Sparisjóði í dag og kom þá í ljós að fylprósentan er 100% ennþá.emoticon 
Það var ljómandi gott að geta aðeins fækkað hjá honum því að síðast í gær var að bætast við í dömuhópinn hjá honum. Fullt að gera hjá kappanum.
Á mánudaginn verður svo sónarskoðað hjá honum Hlyni inná Lambastöðum og verður spennandi að sjá hvernig það kemur út.

Annars var heil mikið riðið út hér í dag og svo komu hér nokkrir að skoða hross. Stóðið sá ástæðu til að ösla langt útí vatn og koma heim á tún með tilheyrandi látum. Fáir höfðu húmor fyrir þessum leik og fóru vaskir sveinar með rafmagnsgirðinguna eins langt útí vatn og tæknin leyfði. Var tækifærið notað og nokkrir folar teknir höndum og settir í megrun.

Verð að segja ykkur eitt svona í trúnaði.............. ég ætla ekki að skrifa um landbúnaðartæki og viðhald þeirra eða pólitík hér í kvöld. Ástæðan er einföld ég verð svo geðvond af því.
Það verður því að bíða betri tíma.

Í dag var algjört met í heimsóknum á heimasíðuna okkar 290 heimsóknir sem er frábært. Takk fyrir innlitið alltaf ánægjulegt að fá heimsóknir hvort heldur það er í hlaðið eða á síðuna.

05.08.2009 11:15

Söluhross

Nú hafa ný söluhross bæst við á síðuna undir hnappnum ,,söluhross,,
Endilega hafið samband ef að við getum eitthvað aðstoðað ykkur.




03.08.2009 22:05

Það gerist margt í sveitinni...........



Rakst á Mumma og Riddara í reiðtúr og smellti af þeim mynd.

Jæja þá er þessi ferðahelgi búin og flestir þeir sem að lögðu land undir fót komnir heim eða á leiðinni heim. Afrek mín í ferðalögum og útihátíðum voru nú ekki mikil eða stór þetta árið. En helgin var samt alveg ljómandi góð. Smá bíltúr inní Stykkishólm þar sem að ferðafélagar mínir héðan úr Hlíðinni spiluðu golf með góðum vinum. Grillveisla í Hraunbrúninni og góðir gestir heima fyrir. Hestarnir voru í fríi frá föstudegi þar til í dag og voru örugglega bara sáttir með það.


Hinsvegar tóku túnrollurnar sem að eru sérstakir aðdáendur fóðurkálsins sem á að bítast í haust sér ekkert helgarfrí. Ég verð nú að játa að þær eru farnar að rífa í þolinmæði húsfreyjunnar sem jafnvel hefur hugsað þeim þegjandi þörfina og hugleitt rótækar aðgerðir til að losa sig við fénaðinn. Það versta er að upprennandi kynbótahrútur búsins Sindri nokkur er meðal þessara vandræða gripa svo að aðgerðunum verður sennilega stillt mjög í hóf.  Eins og áður hefur komið fram þá er kynbótahrúturinn Sindri Kveiksson í miklu uppáhaldi hjá mér eða var það allavega í vor. Spurning um framhaldið ef að kálið verður allt búið þegar að sláturlömbin koma úr fjallinu og eiga að fara að gæða sér á því.
Það er ekki nóg með að allt sé að skrælna heldur ofsækja forhertar túnrollur þessa vesælu uppskeru.

Sparisjóður varð fyrir nýrri lífsreynslu um helgina. Hann hefur lifað frekar áhyggjulausu lífi í girðingunni sinni í allt sumar og fyrrasumar líka. En á sunnudagsmorgun lifnaði nú heldur betur yfir hversdagsleikanum hjá honum og hans spússum sem halda honum félagsskap í girðingunni. Hún Sjaldséð mín þriggja vetra gelgja ákvað nefninlega að nú væri komin tími til að breggða sér heim í tún. Til þess að komast þangað þurfti hún að svamla langt útí Hlíðarvatn og koma sér fram fyrir girðinguna sem er girt langt út í vatn. Þegar hún var komin heim í tún lét hún ekki þar við sitja heldur ákvað að smella sér í heimsókn yfir næstu girðingu og inn til Sparisjóðs. Hann hefur verið í þessari rafmagnsgirðingu og ekki látið sér detta í hug að stökkva út þó svo að stórir hestahópar stundum 100 hross hafi farið hér hjá.
En Sjaldséð ákvað að láta vaða og stökk á girðinguna og inn komst hún. Nú eru örugglega allir sem að þetta lesa vissir um að hún hafi gert þetta til að fá þjónustu hjá höfðingjanum en svo var nú aldeilis ekki. Þegar að hann sá nýja dömu hugsaði hann sér gott til glóðarinnar og byrjaði að smala hópnum saman og var sannfærður um að sú nýja yrði yfir sig hrifin og samvinnuþýð. Það var nú öðru nær og skemmst frá því að segja að fjölmennt lið kom höfðingjanum til hjálpar og losaði hann við þetta ofbeldisfulla ,,glæpakvendi,,
Sjaldséð hefur sennilega ekki tímasett þessa heimsókn nægilega vel eða haldið að þetta innbrot tæki lengri tíma. Allavega voru ástaratlot henni afar fjarlæg ..........................
Vettvangur þessa innbrots var við hliðina á tjaldstæðunum okkar og voru því margir áhorfendur sem að fylgdust spenntir með framgangi mála.

30.07.2009 23:16

Léttur Glymur og Ansu áfram á Íslandi.........



Stundum er hreinlega svo mikið að gera að maður verður að flýta sér á milli staða.......á brokki..........................

Það var mikið riðið út hér í dag þrátt fyrir mikinn blástur. Enginn ferðahópur var hér í dag en það var afar fjölmennt og margir hestar sem fóru hér um hlaðið í gær. Einn hópur að fara yfir Klifsháls, annar fór Fossaleiðina og sá þriðji var að ríða kringum Hlíðarvatn.
Það hefur verið hefð til margra ára hjá góðum grönnum að koma ríðandi svokallaða Hringdalsferð. Í þessa ferð hafa farið jafnt ungir sem aldnir og ævinlega skemmt sér vel.
Takk fyrir komuna alltaf gaman að halda í góðar hefðir.
Einnig var afar gestkvæmt í gær bæði komu gestir að skoða hross og einnig til að líta á bændur og búalið. Sumir komu alla leið frá Spáni.

Í dag fór Létt undir hann Glym frá Skeljabrekku og verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því. Svo er bara að bíða eftir henni Skútu sem að er enn óköstuð, faðirinn þar er Gaumur frá Auðsholtshjáleigu.

Á morgun fer hún Ansu okkar sem hefur verið hjá okkur í sumar hún ætlar að fara heim til sín til Finnlands. Hún hefur staðið sig með mikilli prýði eins og allir þessir góðu krakkar sem hér hafa verið. Við söknum hennar öll og vonum innilega að hún komi bara aftur til Íslands.
Takk fyrir skemmtileg kynni Ansu vonandi kemur þú sem fyrst aftur til okkar.

Nú nálgast ferðahelgin mikla óðfluga og allt orðið klárt hjá okkur að taka á móti fólki á tjaldstæðin. Svo er bara að krossa fingur og vona að veiðin verði ennþá góð um helgina.




29.07.2009 22:59

,,Amma,,


Nú er kella kát orðin þessi fína ,,amma,, og brosir hringinn af því tilefni.

Í dag eignuðust Randi okkar og Haukur litla sæta prinsessu, innilega til hamingju elskurnar.
Ég get ekki beðið eftir því að fara og skoða litlu prinsessuna sem loksins er komin í heiminn.
Verð að fara að standa mig í prjónaskapnum eins og góðri ömmu sæmir.

Sendum okkar bestu hamingjuóskir í Skáney og til Noregs frá okkur hér í Hlíðinni.

28.07.2009 22:53

Verður Adam lengi í paradís?????



Mummi er alltaf jafn veikur fyrir afkvæmum Adams frá Ásmundarstöðum á myndinni lætur hann sig dreyma um að fá afnot af þessari þegar hún hefur stækkað aðeins meira.
Þetta er hún Gangskör mín undan Kolskör og Adam frá Ásmundarstöðum.
Myndin er tekin þegar þær mæðgur voru á leiðinni til hans Aldurs frá Brautarholti sem er í Fellsöxl. Ég bíð spennt eftir því að það verði sónarskoðað hjá honum og ég fái þær mæðgur heim.

Það hefur verið leiðinda rok hér í Hlíðinni í dag og ekki skemmtilegt útivistar veður.
Hér kom í dag heljar stór ferðahópur sem taldi rúmlega 20 manns og 100 hross þau hefðu þurft að fá betra veður í ferðalagið.

Vaskir sveinar keyra heim rúllur af miklu kappi og miðar vel áfram við það.

Góða gesti bara hér að garði í dag sem áttu hin ýmsustu erindi t.d reyna að slá metið í spretthlaupi uppá Hlíðarmúla en metið stendur samt óhreyft eftir daginn.
Aðrir voru að sækja tamningahross og sumir að líta að ættingjana.
Bara góður dagur þrátt fyrir rokið og lækkandi hitastig.


26.07.2009 23:26

Afmæli og nafngiftir



Þetta er hann Kostur minn sem nýtur þarna veðurblíðunnar spertur og athugull.

Í gær var brunað á suðurlandið og farið í afmæli hjá góðri vinkonu. Afmælið var haldið í Hestheimum og var hreint alveg frábært. Breiðbandið úr Keflavík var tær snild, ég get svo svarið það að mér er ennþá illt í maganum eftir hláturinn. 
Veisluhöldin héldu svo áfram í dag en þá var boðið uppá þetta fína afmæliskaffi í gamla bænum í tilefni af afmælinu hans Ragnars sem er á morgun. Það hittist líka svo skemmtilega á að frændfólk sem er ekki oft á ferðinni leit við og sötraði með okkur kaffisopa.
 Alltaf gaman að fá skemmtilega gesti.

Nokkur folöld voru örmerkt í dag og fengu við það nöfn sem verða upplýst hér og nú.

Kostur er undan Tign og Sparisjóði.
Stjarna er undan Upplyftingu og Feiki frá Háholti.
Roði er undan Létt og Arði frá Brautatholti.
Dimmir er undan Dimmu og Sparisjóði.
Hófur er undan Skeifu og Feyki frá Háholti.

Margur presturinn væri nú ánægður með svona margar nafngiftir á einum degi.

Tvær hryssur bættust við í girðinguna hjá honum Sparisjóði í dag Folda og Tign.
Og í girðinguna til höfðingjans Gosa fóru Dimma, Upplyfting og Skeifa.

Góður dagur sem endaði méð því að húsfreyjan bakaði pizzu að hætti hússins.

24.07.2009 23:34

Vinnukonurnar í hundana og Dimman köstuð.



Á þessari mynd eru okkar góðu vinnukonur komnar í hundana í orðsins fyllstu merkingu.
Deila, Ansu, Þorri, Astrid og Ófeigur.

Dagurinn í dag fór nú ekki allur í það sem lagt var upp með í morgun. Það átti að keyra heim rúllur af miklum móð, girða og ríða út. Skemmst er frá því að segja að ekki urðu nú afrekin mikil í rúlluakstri, Claasinn okkar fíni tók sér veikindafrí í dag en verður vonandi kominn til heilsu á morgun. Girðingavinnan gekk vel og verður þessi líka fína girðing tilbúin á morgun. Hvert girðingarhólf hjá okkur hefur sitt nafn til að auðvelda sundurgreiningu en þar sem að þessi er ný er ég enn að velta fyrir mér hvað hún verði kölluð.
Mikið var riðið út í dag meðal annars byrjað á tveimur nýjum folum sem lofa bara góðu við fyrstu sýn. Eigendur tamningahrossa komu að líta á gripina sína og finnskar dömur komu og fóru á hestbak.
Fyrirmyndarhestur dagsins var hann Glundroði sem að hún Ansu prófaði í fyrsta sinn.
Dimma kastaði í morgun og átti brúnstjörnóttan hest faðirinn er Sparisjóður minn. Nú verður húsbóndinn að leggja höfuðið í bleyti og ákveða hvert Dimman á að fara undir stóðhest og hvað nýji gripurinn á að heita.

Á morgun ætla ég að smella undir mig betri löppinni og fara í afmæli til stöllu minnar á suðurlandinu......................spennandi.

23.07.2009 23:03

Í dagsins önn............



Þessi mynd heitir..........Drottningin í fjöllunum...................er það ekki gott nafn?

Veðrið í dag var nú kannske ekki alveg í takt við það sem það var í síðustu viku en samt ekki svo slæmt. Með örðum orðum svona gott vont, það komu leiðinda kuldaskúrir en svo glampandi sól á milli. Ég hugsaði til ferðafélaga minna sem að smelltu sér í norðurlandið í gær þegar að verstu demburnar gengu yfir. Örugglega ekki verið notalegt ferðaveður. Hitastigið er ekki hátt núna en það er næstum komið logn svo að þetta stendur allt til bóta.

Vaskir sveinar keyrðu heim rúllur í óða önn en hinir fjallabúarnir riðu út og stússuðu í hrossum.
Það komu nokkrir eigendur að líta á gripina sína í dag og aðrir koma á morgun. Eftir helgi kemur svo næsti stóri hestaferðahópur þannig að góðar girðingar verða að vera klárar.

Ég hef uppi nokkur góð áform um að framkvæma ýmislegt á næstunni en veit samt ekki hvort að ég á að segja ykkur frá þeim. Það er nefninlega ekki víst að ég hafi það af að efna þau og framkvæma. Læt samt vaða............en algjörlega án skuldbindinga.

1. Verða betri að ríða í söðlinum mínum.
2. Prjóna bláan kjól (er að verða næstum því ,,amma,, innan skamms)
3. Læra að nota matarlím.
4. Heimsækja vini sem ég hef hitt alltof lítið.

Fyrirmyndarhestur dagsins var hann Hlátur minn, bauð Skúla að prófa hann og var bara nokkuð sátt.

22.07.2009 23:32

Sætir bossar og einn Þristur.



Sætir bossar.................þetta er hún Létt með ungan son sinn og Arðs frá Brautarholti sem að hefur enn ekki fengið nafn. Ýmsar hugmyndir eru í gangi en ekki komin endanlega niðurstaða. Létt bíður nú eftir 30 júlí en þá leggur hún land (kerru) undir fót og fer til hans Glyms frá Skeljabrekku.
Nú eru bara tvær hryssur eftir að kasta þær Skúta og Dimma. Við bíðum spennt og vonum það besta að allt gangi vel.

Í fréttum dagsins ber þar hæðst að hún Andrá mín kom heim fylfull við honum Þristi frá Feti. Ég er rosalega ánægð með það og leyfi mér að vona að ég fái skjótta hryssu. Gæti með því komið mér upp nýrri Skjónu en fyrsti hesturinn minn var einmitt skjótt hryssa. Annars verð ég ánægð bara ef að ég fæ folald og  slétt sama um litinn þó svo að ég gefi annað í skin. Andrá sveikst um að koma fylfull heim í fyrra en þá var hún hjá Álfi frá Selfossi fram á haust.
Ég á svo góða granna útí Söðulsholti að ég slapp alveg við að bruna á suðurlandið hann Einar tók hryssuna með sér heim. Takk fyrir það Einar.

Það var mikið riðið út í dag og veðrið alveg indælt.
Fyrirmyndarhestur dagsins var Litla-Perla sem var hvers manns hugljúfi í dag.

Vaskir sveinar sem að stunda heyskapinn af kappi hér í Hlíðinni stóðu sig vel að vanda og kláruðu að rúlla á Vörðufelli. Síðan var komið við á Oddastöðum og klárað að rúlla þar líka.
Núna liggur ekkert flatt og einungis nokkur smá stykki eftir, ætli sé ekki best að bíða með að slá þau þar til miðsumarshretið er gengið yfir?



21.07.2009 21:32

Afmæli, ferðahópur og heyskapur.



Hún á afmæli í dag emoticon  hún á afmæli í dag  emoticon hún á afmæli hún Astrid  emoticon hún á afmæli í dagemoticon  innilega til lukku með 20 árin Astrid.
 Á myndinni eru Astrid og Folda að spóka sig í blíðunni.

Það fór hratt lognið í Hlíðinni þennan daginn en sólin skein glatt og það var hlýtt og gott.
Í gær riðum við suður fyrir vatn og að Heggsstöðum á heimleiðinni tókum við svo á okkur krók og  höfðum viðkomu í Draugagilinu og síðan til baka og heim. Þó svo að ég hafi verið búin að lofa blíðu stóðst það nú ekki alveg, lognið tók svolitlar rokur og var með smá leiðindi. En reiðtúrinn heppnaðist vel og vonandi voru allir ánægðir.
Ferðahópurinn lagði svo af stað norður í Húnaþing í dag reið héðan Fossaleiðina og að Kringlu. Takk fyrir frábæra viku Steinbjörn og félagar.

Heyskapurinn hefur gengið nokkuð vel undanfarið þrátt fyrir rokið, okkar vösku sveinar hafa séð til þess. Núna er verið að heyja á Vörðufelli og vonandi klárast það áður en að miðsumarshretið hans Einars Sveinbjörnssonar kemur.

Á morgun bruna ég austur að Akurey til að sækja hana Andrá mína til hans Þrists frá Feti.
Vonandi er hún orðin fylfull og þá læt ég mig dreyma um að það sé skjótt hryssa.

19.07.2009 23:07

Alltaf svo gaman...........



Já mamma mín auðvitað geri ég það....................................
Þarna eru mæðginin Þorri og Deila að ræða saman í góða veðrinu, sem er næstum alltaf í Hlíðinni. Ég gat ekki heyrt betur en að smalamennskur haustsins væru alveg að komast á hreint og verkaskiptingin væri að fara í gegn um síðustu umræðu.

Síðustu dagar hafa verið afar skemmtilegir þegar ég skrifaði síðast þá vorum við stödd með hestana í Tröðum. Í gærkveldi var svo riðið frá Tröðum í Hömluholt, fjörurnar voru æðislegar og ekki var nú dónalegt að njóta kvöldsólarinnar í blíðunni.
Í morgun riðum við svo frá Hömluholti í Kolviðarnes síðan afar skemmtilega leið upp hjá Höfða og fram að Heiðarbæ. Enduðum svo með allan flotann hér í Hlíðinni seinni part dagsins. Ég var að rifja það upp á leiðinni frá Höfða hvað það var gaman og spennandi að fara þessa leið þegar ég var lítið stelpuskott. Þá var þessi leið óralöng og spennandi ævintýri frá upphafi til enda. Og það sem meira var maður varð bara alveg rígfullorðinn við að fara þessa leið. Það var kostur þá, en núna??? Jú maður yngist um mörg ár við að fara þessa skemmtilegu leið með góðu fólki.
Ferðin hefur gengið mjög vel reksturinn verið rólegur og hestar og menn notið veðurblíðunnar. Auðvitað hefði verið gaman að hafa allan flotann með en það verður í næstu ferð. Eins kom ég ekki við hjá öllum sem að ég er vön að koma við hjá á ferðum mínum um þessar slóðir. En það verður örugglega næst ekki spurning.
Þegar komið var í hús í kvöld var mér litið í spegil og sá þá mér til mikillar ánægju að ég hafði tekið mjög ,,góðan,, lit í dag. Gamanið kárnaði þó þegar ég smellti mér í sturtuna og kom ég heldur fölleit undan henni. Það er ekki tekið út með sældinni að reyna að vera pæja.
Á morgun er svo á dagskrá að ríða í kringum Hlíðarvatn og hefur húsfreyjan lofað blíðu sem að vandræðalegi veðurfræðingurinn á Rúv staðfesti svo í kvöldfréttunum. Allt klárt.
Fyrirmyndarhestur dagsins...................æi get ekki gert uppá milli.

Snör var sónarskoðuð á laugardaginn hún reyndist fylfull við honum Ramma frá Búlandi. Björgvin dýralæknir var næstum ,,öruggur,, með að þetta væri mósótt hryssa eins og til stóð..............maður má nú láta sig dreyma. Nú er bara að bíða og sjá hvað kemur næsta vor.

Fjöldi fólks var á tjaldstæðinu um helgina og fór nær allt vel fram. Þó hafa einhverjir haft óþarfa orku á sínum snærum og ákveðið að nýta hana í skjóli nætur til að vinna
skemmdarverk. Urðu nokkrar heyrúllur fyrir barðinu á þessum aðilum sem hafa eytt kröftunum í að velta þeim til og jafnvel alla leið ofan í flæðarmál.
Áhugamál manna eru misjöfn sumir eyða orkunni á jákvæðan hátt aðrir vanda minna til verka og gleyma jafnvel alveg að hugsa.....................áður en þeir framkvæma.